Umhverfis- og skipulagsráð
Fundargerð samgöngunefndar
Ár 2003, þriðjudaginn 02. desember kl. 09:00 var haldinn 66. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.
Þessir sátu fundinn: Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Kjartan Magnússon, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Björn Ingi Sveinsson, Haraldur Sigurðsson, Lech Padjak, Ólafur Bjarnason, Stefán Finnsson og Stefán Haraldsson.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
Kjartan Magnússon fulltrúi sjálfstæðismanna óskaði bókað: Á síðasta fundi samgöngunefndar var formanni nefndarinnar tilkynnt, að undirritaður hygðist leggja fram fyrirspurn á fundinum. Formaðurinn neitaði undirrituðum að leggja umrædda fyrirspurn fram með þeim rökstuðningi að honum bæri ekki skylda til þess að taka önnur mál fyrir en þau sem bærust innan tilskilins frests inn á undirbúningsfund samgöngunefndar en sá frestur mun vera 4-5 dagar. Undirritaður telur að með þessu hafi Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar, misbeitt valdi sínu enda er löng og athugasemdarlaus venja fyrir því í samgöngunefnd og öðrum nefndum borgarinnar að taka fyrirspurnir, tillögur og bókanir á dagskrá í lok fundar þótt þær hafi ekki borist með margra daga fyrirvara. Er miður að formaðurinn láti persónulega afstöðu sína til fyrirspyrjenda hverju sinni ráða því hvort leyfa skuli framlagningu fyrirspurna frá þeim um málefni samgöngunefndar og reyni að ná sér niðri á nefndarmönnum með því að neita þeim um slíkt.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: Nýlega fór af stað vinna sem miðar að því að skýra betur fundarsköp nefnda og á að miða að því að festa betur í sessi vinnubrögð og vinnulag innan borgarstjórnar. Formenn borgarstjórnarflokkana með forseta borgarstjórnar eru allir sammála um mikilvægi þeirrar vinnu. Því er vísað á bug að misbeiting valds og brot á fundarsköpum hafi átt sér stað á síðasta fundi.
Kjartan Magnússon fulltrúi sjálfstæðismanna óskaði bókað: Undirritaður fagnar því að unnið sé að því að bæta vinnubrögð og vinnulag innan borgarstjórnar. Vonandi verður sú vinna til þess að vinnubrögð eins og formaður samgöngunefndar varð uppvís að á síðasta fundi nefndarinnar, endurtaki sig ekki.
1. Mál nr. 2003090089. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar f.h. borgarráðs dags. 27.11.2003, varðandi stöðubann við Sogaveg.
2. Mál nr. 2003020109 Lagt fram svar aðstoðarframkvæmdastjóra Strætó bs., dags. 27.11.2003, við fyrirspurn Hauks Loga Karlssonar fulltrúa Reykjavíkurlistans, er lögð var fram á fundi samgöngunefndar Reykjavíkur 4. nóvember sl.
Haukur Logi Karlsson fulltrúi Reykjavíkurlistans óskaði bókað:
Áætlaður kostnaður við breytinguna er á bilinu 50-70 milljónir og er þá ekki gert ráð fyrir mögulegum auknum viðskiptum í kjölfar hagstæðari fargjalda. Það er rétt að stórnotendur njóta góðra kjara kaupi þeir rauðakortið. Annað gildir um þá sem áhuga hafa á að nota strætó ásamt öðrum ferðamátum. Til dæmis þá sem fara ferða sinna fótgangandi eða á reiðhjóli nema þegar veður er leiðinlegt eða þegar farið er í lengri ferðir. Nauðsyn er að gefa þessum hópi skólafólks möguleika á hagstæðari fargjöldum en nú tíðkast. Gæti það orðið ásamt kynningu á breytingunni í skólum borgarinnar til að fjölga farþegum Strætó. Því hvet ég stjórn Strætó til að skoða hugmyndina næst þegar gjaldskrá verður endurskoðuð.
3. Mál nr. 2002010013. Lagt fram bréf Ólafs Kr. Hjörleifssonar, f.h. borgarstjórnar, dags. 24.11.2003, varðandi beiðni um fjölgun bílastæða við Ofanleiti 19-21.
4. Mál nr. 2001080070. Lagður fram rafpóstur Susan Palfreeman, dags. 08.10.2003, varðandi mikinn umferðarþunga við Jaðarsel og ótryggar gönguleiðir skólabarna, sem og bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 01.12.2003. Samþykkt.
5. Mál nr. 2003020005. Lagt fram bréf íbúa Hvassaleitis 28-30, ódags., vegna yfirstandandi framkvæmda í hverfinu. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
6. Mál nr. 2003110045. Umferðarskólinn Ungir vegfarendur. Lagður fram rafpóstur sviðsstjóra umferðaröryggis vegna verkefna sem Umferðarráð hefur annast fyrir Reykjavíkurborg, dags. 21.11.2003.
7. Mál nr. 2003030057. Lagður fram rafpóstur Jakobs Aðils, dags. 12.11.2003, varðandi ósk um hraðahindrun í Skaftahlíð sem og bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 01.12.2003. Samþykkt.
8. Mál nr. 2001030040 Lagt fram bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 25.11.2003, varðandi tillögu að lækkun hámarkshraða á götum í 30 km hverfum sem voru til framkvæmda árið 2003. Frestað.
9. Lagt fram bréf ritara samgöngunefndar dags. 26.11.2003, varðandi erindi er borist hafa nefndinni.
a. Mál nr. 2002040018. Bréf Víðis Þorgrímssonar og Egils Ásgrímssonar, dags. 14.11.2003, varðandi akstursstefnu á Bergstaðastræti milli Laugavegs og Skólavörðustígs. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
b. Mál nr. 2003110020. Bréf frá fulltrúum foreldra barna í Laugarneshverfi, dags. 12.11.2003, varðandi ósk um göngubrýr yfir Reykjaveg og Sundlaugarveg o.fl. aðgerðir. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
c. Mál nr. 2003110050 Bréf íbúa Réttarholtsvegs, dags. 12.11.2003 óundirritað, varðandi aðgerðir til að draga úr umferðarhraða á Réttarholtsveg og ósk um hljóðmön og bréf Gatnamálastjóra dags. 25.11.2003, um sama efni. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
d. Mál nr. 2003080099. Bréf forsvarsmanna svæðisfélagsins í Mjódd ódags. varðandi vegaframkvæmdir í Mjódd sem og bréf Gatnamálstjóra dags. 25.11.2003. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
e. Mál nr. 2003110061. Bréf Magnúsar Bergssonar, f.h. Landssamtaka hjólreiðamanna, dags. 27.11.2003, varðandi beiðni um að lögð verði bein hjólreiðabraut meðfram Vesturlandsvegi að byggðarkjarna Kjalarness. Vísað til Verkfræðistofu RUT.
f. Mál nr. 2002020020. Lagður fram rafpóstur Arnars Garðarssonar, formanns húsfélags Básbryggju 1-21 og 2-26, dags. 27.11.2003, varðandi ósk um að vegur sem liggur frá Stórhöfða niður á Sævarshöfða verði lagaður. Vísað til Verkfræðistofu RUT og Gatnamálastjóra.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 09:30
Gísli Marteinn
Haukur Logi Karlsson
Kjartan Magnússon
Óskar Dýrmundur Ólafsson
Steinunn Valdís Óskarsdóttir