Umhverfis- og skipulagsráð - 64. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar


Ár 2003, þriðjudaginn 11. nóvember kl. 09:30 var haldinn 64. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur, Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Einnig komu á fundinn: Baldvin Baldvinsson, Haraldur Sigurðsson, Ólafur Bjarnason, og Stefán Haraldsson.  

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Mál nr.
Lögð fram starfsáætlun Gatnamálastofu fyrir árið 2004.
Gatnamálastjóri kynnti.

Kjartan Magnússon kom á fundinn kl. 10:00.

Starfsáætlun Gatnamálastofu samþykkt.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins.  
Vísað til borgarráðs.

2. Mál nr. 2003110015
Lögð fram framkvæmdaáætlun Gatnamálastofu fyrir árið 2004.
Gatnamálastjóri kynnti.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom á fundinn kl. 10:10.

Framkvæmdaáætlun Gatnamálastofu samþykkt með 2 samhljóða atkvæðum.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.

Kjartan Magnússon fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd óskaði bókað:

Undirrituðum þykir miður að í svokölluðu #GLsvari#GL formanns samgöngunefndar við fyrirspurn Sjálfstæðismanna um samgönguviku skuli formaðurinn í engu svara fyrirspurninni með málefnalegum hætti en kjósa heldur að ráðast að samstarfsmönnum sínum í samgöngunefnd með stóryrðum og jafnvel ósannindum.  Slíkt hefur löngum verið háttur rökþrota manna.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að tilefni fyrirspurnar Sjálfstæðismanna var umfjöllun fjölmiðla um samgönguviku en í a.m.k. tveimur þeirra kom fram að á sjálfan bíllausa daginn hefði formaður samgöngunefndar Reykjavíkur ekið um borgina í embættisbifreið sinni með einkabílstjóra.  Fréttaflutningur af samgönguvikunni var í flestum tilvikum jákvæður en fullyrða má að þessar fréttir af breytni helsta hvatamanns þess, að almenningur notaði ekki einkabílinn á bíllausa daginn, hafi vægast sagt verið óheppilegar.  Víst er að slíkar fréttir hafa ekki verið til þess fallnar að auka tiltrú almennings á bíllausa deginum eða hugmyndafræði hans og er það miður þar sem kostnaður við kynningarmál o.fl. vegna samgönguviku og bíllausa daginn nam milljónum króna af fé skattgreiðenda  Formaðurinn getur varla borið fyrir sig vanþekkingu á hugmyndafræði #GLbíllausa dagsins#GL þar sem hann hefur farið í sérstakar utanlandsferðir til að kynna sér þau mál.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna ítreka þakkir sínar til þeirra starfsmanna borgarinnar sem störfuðu að samgönguviku enda tókst hún vel í flesta staði en áskilja sér að sjálfsögðu rétt til að benda einnig á það sem miður fór og telja sjálfsagt að ræða um það fyrir opnum tjöldum á fundum samgöngunefndar.  Það væri beinlínis óeðlilegt ef nefndin fjallaði ekki um hina neikvæðu fjölmiðlaathygli sem samgönguvikan hlaut, jafnt sem hina jákvæðu, þegar afrakstur samgönguviku er gerður upp.  Greinilegt er að formaðurinn telur neikvæða fjölmiðlaumfjöllun um málefni samgöngunefndar ekki eiga erindi inn á fundi nefndarinnar, a.m.k. þegar hann sjálfur á í hlut.
Augljóst er að formaður samgöngunefndar hefur sárreiðst þessari umfjöllun fjölmiðla en eðlilegra væri að hann léti reiði sína bitna á viðkomandi fjölmiðlum í stað þess að beina henni að samstarfsmönnum sínum í samgöngunefnd sem velta upp hugsanlegum afleiðingum þessarar fjölmiðlaumfjöllunar.
Því miður grípur formaður samgöngunefndar til ósanninda þegar hann segir að undirritaður hafi ekki úr háum söðli að detta hvað varðar notkun á fjölbreyttum fararmáta í samgönguviku.  Þótt það sé þessu máli óviðkomandi, skal tekið fram að undirritaður nýtti sér fjölbreyttan ferðamáta í samgönguviku sem endranær og notaði bíl, hjólhest, strætisvagna og fæturna.  Á bíllausa daginn notuðust fulltrúar Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd við aðra fararmáta en einkabílinn við að komast ferða sinna um borgina eins og formaður samgöngunefndar hafði farið fram á við almenning í fjölmörgum viðtölum í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum.  Töldu fulltrúar Sjálfstæðismanna rétt að ganga á undan með góðu og skilja bílinn eftir heima á bíllausa daginn og vakti það því óneitanlega furðu undirritaðs þegar fram kom í fjölmiðlum að á sama degi hefði aðal-hvatamaður átaksins farið um borgina í embættisbifreið sinni með einkabílstjóra undir stýri.  Vekur furðu að formaður gefi það í skyn í opinberri bókun að nafngreindur fulltrúi í samgöngunefnd hafi #GLekki úr háum söðli að detta#GL hvað þetta varðar og fer undirritaður fram á það að formaður útskýri hvað hann eigi við með þessari fullyrðingu sinni.  Engu er líkara en formaðurinn sé með þessu að gefa í skyn að fylgst hafi verið með ferðum undirritaðs í umræddri samgönguviku fyrst hann treystir sér til að gefa slíka einkunn.  Ljóst er að slíkar dylgjur jaðra við rógburð.
Vegna fullyrðingar formannsins um að slíkar fyrirspurnir séu fordæmislausar, skal tekið fram að ýmis fordæmi eru fyrir sambærilegum fyrirspurnum í nefndum borgarinnar, m.a. frá samflokksmönnum formannsins sem hægt er að nefna dæmi um ef hann óskar eftir.  Í þessum efnum sem öðrum væri þó æskilegt að hann læsi sér betur til áður en hann grípur til rangra fullyrðinga.
Í því #GLsvari#GL sem formaður samgöngunefndar lagði fram á síðasta fundi eru ýmis stóryrði sem ekki eru svaraverð en þar eru hvergi að finna svör við fyrirspurnum okkar Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd sem beint var til formannsins.  Óhjákvæmilegt er því að leggja fyrirspurnina fyrir að nýju og óska eftir því að henni verði svarað.  Tekið skal fram að fulltrúar Sjálfstæðismanna óskuðu eftir því á fundi nefndarinnar 7.október að málefni samgönguviku yrðu tekin til almennrar umfjöllunarinnar á fundi nefndarinnar.   Þá svaraði formaður því til að það yrði gert á næsta fundi þar á eftir.  Það hefur ekki enn verið gert og er þetta þó fjórði fundur nefndarinnar síðan við Sjálfstæðismenn óskuðum eftir þessari umfjöllun.


Formaður samgöngunefndar óskaði bókað:
Borgarfulltrúi Kjartan Magnússon hefur þegar fengið svar við fyrirspurn sinni.  Ekki verður frekar staðið í bréfasendingum við borgarfulltrúa vegna þessa máls.  Varðandi fullyrðingar um dylgjur og rógburð er þeim vísað til föðurhúsa.


Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 10.40.


Árni Þór Sigðurðsson
Gísli Marteinn
Kjartan Magnússon
Steinunn Valdís Óskarsdóttir