Umhverfis- og skipulagsráð - 62. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar


Ár 2003, þriðjudaginn 4. nóvember kl. 09:00 var haldinn 62. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Einnig komu á fundinn: Ágúst Jónsson, Ásgeir Eiríksson, Baldvin Baldvinsson, Björn Ingi Sveinsson, Ólafur Bjarnason, Stefán Finnsson og  Stefán Haraldsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram starfsáætlun skrifstofu borgarverkfræðings fyrir árið 2004.  Ágúst Jónsson skrifstofustjóri borgarverkfræðings kynnti.
Frestað.

2. Lögð fram starfsáætlun Verkfræðistofu RUT fyrir árið 2004.  Ólafur Bjarnason forstöðumaður Verkfræðistofu RUT kynnti.
Frestað.

3. Lögð fram starfsáætlun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur fyrir árið 2004.  Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs kynnti.
Frestað.

Mál nr. 2003020069
4. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar Reykjavíkur varðandi viðskipti við Gatnamálastofu í september 2003.

5. Mál nr. 2002090064
Lagt fram bréf Halldóru Gunnarsdóttir f.h. hverfisráðs Kjalarness, dags. 08.10.2003, um mikilvægi þess að málefni sem snerta Kjalarnes komi til kynningar á hverfisráði Kjalarness.

6. Mál nr. 2003020109
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar f.h. borgarstjórnar, dags. 03.10.2003, um tillögu að lækkun fargjalda Strætó bs.,  einnig lagt fram minnisblað Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Strætó bs., dags. 03.11.2003.

Haukur Logi Karlsson fulltrúi Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hvaða kostnað hefði það í för með sér að lækka fargjöld aldurshópsins 16-24 ára niður í 1000 kr.  fyrir 10 miða kort og gefa 1000 kr. afslátt af græna kortinu?  Þessi kjör fengjust gegn framvísun skólaskírteina.

Mál nr. 2003090089
7. Lagt fram bréf yfirlögregluþjónsins í Reykjavík, dags. 21.10.2003, varðandi stöðubann við Sogaveg.

8. Mál nr. 2003100077
Lagt fram bréf Sigrúnar Ó. Einarsdóttur, dags. 29.09.2003, varðandi ósk um lausn á skipulagsvanda í Grundarhverfi á Kjalarnesi.
Vísað til gatnamálastjóra.

9. Mál nr. 2001040174
Lagt fram bréf ritara samgöngunefndar þar sem lagt er til að samgöngunefnd Reykjavíkur samþykki afgreiðslu mála er borist hafa ritara nefndarinnar.

10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Undirritaðir vilja þakka þeim sem störfuðu að dagskrá og viðburðum vegna nýafstaðinnar samgönguviku, fyrir vel unnin störf.  Óskað er eftir að afrakstur þessa starfs verði kynntur í samgöngunefnd.  M.a. er óskað eftir svörum við eftirtöldum fyrirspurnum:
1. Samgönguvikan náði hámarki með svonefndum bíllausum degi en þá voru borgarbúar hvattir til þess að skilja bifreiðar sínar eftir heima og nota aðra fararskjóta, t.d. reiðhjól eða almenningsvagna.  Er vitað til þess að þessi hvatning hafi skilað áþreifanlegum árangri að þessu sinni?
2. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað vegna samgönguviku.
3. Formaður samgöngunefndar var tíður gestur í fréttaviðtölum og spjallþáttum í tilefni af samgönguviku og stóð hann sig með prýði í því hlutverki.  Beindi hann þeim tilmælum til almennings að skilja bílinn eftir heima og notast við aðra fararskjóta, t.d. reiðhjól eða almenningsvagna.  Raunar viðurkenndi formaðurinn í sjónvarpsviðtali í upphafi samgönguviku að hann hefði sjálfur komið á einkabílnum.  Í lok samgönguviku var síðan upplýst í fjölmiðlum að á sjálfan bíllausa daginn, sama dag og almenningur var hvattur til að skilja bílinn eftir heima, hefði formaður samgöngunefndar farið ferða sinna um borgina í opinberri embættisbifreið með einkabílstjóra.
Telur formaður að slíkur ferðamáti hafi verið í samræmi við hugmyndafræði bíllausa dagsins sem hann var helsti hvatamaður að og svo ötull við að kynna?
Telur formaðurinn að fordæmi hans á bíllausa daginn hafi verið til þess fallið að koma þeim skilaboðum til borgarbúa að eftir nær tíu ára valdatíma R-listans í borgarstjórn, séu almenningssamgöngur í Reykjavík raunhæfur valkostur við einkabílinn?

11. Kjartan Magnússon fulltrúi Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd óskaði eftir upplýsingum um ófrágengið svæði milli Skúlagötu og Sæbrautar sem nú er notað sem bílastæði og hvort það standi til að malbika stæðið eða grípa til annarra aðgerða í því skyni að hindra uppblástur malar og ryks, sem veldur íbúum við Klapparstíg og Skúlagötu umtalsverðum óþægindum.


Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 10:10



Árni Þór Sigurðsson
Kjartan Magnússon Haukur Logi Karlsson
Gísli Marteinn Baldursson Steinunn Valdís Óskarsdóttir