Umhverfis- og skipulagsráð - 63. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar

Ár 2003, föstudaginn 7. nóvember kl. 10:30 var haldinn 63. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í sal borgarráðs í Ráðhúsinu.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson og Steinunn V. Óskarsdóttir.

Einnig komu á fundinn: Ágúst Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, Ólafur Bjarnason og Stefán Haraldsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram breytt útgáfa að starfsáætlun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur fyrir árið 2004.  Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri kynnti.  Starfsáætlun Bílastæðasjóðs samþykkt með 2 samhljóða atkvæðum.  Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd sat hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom á fundinn kl. 10:40.

2. Lögð fram starfsáætlun skrifstofu borgarverkfræðings og Verkfræðistofu RUT fyrir árið 2004.  Björn Ingi Sveinsson og Ágúst Jónsson kynntu.  Samþykkt. með 3 samhljóða atkvæðum.  Fulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.

3. Formaður samgöngunefndar lagði fram svar við fyrirspurn fulltrúa  Sjálfstæðisflokks.
Lögð fram í nefndinni greinargerð um Evrópsku samgönguvikuna og þar verður að finna efnisleg svör við fyrirspurn 1. og 2.

Foringja D-listans í samgöngunefnd verður ekki legið á hálsi fyrir að fara hefðbundnar leiðir í störfum sínum í borgarstjórn.  Í framlagðri fyrirspurn freistar hann þess að gera formann samgöngunefndar tortryggilegan og draga heilindi hans varðandi breyttan ferðamáta í borginni í efa.  Fyrirspurnin hefur að sjálfsögðu ekkert með málefnið að gera en efni hennar og þeim tóni, sem greina má í henni, er fyrst og fremst ætlað að veitast að persónu formanns nefndarinnar.  Fyrirspyrjanda til upplýsinga skal það þó tekið fram að formaður samgöngunefndar notar iðulega ýmsa ferðamáta í daglegum störfum, hann fer ferða sinna ýmist fótgangandi, akandi eða í strætó, auk þess að nýta reiðhjólið stöku sinnum.  Í samræmi við hugmyndafræði Evrópsku samgönguvikunnar nýtti formaður samgöngunefndar einmitt hina fjölbreyttu ferðamáta þá daga sem vikan stóð eins og endra nær.  Í þeim samanburði á borgarfulltrúi Kjartan Magnússon ekki úr háum söðli að detta, þó það sé efni þessa máls óviðkomandi.  Sú aðferð sem borgarfulltrúi Kjartan Magnússon velur við að reyna að koma höggi á formann samgöngunefndar er líklega fordæmalaus innan borgarstjórnar.  Hann kýs að leggjast á kaf í forarpytt í þeim tilgangi en verður sér um leið til minnkunar.  Formaður samgöngunefndar þolir vel persónulegt skítkast af hálfu Kjartans Magnússonar, en með vinnubrögðum sínum dregur hann einnig félaga borgarstjórnarflokks D-listans með sér inn á sömu braut.  Ekki vex vegsemd þeirra fyrir vikið.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 10:50


Árni Þór Sigurðsson
Haukur Logi Karlsson
Gísli Marteinn Baldursson
Steinunn V. Óskarsdóttir