Umhverfis- og skipulagsráð - 68. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar

Ár 2004, þriðjudagurinn 20. janúar kl. 09:00 var haldinn 68. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Baldvin Baldvinsson, Björg Helgadóttir, Haraldur Sigurðsson, Ólafur Bjarnason, Ólafur Stefánsson, Sigurður Skarphéðinsson, Stefán Finnsson, Stefán Haraldsson og Þorgrímur Guðmundsson

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2002070112 1. Lagt fram bréf yfirlögregluþjónsins í Reykjavík, dags. 15.01.2004, varðandi 30 km. hámarkshraða innan hverfa sem samþykkt voru af samgöngunefnd til framkvæmda, dagsett 6. janúar 2004.

Mál nr. 2003050281 2. Lagður fram úrskurður Skipulagsstofnunar (ódags.) um mat á umhverfisáhrifum vegna tvöföldunnar á Vesturlandsvegi.

Mál nr. 2003020067 3. Lagt fram yfirlit yfir viðskipti Gatnamálastofu Reykjavíkur við Innkaupastofnun Reykjavíkur í desember 2003, dags. 09.01.2004. Einnig lögð fram greinagerð um aðkeypta vöru og þjónustu.

Mál nr. 2003030036 4. Sniðtalningar ársins 2003. Björg Helgadóttir kynnti.

Mál nr. 2002010049 5. Lagt fram bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 12.01.2003, varðandi tillögu um að sett verði gangbrautarljós á Kringlumýrarbraut norðan við Hamrahlíð. Samþykkt.

Fulltrúi Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuði bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þann seinagang sem verið hefur í framkvæmdum á mótun Miklubrautar, Kringlumýrarbrautar og nærliggjandi svæðum. Umferðaröryggi á staðnum er verulega ábótavant, jafnt fyrir akandi, gangandi og hjólandi umferð. Því miður hefur meirihlutinn í borgarstjórn ekki borið gæfu til að reka þetta mál af nokkrum myndarskap, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Stefnuleysi og hringlandaháttur hefur því miður frekar verið einkenni hans í þessu máli. Af þessum sökum neyðist samgöngunefnd trekk í trekk til að samþykkja bráðabirgðalausnir til að auka öryggi á svæðinu.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskuðu bókað:

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir ákveðinni umferðarlausn á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Lengi hefur verið ljóst að hefðbundin, mislæg slaufumannvirki komast ekki fyrir af skipulagsástæðum. Því hefur verið unnið í samráði við Vegagerðina að lausn sem er ásættanleg miðað við umhverfis, skipulags og umferðaröryggis. Það skiptir miklu máli að vanda vel til undirbúnings og verksins sjálfs enda mikilvægt að sú lausn sem valin verður reynist vel. Á það skal einnig bent að í ár á að koma göngubrú yfir Kringlumýrarbraut við Hamrahlíð og er mikilvægt að gert verði ráð fyrir henni í framtíðarskipulagi. Meðan fjárveitingar úr ríkissjóði til vegamála á höfuðborgarsvæðinu eru það takmarkaðar að ekki eru veittir fjármunir í nauðsynlegar samgöngubætur verða borgaryfirvöld að bregðast við með bráðabirgðalausnum, m.a. til að tryggja umferðaröryggi.

Fulltrúi Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskaði bókað:

Eins og fulltrúar meirihlutans vita mætavel, er ástæða seinagangs á téðum gatnamótum ekki sú að fé hafi skort úr ríkissjóði. Það hefur vegamálastjóri ítrekað staðfest í fjölmiðlum. Meirihlutinn í borginni hefur einfaldlega ekki haft skýra stefnu í þessu máli og miðað við orð formanns samgöngunefndar í fjölmiðlum undanfarna mánuði er enn ekki ljóst hvort og þá hvenær ráðist verður í þessar mikilvægu framkvæmdir.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskuðu bókað:

Það liggur fyrir skýr stefna í Aðalskipulagi Reykjavíkur sem gerir ráð fyrir Kringlumýrarbraut í göng undir Miklubraut. Í samgönguáætlun ríkisins hefur ekki verið gert ráð fyrir sérstökum fjármunum í þessi tilteknu gatnamót og ríkið haldið því fram að við borgaryfirvöld væri að sakast sökum seinaskaps í skipulagsmálum. Það er af og frá. Á umliðnum árum hefur aldrei verið tiltekið fjármagn í gatnamótin sjálf. Fulltrúar Vegagerðarinnar hafa upplýst borgaryfirvöld að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum í gatnamótin fyrr en árið 2006. Það segir allt sem segja þarf.

Mál nr. 2003100075 6. Lagt fram bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 06.01.2004, varðandi sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða við Túngötu 7. Samþykkt.

Mál nr. 2003050395 7. Gönguleiðir skólabarna. Yfirverkfræðingur Verkfræðistofu RUT kynnti.

Mál nr. 2002070112 8. 30 km hámarkshraði fyrir árið 2004. Tillaga. Yfirverkfræðingur Verkfræðistofu RUT kynnti.

Mál nr. 2002110059 9. Lögð fram til kynningar 3ja ára áætlun Bílastæðasjóðs fyrir árin 2005-2007, ódagsett.

Mál nr. 2001040174 10. Lagt fram bréf, dags. 19.01.2004, varðandi erindi sem borist hafa ritara samgöngunefndar. Samþykkt.

Mál nr. 2002110059 11. GSM greiðslu og eftirlitskerfi fyrir bílastæðasjóð. Drög að skilmálum kynntir. Frestað.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 10:45

Gísli Marteinn
Haukur Logi Karlsson
Steinunn Valdís Óskarsdóttir