Umhverfis- og skipulagsráð - 2. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Eignasjóður

Ár 2008, mánudaginn 25. febrúar, var haldinn 2. fundur stjórnar eignasjóðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Skúlatúni 2 og hófst kl. 08:30. Þessir sátu fundinn: Jórunn Frímannsdóttir, Ólafur R. Jónsson, Kristján Guðmundsson, Kjartan Eggertsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Sóley Tómasdóttir og áheyrnarfulltrúinn Guðmundur Gíslason. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Hrólfur Jónsson, Ámundi Brynjólfsson, Ágúst Jónsson, Kristín Einarsdóttir, Óli Jón Hertevig, Ómar Einarsson og Jón Halldór Jónasson.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2006050227
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eignasjóðs dags. 18. febrúar 2008, varðandi gatnagerðargjöld á hafnarsvæðum.
Samþykkt samhljóða.

Mál nr. 2007090063
2. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra eignasjóðs dags. 15. febrúar 2008, þar sem lagt er til framsal byggingarréttar á lóðinni Hádegismóum 5 frá Léttkaup ehf., til Hugs ehf., með öllum sömu réttindum og skyldum og giltu gegn fyrri lóðarhafa.
Samþykkt með 5 atkvæðum, fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 2007070185
3. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra eignasjóðs dags. 15. febrúar 2008, þar sem lagt er til framsal byggingarréttar á lóðinni Sjafnarbrunni 5-9 frá Rei ehf., til Hils ehf., með öllum sömu réttindum og skyldum og giltu gegn fyrri lóðarhafa.
Samþykkt með 5 atkvæðum, fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 2008010120
4. Lagt fram að nýju bréf deildarstjóra eignaumsýsludeildar dagsett 4. febrúar 2008, varðandi kaup á félagsheimili Fram – Safamýri 28, einnig lagt fram verðmat á eigninni dagsett 11. desember 2007, ástandsskoðun hússins við Safamýri 28, dagsett í janúar 2008 og endurrit úr fundargerðarbók aðalstjórnar Fram dagsett 5. febrúar 2008. Ómar Einarsson framkvæmdastjóri ÍTR kynnti.
Frestað.

Mál nr. 2008020139
5. Lagt fram til kynningar frumvarp að þriggja ára áætlun eignasjóðs Reykjavíkurborgar dags. 19. febrúar 2008, einnig lagt fram yfirlit yfir stofnkostnað gatna og fasteigna fyrir árin 2009-2011.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óskuðu bókað
Athygli vekur í þriggja ára áætlun að ósamræmi er í forsendum er varða uppbyggingu í Úlfarsárdal. Gert er ráð fyrir að ráðist verði á fullu í gatnagerðarframkvæmdir og gert ráð fyrir fullum gatnagerðargjöldum, þó ekki sé gert ráð fyrir tekjum af sölu byggingaréttar. Þetta fer alls ekki saman þar sem borgin hefur ekki tekjur af gatnagerðargjöldum fyrr en lóðir hafa verið seldar. Uppbygging leik- og grunnskóla virðist heldur ekki gera ráð fyrir því að uppbygging hverfisins verði með eðlilegum hætti. Svo virðist sem nýr meirihluti geri ráð fyrir að gera Úlfarsárdalinn tilbúinn til lóðaúthlutunar en fáir vilji lóðirnar og því sé ekki nauðsynlegt að gera ráð fyrir eðlilegri leik- og grunnskólaþjónustu í hverfinu. Þetta getur ekki talist skynsamleg fjármálastjórn þar sem mikilvægt er að tekjur af nýjum hverfum komi sem fyrst til móts við kostnað við framkvæmdir. Ef ekki eru taldar forsendur fyrir sölu á lóðum í Úlfarsárdal getur nýr meirihluti allt eins stungið fjármunum borgarinnar undir koddann eins og að ráðast í gatnagerð á svæðinu. Gagnrýni fulltrúa minnihlutans beinist alls ekki að starfsmönnum eða stjórnendum Eignasjóðs þar sem ljóst er að þeir voru lítið hafðir með í ráðum við frágang þriggja ára áætlunar, ekki frekar en starfsfólk og sviðsstjórar annarra sviða borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna og F-lista óskuðu bókað:
Forsendur er varða uppbyggingu í Úlfarsárdal hafa breyst sökum spár um eftirspurn eftir lóðum. Gatnagerðarframkvæmdir taka tíma og borgin þarf að vera tilbúin með lóðir þegar eftirspurn eykst á ný. Ummæli minnihlutans um að allt eins sé hægt að stinga fjármunum borgarinnar undir koddann lýsir ekki mikilli framtíðarsýn. Uppbygging leik og grunnskóla er í endurskoðun með tilliti til hægari uppbyggingu á svæðinu.

Mál nr. 2008020131
6. Lagt fram bréf Kristínar Einarsdóttur, varðandi Hverfisgötu 60, 60a og Laugaveg 43b.
Samþykkt samhljóða.

Mál nr. 2007110119
7. Lögð fram tillaga skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu eignasjóðs dagsett 22. febrúar 2008, varðandi Úlfarsárbraut 118-120, niðurstöður matsnefndar vegna byggingu leikskóla í Úlfarsárdal.
Samþykkt samhljóða.

Mál nr. 2008020140
8. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn eignasjóðs samþykkir að setja á laggirnar starfshóp um málefni Ylstrandarinnar í Nauthólsvík í samráði við Umhverfis- og samgöngusvið og Íþrótta- og tómstundasvið. Starfshópurinn fari yfir aðstöðuna með tilliti til öryggis, hreinlætis og aðbúnaðar gesta Ylstrandarinnar og skili tillögum að úrbótum fyrir 14. apríl 2008. Starfshópurinn verði skipaður starfsfólki sviðanna.

Samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til meðferðar framkvæmdastjóra eignasjóðs.

Fundi slitið kl. 10:50.

Jórunn Frímannsdóttir

Kjartan Eggertsson Kristján Guðmundsson
Ólafur R. Jónsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Sóley Tómasdóttir Stefán J. Stefánsson.
Guðmundur Gíslason