Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2001, mánudaginn 12. nóvember kl. 10:00 var haldinn 23. fundur samgöngunefndar í Borgartúni 3. Fundinn sátu: Helgi Pétursson, Kristín Blöndal, Kjartan Magnússon, Kristján Guðmundsson. Ennfremur komu á fundinn: Stefán Finnsson, Sigurður Skarphéðinsson, Stefán Haraldsson, Stefán Hermannsson, Baldvin Baldvinsson, Ólafur Bjarnason, Haraldur Sigurðsson, Ásgeir Eiríksson og Ingibjörg Guðlaugsdóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf Borgarskipulags Reykjavíkur dags. 5.11.2001, varðandi Sóltún 24, hurð á bakhlið, útskot á gangstétt. Frestað.
2. Lagt fram erindi Guðjóns R. Jóhannessonar ( tölvupóstur ) frá MS, dags. 02.11.2001, um aðkeyrslu inn á lóð Mjólkursamsölunnar við Grjótháls / Bitruháls. Vísað til umsagnar umferðardeildar og gatnamálastjóra.
3. Lagt fram erindi Kristjáns Þorbergssonar og Reynis Magnússonar dags. 15.10.2001, um að komið verði upp hraðahindrun við Dyngjuveg. Vísað til umsagnar umferðardeildar.
Kjartan Magnússon kom á fundinn kl 10:10
4. Lagt fram erindi Hólmars Finnbogasonar, dags. 5.10.2001, um beiðni um hraðahindrun við Frostafold. Vísað til umsagnar umferðardeildar.
5. Ólafi Bjarnason, verkfræðingur kom á fundinn og kynnti starfsáætlun umhverfis og tæknisviðs.
6. Lagt fram erindi dags. 1.11.2001, um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar, frá Sigurði Skarphéðinssyni og Láru Björnsdóttur. Verkferill um úthlutun bílastæða kynnt. Samþykkt samhljóða.
7. Kynnt tillaga Stefáns Hermannssonar og Stefáns Haraldssonar, dags. 8.11.2001, um bílahús undir botni tjarnarinnar í Reykjavík. Samþykkt samhljóða.
8. Ingibjörg Guðlaugsdóttir frá Borgarskipulagi Reykjavíkur kom á fundinn vegna aðalskipulags Reykjavíkur.
9. Lagt fram erindi Stefáns Haraldssonar framkv.stj. Bílastæðasjóðs dags. 9.11.2001, um frágang bílastæða á lóðunum við Hverfisgötu 85 – 93 til bráðabirgða. Frestað.
10. Lagt fram bréf FOK, dags. 30.10.2001, um beiðni um hraðahindrun við Breiðholtsskóla. Vísað til umsagnar umferðardeildar.
11. Lagt fram svarbréf gatnamálastjóra og formanns samgöngunefndar til íbúa við Vesturhús og Barðastaði dags. 8. 11.2001 vegna erindis þeirra um að sett verði upp hraðahindrun í hverfunum. Samþykkt samhljóða.
12. Lagt fram bréf Stefáns Haraldssonar dags. 12.11.2001, vegna erindis Þrastar Helgasonar, íbúa við Vesturgötu 19. Vísað til umferðardeildar.
Lagður fram bæklingurinn "Bíll í borg" útgefinn af Bílastæðasjóði Reykjavíkur á árinu 2001. Fulltrúar D-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Síðastliðið vor samþykkti samgöngunefnd tillögu sjálfstæðismanna um að efna til átaks við að kynna bílastæði í Miðbænum og kosti mismunandi gjaldsvæða. Rétt er að fagna því að nú skuli umræddu átaki hafa verið hrint úr vör en um leið verður ekki hjá því komist að átelja harðlega hvernig R-listinn kýs að nýta sér átakið í pólitísku skyni m.a. hefur verið prentaður bæklingur, sem nú er verið að dreifa á hvert heimili í borginni. Í bæklingnum koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi bílastæði og heilræði til bifreiðaeigenda. Þar kemur þó einnig fram beinn áróður varðandi gjaldskrárhækkanir Bílastæðasjóðs á síðasta ári, sem námu allt að 200%. Í bæklingnum er m.a. löngu máli eytt í að réttlæta umræddar gjaldskrárhækkanir og fullyrt að þær muni stuðla að því að miðborgin verði bifreiðaeigendum þægilegri íveru- og viðkomustaður en ella. Í umræddum bæklingi er öll áhersla lögð á að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem styðja stefnu núverandi meirihluta í bílastæðamálum. Önnur sjónarmið fá þar ekkert rými. Í síðustu borgarstjórnarkosningum hikaði R-listinn ekki við að misnota borgarsjóð til að greiða fyrir kosningabaráttu sína. Greinilegt er að í þeirri kosningabaráttu, sem fram undan er, hyggst R-listinn notast við sömu aðferðirnar, þ.e. að blanda pólitískum áróðri sínum í upplýsingarit sem gefin eru út af fyrirtækjum og stofnunum borgarinnar og greitt er fyrir með fjámunum borgarbúa.
Fulltrúar R-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Taugaveiklun sjálfstæðismanna í borgarstjórn í aðdraganda borgarstjórnarkosninga er kominn upp á yfirborðið. Engu skal eyrt og jafnvel ráðist á smánarlegan og ósmekklegan hátt að embættismönnum borgarinnar sem nú eins og endranær hafa unnið af kostgæfni vandað verk til upplýsingar fyrir alla borgarbúa. Sú hugsun er óhugsanleg að nái Sjálfstæðisflokkur enhvern tíma völdum í borginni munu þeir ekki skirrast við að ritskoða texta af þessu tagi.
Fulltrúar D-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Í svarbókun R-listans er á engan hátt rætt efnislega um gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á umræddan bækling. Upphrópanir um ritskoðun eru broslegar enda ekki um slíkt að ræða. Alvarleg athugasemd er hins vegar gerð við það að í "upplýsingabæklingi" frá borgarstofnun skuli bein afstaða tekin til viðkvæmra pólitískra deilumála sem engin sátt er um milli minnihluta og meirihluta. Það segir meira en mörg orð að fulltrúum R-listans finnist slík misnotkun á almannafé eðlileg.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 11:45.
Helgi Pétursson
Kristín Blöndal.
Kjartan Magnússon
Kristján Guðmundsson