Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2001, föstudaginn 14. desember kl. 15:30 var haldinn 25. fundur samgöngunefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Fundinn sátu: Helgi Pétursson, Kristín Blöndal, Kristján Guðmundsson, Kjartan Magnússon og Helgi Hjörvar. Auk þeirra komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs. Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, Borgarskipulagi og Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs. Fundarritari var Elísabet J. Þórisdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf Ásgeirs Eiríksson, framkvæmdastjóra Stræti bs. dags. 14. desember 2001, varðandi leiðakerfisbreytingu Strætó bs, einnig lagt fram minnisblað, ódags. varðandi breytinguna. Samþykkt.
2. Formaður samgöngunefndar, Helgi Pétursson, kynnti tillögu borgarstjóra, dags. 3. desember 2001, um tillögu til breytinga á tilhögun ferða- og kynningarmála.
- Kjartan Magnússon kom á fundinn kl. 15:50.
Helgi Pétursson, formaður samgöngunefndar lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun vegna málsins: Samgöngunefnd fellst fyrir sitt leyti á meðfylgjandi tillögur til breytinga á tilhögun ferða- og kynningarmála enda telur nefndin, að þær feli í sér möguleika til skilvirkari vinnubragða. Þótt gert sé ráð fyrir, að Reykjavíkurborg eigi ekki aðild að Markaðsráði ferðaþjónustunnar eftir að samningstími þar um rennur út, er það skilningur nefndarinnar, að sömu fjármunum verði varið til markaðssetningar og kynningar á Reykjavík, þótt með öðrum hætti verði. Jafnframt leggur nefndin til, að nýrri upplýsingamiðstöð ferðamála verði skipuð þriggja manna stjórn borgarfulltrúa, sem hafi virkt samráð og samstarf við hagsmunaaðila. Framkvæmdastjóri Íþrótta- og tómstundaráðs og menningarmálastjóri sitji fundi nefndarinnar.
Kjartan Magnússon og Kristján Guðmundsson fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun og fyrirspurnir: Með fyrirliggjandi tillögum eru lagðar til miklar breytingar á tilhögun ferða- og kynningarmála í Reykjavík. Brýnt er að slík endurskipulagning heppnist vel, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem nú ríkir í ferðamálum en einnig vegna þess að stefnu- og úrræðaleysi hefur einkennt aðkomu Reykjavíkurborgar að málaflokknum á undanförnum árum. Sjálfstæðismenn benda á að í samþykkt fyrir samgöngunefnd Reykjavíkur er kveðið á um að nefndin annist ferðamál og sé borgarráði til ráðuneytis um þau, því er eðlilegt að samgöngunefnd vinni sjálf tillögur er lúta að svo afgerandi uppstokkun á ferðamálum í borginni. Sjálfstæðismenn benda á að fyrirliggjandi tillögur eru um margt óljósar hvað varðar viðskilnað borgarinnar gagnvart Upplýsingamiðstöð ferðamála og Markaðsráði ferðaþjónustunnar og í þeim er einnig margt á huldu um hvernig ætlunin er að standa að starfrækslu nýrrar upplýsingamiðstöðvar á vegum borgarinnar. Lagt er til að Reykjavíkurborg stofni og reki nýtt borgarfyrirtæki eða –stofnun, Upplýsingamiðstöð höfuðborgarinnar, en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að rekstraráætlun vegna hinnar nýju stofnunar verði lögð fram áður en nefndarmenn í samgöngunefnd eða borgarfulltrúar taka afstöðu til stofnunarinnar og þeirra fjárhagsskuldbindinga sem hún mun óhjákvæmilega hafa í för með sér. Ljóst er að svara þarf mikilvægum spurningum áður en fyrirliggjandi tillögur eru afgreiddar. Óskum við eftir því að málið verði ekki afgreitt fyrr en eftirfarandi fyrirspurnum hefur verið svarað:
1. Að hverju hefur samgöngunefnd Reykjavíkur ekki tekið þátt í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað varðandi endurskoðun ferðamála í borginni og tekið þátt í að móta tillögur þar að lútandi? 2. Í fyrirliggjandi greinargerð Kristínar A. Árnadóttur, sviðsstjóra þróunar- og fjölskyldusviðs, segir að gengið hafi verið frá samkomulagi milli aðstandenda Upplýsingamiðstöðar ferðamála um skiptingu þess 10,5 milljóna króna halla, sem varð af starfseminni á síðasta ári. Óskað er eftir því að samkomulagið verði lagt fram í heild sinni. 3. Í umræddri greinargerð segir enn fremur að núverandi tekjur og framlög miðstöðvarinnar dugi engan veginn fyrir núverandi umfangi starfseminnar. Samkvæmt þessu hefur umtalsvert tap einnig orðið á starfseminni í ár. Ef svo er, hve mikið er tapið og hver mun þurfa að greiða það? 4. Hvert er fyrirhugað rekstrarfyrirkomulag Upplýsingamiðstöðvar höfuðborgarinnar (UH)? 5. Hverjar eru áætlaðar heildartekjur UH á næsta ári og hvaðan munu þær koma? 6. Hver eru áætluð heildarútgjöld UH á næsta ári og hvernig munu þau deilast niður? 7. Gert er ráð fyrir að UH sjái um almenna upplýsingagjöf í ferðamálum fyrir Reykjavík og landið allt beri jafnframt ábyrgð á kynningar- og markaðsmálum fyrir innlendan og erlendan markað. Er ekki hætta á að þetta margþætta hlutverk og þeir hagsmunir sem því tengjast skarist verulega? Getur það t.d. farið vel saman að sama stofnun sjái um markaðsmál fyrir Reykjavíkurborg og landsbyggðina? 8. Hvert er áætlað framlag borgarsjóðs til starfsemi UH á næsta ári? 9. Liggur fyrir samkomulag frá aðilum um að þeir leggi UH til tekjur eins og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi tillögum? 10. Hvað verður um starfsfólk Upplýsingarmiðstöðvar ferðamála? 11. Hvaða húsnæði er starfsemi UH ætlað? 12. Óskað er eftir skriflegum rökstuðningi fyrir þeim tillögum að Reykjavíkurborg hætti þáttöku í Markaðsráði ferðaþjónustunnar. - Helgi Hjörvar kom á fundinn kl. 16:20.
Tillaga formanns samgöngunefndar Helga Péturssonar samþykkt. Kjartan Magnússon og Kristján Guðmundsson, sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:
Sjálfstæðismenn lýsa yfir undrun sinni og vanþóknun á því að fulltrúar R-listans kjósi að afgreiða tillögur um nýskipan svo mikilvægs málaflokks í fumi og fáti og án þess að mikilvægum spurningum hafi verið svarað. Það hlýtur t.d. að vera lágmarkskrafa að áætlun um tekjur og gjöld liggi fyrir áður en samþykkt verður að setja nýja borgarstofnun á laggirnar.
- Helgi Pétursson fór af fundinum kl. 16:30.
Fulltrúar R- listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fulltrúum Sjálfstæðismanna ætti að vera kunnugt liggur að baki mikil og ítarleg vinna sem fulltrúar meirihluta vilja nota tækifærið og þakka fyrir.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:45.
Kristín Blöndal Helgi Hjörvar
Kjartan Magnússon Kristján Guðmundsson