Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 47

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2021, miðvikudaginn 9. febrúar kl. 13:05, var haldinn 47. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 3. hæð, Arnarholti.

 

Viðstödd var Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði

með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Líf Magneudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason og Baldur Borgþórsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Loftlagsáætlun 2021-2025, Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025         Mál nr. US210001

    Lögð er fram skýrsla sem felur í sér tillögu að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum. Einnig eru lagðar fram innsendar umsagnir og viðaukar við skýrsluna. Drög að aðgerðaáætluninni voru kynnt í umhverfis- og heilbrigðisráði 8. janúar 2021 auk þess sem óskað var eftir umsögn frá haghöfum sem boðaðir höfðu verið til samráðs vegna endurskoðun á aðgerðaáætluninni. Einnig var birt frétt um drögin 8. janúar 2021 og öllum  gefinn kostur á að senda inn umsögn. Drögin voru einnig kynnt og rædd í borgarstjórn 19. janúar 2021. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir / umsögn: ASÍ dags. 22. janúar 2021, Grænni byggð dags. 28. janúar 2021, Landvernd ódagsett, Míla dags. 26. janúar 2021, Sigurbjörn Hjaltason, bóndi og jarðeigandi nyrst í Reykjavík dags. 17. janúar 2021, Síminn dags. 22. janúar 2021, Sósíalistar í borginni dags. 22. janúar 2021, Orkuveita Reykjavíkur dags. 22. janúar 2021, SORPA dags. 20. janúar 2021, Ungir umhverfissinnar dags. 21. janúar 2021. 

    Samþykkt með atkvæðum fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá.
    Vísað til borgarráðs

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ný aðgerðaráætlun í loftslagsmálum hefur litið dagsins ljós. Hún er viðamikil, metnaðarfull og róttæk. Aðgerðir þessa áratugar sem nú gengur í garð skera úr um hvernig framtíð okkar lítur út. Orðum verða að fylgja efndir og nú tekur tímabil margvíslegra loftslagsaðgerða við. Mörg lögðu á árarnar við gerð áætlunarinnar og er fjölbreyttum hópum fólks, félagasamtökum og fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum, þakkað kærlega fyrir gagnlegar ábendingar og frumkvæði. Þá er starfsfólki stýrihópsins sérstaklega þakkað fyrir að halda afar vel utan um margslungna og umfangsmikla vinnu og árangurinn af henni sem blasir nú við okkur í nýrri aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavík hefur verið í fararbroddi í notkun endurnýjanlegrar orku síðan hitaveitan leysti kolakyndingu af hólmi. Þá er kolefnisbinding CarbFix framfaraskref á heimsvísu. Eitt stærsta framlag Reykjavíkurborgar gæti verið að miðla af þekkingu sinni. Hér má nefna að rafvæðing hafna er óraunhæft markmið árið 2025 þar sem mjög takmarkað fjármagn er í áætlunum borgar og ríkis. Orkuskiptin eru stórlega vanmetin en þar viljum við gera betur. Raforkuframleiðsla hér á landi er endurnýjanleg og rafvæðing því augljós valkostur í samgöngum. Þá gengur 2% árleg fækkun bílastæða ekki upp með hliðsjón af íbúafjölgun sem er um 3%. Ekkert er minnst á notkun nagladekkja í borgarlandinu. Áform um að ganga á græn svæði í borginni svo sem í Elliðaárdal og Laugardal og fleiri svæðum eru í ósamræmi við plaggið. Við viljum skýr markmið í skógrækt enda er hún hagkvæm og náttúruleg binding. Þá viljum við nefna fækkun olíutanka í Örfirisey en samþykkt var í borgarráði að fækka þeim um 50%. 

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Finna má ágæta punkta í framlagðri loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar. Hins vegar er óásættanlegt að gengið er gegn samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þar er markmiðið afar skýrt: „Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta“. Margt annað mætti telja til en undirritaður lætur þetta nægja að sinni enda bundinn af 200 orða hámarki bókunar. Af þessum sökum situr fulltrúi Miðflokksins hjá við atkvæðagreiðslu.

    Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur, Vigdís Hauksdóttir og  Þórhildur Ósk Halldórsdóttir fulltrúar í stýrihópi um loftslagsstefnu Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:38

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

Dóra Björt Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis_og_heilbrigdisrad_0902.pdf