Umhverfis- og skipulagsráð - 59. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2001, fimmtudaginn 25. janúar, hélt stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur 59. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 1 og hófst kl. 12,00. Mættir voru: Guðrún Erla Geirsdóttir, formaður, Sigrún Elsa Smáradóttir og Kjartan Magnússon. Auk þeirra sátu fundinn Björn Júlíusson, Guðrún Þórsdóttir og Arnfinnur U. Jónsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Skrifstofa Vinnuskóla Reykjavíkur var flutt í Borgartún 1, 20. desember 2000. Þetta var fyrsti fundur stjórnar skólans á staðnum. Skólastjóri kynnti stjórnarmönnum húsnæðið og hvernig það verður notað.

2. Þann 4. maí 2001 verða 50 ár frá samþykkt bæjarráðs Reykjavíkur um að stofna Vinnuskóla Reykjavíkur. Ólafur H. Torfason hefur verið fenginn til að skrifa afmælisrit, sem kemur út þennan dag, þar sem farið verður yfir sögu skólans og merkra viðburða í starfinu minnst.

3. Lagt fram bréf frá Hafdísi Helgadóttur, dagsett 3. janúar 2001, þar sem lagt er til að unglingunum stæði til boða að vinna í hópum sem aðeins væru skipaðir stelpum eða aðeins strákum. Stjórnin samþykkti að fela skólastjóra að gera tilraun með nokkra hópa, svona skipaða, n.k. sumar.

4. Lagt fram bréf frá Myndbæ ehf. dagsett 9. janúar 2001 með boði um gerð sjónvarpsmyndar um Vinnuskóla Reykjavíkur í fimmtíu ár. Tilboðinu var hafnað.

5. Rætt um samskipti og samstarf Vinnuskóla Reykjavíkur við grunnskólana í borginni. Skólastjóri mun senda erindi til skólastjóra grunnskólanna að höfðu samráði við fræðslustjóra.

6. Samþykkt að senda bréf til forstöðumanns kjaraþróunardeildar Reykjavíkur-borgar um laun leiðbeinenda í sumarstarfi Vinnuskólans.

7. Sagt frá fundi í Skúlatúni 2, laugardaginn 20. janúar s.l., sem boðaður var af gatnamálastjóra og þar sem fjallað var um veggjakrot. Meðal fundarmanna voru tveir starfsmenn Helsinkiborgar og fulltrúi fyrirtækis í Svíþjóð sem framleiðir hreinsiefni. Erlendu fulltrúarnir sögðu frá átaki í Helsinki til að vinna gegn veggjakroti, sem þeir nefndu ,,Helsinki-model".

Stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur er ekki sammála hugmyndafræði þessarar aðgerðar og ítrekar að unglingar Vinnuskólans komi að hreinsun veggjakrots í sumarstarfinu eins og mörgum öðrum verkefnum til snyrtingar í borginni.

8. Fundir stjórnar Vinnuskólans verða áfram annan fimmtudag í mánuði. Næstu fundir: 8. febrúar og 8. mars.

Fundi slitið kl. 14,00

Guðrún Erla Geirsdóttir
Kjartan Magnússon
Sigrún Elsa Smáradóttir