Umhverfis- og skipulagsráð - 22. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2001, mánudaginn 29. október kl. 10:00 var haldinn 22. fundur samgöngunefndar í Skúlatúni 2. Fundinn sátu: Helgi Pétursson, Kristján Guðmundsson, Kjartan Magnússon, Kristín Blöndal og Helgi Hjörvar. Ennfremur komu á fundinn Stefán Haraldsson, Sigurður Skarphéðinsson og Baldvin Baldvinsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

1. Drög að starfsáætlun Bílastæðasjóðs kynnt af Stefáni Haraldssyni, framkvæmdastjóra. Starfs- og fjárhagsáætlun Bílastæðasjóðs samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa R-listans fulltrúar D-listans sátu hjá.

- Baldvin Baldvinsson kom á fundinn kl. 10:30.

2. Umfjöllun um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem lögð var fram í borgarstjórn 4.10.2001 og vísað til samgöngunefndar um lækkun aukastöðugjalda. Álit Stefáns Haraldssonar, dags. 29.10.2001, kynnt. Formaður samgöngunefndar lagði til að tillögu fulltrúa Sjálfstæðismanna um lækkun aukastöðugjalda úr kr. 1.500,- í kr. 750,- yrði vísað frá. Samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa R-lista gegn 2 atkvæðum fulltrúa D-listans.

Fulltrúar D-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað:

Með því að vísa frá tillögu sjálfstæðismanna, festir R-listinn í sessi þær stórfelldu hækkanir á gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, sem tóku gildi í júní 2000. Umræddar hækkanir, sem námu allt að 200%, hafa gefið slæma raun og bitnað illilega á samkeppnisaðstöðu Miðborgarinnar gagnvart öðrum verslunarhverfum og -miðstöðvum, sem auglýsa óspart ókeypis bílastæði fyrir viðskiptavini sína. Hætt er við að verslanir og fyrirtæki haldi áfram að flýja úr Miðborginni og greinilegt er að R-listinn hefur engan áhuga á að snúa þeirri óheillaþróun við. Hástemmdar yfirlýsingar R-listans um að styrkja Miðbæinn í sessi sem blómlega miðstöð verslunar og þjónustu eru því innan tómar og merkingarlausar.

Fulltrúar R-listans óskuðu bókað:

Augljóst er að þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári eru að skila verulegum árangri. Nýting skammtímastæða hefur batnað og viðskiptavinir finna nú bílastæði þegar á þarf að halda. Með því að lækka nú tímagjald í bílahúsum sýnir Reykjavíkurlistinn í verki raunhæfa kosti en ekki innantóm kosningaloforð að hætti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Fulltrúar D-listans óskuðu bókað: Aðgerðir R-listans hafa skilað þeim árangri einum að viðskiptavinum í Miðbænum hefur fækkað verulega. Þess vegna er auðveldara að finna stæði fyrir þá sem enn sækja Miðbæinn. Sjálfstæðismenn styðja að sjálfsögðu lækkun á gjaldskrá bílahúsa en benda jafnframt á að slík lækkun dugir ein og sér vart til að bæta samkeppnisstöðu Miðbæjarins gagnvart öðrum verslunarhverfum og -miðstöðvum.

3. Formaður samgöngunefndar lagði fram eftirfarandi tillögu um lækkun tímagjalds í bílahúsum, dags. 29.10.2001. Tímagjald í bílahúsum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, sem nú er 100 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 10 krónur fyrir hverjar byrjaðar 6 mínútur eftir það, verði 80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 10 krónur fyrir hverjar byrjaðar 12 mínútur eftir það. Samþykkt samhljóða.

4. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kynnti drög að starfs- og fjárhagsáætlun fyrir gatnamálastofu fyrir árið 2001-2002. Starfs- og fjárhagsáætlun gatnamálastofu samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa R-listans, fulltrúar D-listans sátu hjá.

5. Framkvæmdaáætlun fyrir götur og holræsi frá gatnamálastjóra lögð fram til samþykktar. Samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa R-listans, fulltrúar D-listans sátu hjá.

- Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 11:30.

Helgi Pétursson
Kjartan Magnússon
Kristín Blöndal
Helgi Hjörvar
Kristján Guðmundsson