Umhverfis- og heilbrigðisráð - og heilbrigðisráð

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 16. október kl. 10:02, var haldinn 30. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. 
Viðstaddir voru: Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Vigdís Hauksdóttir og fulltrúi Samtaka Atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Guðjón Ingi Eggertsson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson Sigurjóna Guðnadóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir. Fundarritari var Harri Ormarsson 

Þetta gerðist:

  1. Mál heilbrigðisnefndar, Heilbrigðisnefnd         Mál nr. US190025

    I.    Lagður fram tölvupóstur Skipulagsfulltrúans í Reykjavík dags. 30. ágúst 2019 um breytingu á svæðisskipulaginu Höfuðborgarsvæðið 2040 og Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um efnisvinnslusvæði í Álfsnesvík og frest til að gera athugasemdir ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. október 2019.
    Lagt fram.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    II.    Lagður fram tölvupóstur Skipulagsstofnunar dags. 13. september 2019 með beiðni um umsögn um breytingu á efnistöku Björgunar ehf. í Engeyjarnámu í Kollafirði, fyrirspurn fyrirtækisins um matsskyldu ásamt umsögnum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 8. maí 2009 og 27. september 2019. 
    Lagt fram.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    III.    Lagður fram tölvupóstur Skipulagsstofnunar dags. 30. ágúst 2019 um framkvæmdir á athafnasvæði Björgunar ehf. í Álfsnesvík og beiðni um umsögn um frummatsskýrslu vegna landfyllingar og hafnar. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 19. september 2019.
    Lagt fram.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    IV.    Lagður fram listi dags. 16. október 2019 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Lagt fram.

    V.    Lagður fram listi dags. 16. október 2019 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Lagt fram.

    Eftir mál Heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.

     (E) Umhverfis- og samgöngumál

    Fylgigögn

  2. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar eru fram fram fundargerðir SORPU bs. nr. 412 dags. 2. september 2019 og nr. 413 dags. 27. september 2019 og ásamt fylgiskjölum.

    Fylgigögn

  3. Afþökkun fjölpósts, tillaga         Mál nr. US190062

    Lögð er fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 11. október 2019 að aðgerðaráætlun um lágmörkun fjölpósts.
    Samþykkt.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata bóka: 

    Fulltrúar meirihlutans fagna því að tillaga um lágmörkun fjölpósts hafi verið einróma samþykkt. Hér er verið að bregðast við óskum íbúa sem geta nú afþakkað fríblöð og fjölpóst á einfaldan hátt og haft val um það hvað þeir fái inn um lúguna sína. Þannig má minnka pappírsrusl sem til fellur á heimilum og í því felst mikill umhverfislegur ávinningur, sparnaður og aukin þægindi.

    Friðrik Klingbeil Gunnarsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Rafhleðslur í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs, tillaga         Mál nr. US190324

    Lögð er fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 9. október 2019 að um hleðslustöðvar fyrir rafbíla verði sett upp í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði fagna fjölgun rafhleðslustöðva í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar, en vilja um leið benda á mikilvægi þess að rafhleðslur verði einnig í boði í P-merktum stæðum húsanna. 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata bóka: 

    Fulltrúar meirihlutans fagna tillögum um fjölgun rafhleðslustöðva í bílastæðahúsum borgarinnar. Markmið um fjölgun hleðslustöðvanna til 2025 eru metnaðarfull og mikilvæg þegar kemur að því að styðja við orkuskipti í samgöngum. Fjölgun hleðslustöðva er eitt af fjölmörgum skrefum sem borgin tekur í átt að kolefnislausri borg árið 2040.

    Friðrik Klingbeil Gunnarsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Nagladekk í Reykjavík, kynning         Mál nr. US180318

    Kynning á fræðslu Reykjavíkurborgar til bílstjóra til að nota ekki nagladekk í Reykjavík. 
    Kynnt. 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata bóka: 

    Sá kostnaður sem fellur á samfélagið vegna þeirra sem aka á nagladekkjum er óásættanlegur. Notkun nagladekkja er í langflestum tilvikum óþörf innan þéttbýlis og eykur verulega slit á götum og hefur slæm áhrif á loftgæði. Það þarf að vera sameiginlegt markmið okkar allra að bæta loftgæði í þéttbýli þar sem þau hafa áhrif á lífsgæði allra, sérstaklega aldraða, börn og þau sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma. Reykjavíkurborg þarf og á að nota allar þeir heimildir sem hún hefur í lögum til að sporna gegn loftmengun af völdum bílaumferðar.

    Fulltrúi Miðflokksins gagnbókar: 

    Hér gengur stefna meirihlutans gegn skilyrðum tryggingafélaga sem tryggja bílaleigubíla. Viðurkennt er að það eru bílaleigubílarnir sem eru fyrst og fremst á nagladekkjum í borginni ásamt fólki sem býr úti á landi og vinnur í Reykjavík. Öryggi má aldrei víkja fyrir tilfinningum. Þessi málaflokkur getur því aldrei orðið annað hvort – eða. Það er ekki hægt að banna nagladekk vegna veðurfarsins á Íslandi. 

    (D) Ýmis mál

  6. Stýrihópur um þjónustu borgarinnar við gæludýr, tillaga         Mál nr. US190323

    Umhverfis- og heilbrigðisráð samþykkir að fela þriggja manna stýrihópi að greina og gera tillögur til ráðsins um hvernig haga skuli þjónustu borgarinnar við gæludýr. Meðal þess sem hópurinn á að skoða er hvernig Reykjavíkurborg uppfyllir þær kröfur sem til hennar eru gerðar í lögum, reglugerðum og samþykktum og hvort tilefni sé til breytinga. Einnig á hópurinn að skoða hvernig þjónustu við íbúa sem halda gæludýr er háttað og hvort auka eigi þjónustu við þá. Við vinnu tillagnanna skal leggja áherslu á velferð dýra og samfélagslegan ábata af gæludýrahaldi auk þess að huga sérstaklega að dýrum í erfiðum aðstæðum og óskiladýrum. Þá skal hópurinn skoða möguleika á samstarfi við nágrannasveitarfélög og félagasamtök sem láta sig dýravelferð varða og kalla til samráðs sérfræðinga og aðra sem geta lagt til vinnunnar. Tillögunum þarf að fylgja kostnaðarmat og tímaáætlun. 
    Samþykkt.
    Umhverfis og skipulagssviði er falið að gera erindisbréf fyrir hópinn og leggja fyrir næsta fund umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  7. Loftslagsskógar, tillaga         Mál nr. US190325

    Umhverfis- og heilbrigðisráð felur umhverfis- og skipulagssviði að gera áætlun og greina svæði til skógræktar og trjáræktar með hliðsjón af tillögum stýrihóps um skógræktarmál sem samþykktar voru á fundi hópsins 13. febrúar 2018 og tillögu borgarstjóra um loftslagsskóga sem samþykkt var á fundi borgarráðs 14. maí 2019. Forgangsraðað verði svæðum og þau valin sem tilbúin gætu verið til framkvæmda 2020. Samhliða vali á svæðum til skógræktar þarf að gera gróðurfarsúttektir sem eru grundvöllur fyrir skipulagi skógræktarplöntunar og einnig þarf gæta þess að aðgerðirnar skili sér í kolefnisbókhald borgarinnar. Leita skal hagkvæmustu og skilvirkustu leiða og hafa samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur um uppgræðslu í borgarlandinu.

    Samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Pírata og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Miðflokksins greiðir atkvæði gegn tillögunni.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs Skrifstofu umhverfisgæða.

    Fulltrúi Miðflokksins bókar: 

    Fjölmargar vísindagreinar hafa birst á undanförnum árum þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag. Þeim ber öllum saman um að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum. Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi því hann hækki hitastig jarðar. Að auki er talið að laufskógar á norðurslóðum hafi mikil áhrif á vatnsbúskap vegna mikillar uppgufunar frá laufþekjunni sem er talin auka hlýnun jarðar. Loftslagsskógar eru því algjör tímaskekkja og einn stór misskilningur. Umhverfismálin verða að skoðast í heild á heimsvísu. Tilfallandi inngrip eins og loftslagsskógar í Reykjavík eða á Íslandi virðast byggjast á tilfinningum en ekki rökum. 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata gagnbóka: 

    Það hefur verið vísindalega sannað að uppgræðsla lands er áhrifaríkt verkfæri í baráttunni gegn loftslagsvánni. Eins og með öll verkfæri þarf að nýta þau á skilvirkan hátt svo árangurinn skili sér og að framkvæmdin sé fagleg og stuðli að því að ná kolefnishlutleysi. 

  8. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um markvissa gróðursetningu til að minnka vindálag í Reykjavík         Mál nr. US190274

    Lagt er fram bréf dags. 21. júní 2019 til umhverfis- og heilbrigðisráðsins með tillögu sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 18. júní 2019 og vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. Í tillögunni er lagt til að settar verði upp 50 veðurstöðvar til að meta hvar árangursríkast sé að gróðursetja tré í nágrenni borgarinnar. 
    Samþykkt að vísa til Umhverfis- og skipulagssviðs Skrifstofu umhverfisgæða og inn í áætlun og greiningar svæða til skógræktar með sex atkvæðum fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Pírata og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

    Kl. 11:29 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.

    Fylgigögn

  9. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta, vegna flokkun sorps         Mál nr. US190109

    Lögð er fram umsögn frá Umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu umhverfisgæða dags. 12. september 2019 vegna tillögu sem kom frá fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta á fundi borgarstjórnar þann 26. mars 2019, um flokkun sorps á öllum starfsstöðum Reykjavíkurborgar. 
    Samþykkt.
    Staðfest er niðurstaða frá skrifstofu umhverfisgæða sbr. umsögn dags. 12. september 2019.

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og Bára Katrín Jóhannsdóttir frá ungmennaráði Árbæjar og Holta taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarnes, aukin athygli og sorphirða á grenndarstöðvum         Mál nr. US190111

    Lögð er fram umsögn frá Umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu umhverfisgæða dags. 12. september 2019 vegna tillögu sem kom frá fulltrúa í ungmennaráði Kjalarnessá fundi borgarstjórnar þann 26. mars 2019, um aukna athygli og sorphirðu á grenndarstöðvum.
    Samþykkt.

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og Gabríel Smári Hermannsson frá ungmennaráði Kjalarnesi taka sæti á fundinum undir þessu. lið.

    Fylgigögn

  11. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar, og Hlíða, flokkunartunnur á almenningssvæðum í Reykjavík         Mál nr. US190110

    Lögð er fram umsögn frá Umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu umhverfisgæða dags. 12. september 2019 vegna tillögu sem kom frá fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæja, Miðborgar og Hlíða á fundi borgarstjórnar þann 26. mars 2019, um flokkunartunnur á almenningssvæðum í Reykjavík.
    Samþykkt. 
    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu reksturs og umhirðu.

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og Tinna Kjartansdóttir frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn