Umhverfis- og heilbrigðisráð
Ár 2020, miðvikudaginn 9. desember kl. 09:08, var haldinn 44. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstödd var Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Rannveig Ernudóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Baldur Borgþórsson og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, og Jóhanna Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Skipulags- og samgönguráð og umhverfis- og heilbrigðisráð 2018-2022,
fundadagatal 2021 Mál nr. US200444Lögð fram drög að fundadagatali skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs fyrir árið 2021
Heilbrigðisnefnd, Mál nr. US200442
Fylgigögn
-
Staðan hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur á framfylgd lögboðinna verkefna vegna Covid-19.
-
Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 10. nóvember 2020 um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030; Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 19. nóvember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata taka heilshugar undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og ítreka mikilvægi þess að hugað sé að hvers kyns mótvægisaðgerðum til að sporna við óæskilegum og jafnvel óafturkræfum áhrifum á umhverfið og heilsu íbúa.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir það sem bent er á í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að rannsóknir hafa sýnt fram á neikvæð heilsufarsleg áhrif við að búa þétt við umferðarþungar stofnbrautir og slík svæði ættu alltaf að vera merkt á rauðu. Þá er tekið einnig undir áhyggjur Heilbrigðiseftirlitsins um hækkandi sjávarstöðu vegna loftslagsbreytinga og að hún geti verið hraðari og meiri en gert er ráð fyrir. Þessar mikilvægu staðreyndir ættu að nægja til þess að fallið verði frá landfyllingunni og sömuleiðis þéttri byggð á þessu svæði sem getur haft heilsufarsleg neikvæð áhrif á íbúa enda telur Heilbrigðiseftirlitið að þessi svæði ættu að vera rauðmerkt. Hér kemur enn ein fagstofnunin til skjalanna og bendir á neikvæð umhverfisáhrif vegna uppbyggingar og landfyllingar sem taka ber mark á.
Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar dags. 16. nóvember 2020 um Arnarnesveg, vegamót við Breiðholtsbraut og fylgigögn, ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 26. nóvember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat.
Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 6. nóvember 2020 um Nýja Skerjafjörð, tillögu um nýtt deiliskipulag ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 23. nóvember 2020.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er stefnir í eitt stærsta umhverfisslys í borginni. Fjölmargir opinberir fagaðilar og stofnanir hafa gert alvarlegar athugasemdir við deiliskipulags-tillöguna. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur m.a. gert athugasemdir við mengaðan jarðveg og staðfest að talsverður hluti svæðisins sem deiliskipulagið nær til sé mengaður. Bent er á að gert sé ráð fyrir skóla á svæðinu þar sem olíumengaður jarðvegur er, þar sem tvö jarðvegssýni voru tekin og er í ástandsflokknum ,,mjög slæmt”. Athugasemdirnar snúa einnig að hljóðvist og að ekki sé hægt að ná lágmarksskilyrðum hljóðvistarstaðals í íbúðum og beita verði hljóðtæknilegum mótvægisaðgerðum til að skapa viðunandi hljóðvist innandyra en íbúð skuli vera án opnanlegra glugga og því skuli þinglýst að íbúðin nái ekki lágmarksskilyrðum hljóðvistar. Bent er á að fyrirhuguð landfylling liggur að verndarsvæðum og fyrirhugað er að friðlýsa Skerjafjörð í heild sinni. Í áliti Náttúrufræðistofnunar kemur fram: Náttúra Skerjafjarðar á ekki að gjalda fyrir að ástæða þyki til þess að skipuleggja byggð við fjörðinn eða á flugvallarsvæðinu. Með þessar staðreyndir í huga og að tillagan er í andstöðu við yfirlýsta stefnu meirihlutans sem kveður á um að hlúa eigi að grænum svæðum og vernda líffræðilegan fjölbreytileika ætti að hætta við öll áform um uppbyggingu og landfyllingu á svæðinu.
Helgi Guðjónsson og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.Fylgigögn
-
Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar dags. 12. nóvember 2020 um Lyklafellslínu 1 og Ísallínu 3 og fylgigögn; Tillaga Landsnets að matsáætlun dags. nóvember 2020, Útlínur höfuðborgarsvæðisins Lyklafellslína 1 og Ísallína 3 ásamt niðurrifi á Hamraneslínum 1 & 2 og Ísallínu 1& 2 og viðaukar 1 & 2, ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 30. nóvember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur varðandi þá áhættu sem skapast vegna þessara framkvæmda. Einnig taka fulltrúarnir undir þær ábendingar að það vanti að fjalla um fleiri valkosti til að minnka áhættu ófyrirséðra mengunaróhappa sem setja vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu og geta spillt þeim til frambúðar. Einnig þarf að gera betur grein fyrir bæði beinum og óbeinum áhrifum framkvæmdanna sem og setja fram viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa.
Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsagnarbeiðni frá nefndarsviði Alþingis dags. 18. nóvember 2020 um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis), 275. mál og ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 27. nóvember 2020.
Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 25. nóvember 2020, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um olíuleka.
Fylgigögn
-
Lagður fram listi dags. 9. desember 2020 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Fylgigögn
-
Lagður fram listi dags. 9. desember 2020 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Trúnaðarmerkt.
Að loknum málum Heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.
(E) Umhverfismál
-
SORPA bs., fundargerðir Mál nr. US130002
Lagðar fram fundargerð stjórnar Sorpu Bs. nr. 437 dags. 12. nóvember 2020, nr. 438 dags. 20. nóvember og nr. 439 dags. 27. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum.
Fylgigögn
-
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040, umsögn Mál nr. US200419
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 1. desember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í AR 2010-2030 var tekin skýr stefna í átt að sjálfbærara samfélagi. Núverandi breytingar halda áfram á sömu braut með því að þétta áfram byggð og treysta samgönguása með áherslum á almenningssamgöngur. Til þess að ganga ekki á umhverfið og náttúrugæði í borginni þarf að vanda til verka og taka fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata heilshugar undir umsögn skrifstofu umhverfisgæða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í aðalskipulaginu 2010-2030 var boðuð stefnubreyting í skipulagsmálum borgarinnar. Gert var ráð fyrir að nær öll uppbygging færi fram á dýrum þéttingarreitum miðsvæðis í borginni og ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum. Þéttingarstefnan hefur snúist upp í andhverfu sína því hún hefur leitt til umtalsverðrar dreifingar byggðar. Fólk hefur ekki haft annan kost en að flytja í önnur sveitarfélög á suðvesturhorninu þar sem íbúðarverðið er viðráðanlegra. Íbúðir á þéttingarreitum eru dýrar og eru ekki fyrir fyrstu kaupendur því þeir uppbyggingarreitir eru seldir á hæsta markaðsverði sem skilar sér í hærra verði. Nú verður haldið áfram á sömu braut og mest öll uppbygging á nú að fara fram á dýrum þéttingarreitum vestan Elliðaáa í stað þess að borgin bjóði hagkvæmar lóðir til uppbyggingar í nýjum hverfum, eins og t.d. á Keldum. Samgöngustefnan sem aðalskipulagið frá 2010-2030 gengur út er að þrengja að umferð og lengja ferðatíma fólks í stað þess að fara í nauðsynlegar samgöngubætur til að greiða fyrir umferð sem myndi stytta ferðatíma, draga úr slysum, óhöppum og loftmengun í borginni. Ofangreind atriði gefa til kynna að eðlilegast væri að endurskoða stefnu borgarinnar í skipulags- og samgöngumálum.
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030,
nýi Skerjafjörður, umsögn Mál nr. US200428Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 4. desember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ýmis vötn eiga eftir að renna til sjávar og á endanleg niðurstaða úr umhverfismati eftir að líta dagsins ljós. Það er nauðsynlegt að fá niðurstöðu úr því til að geta tekið endanlega ákvörðun um breytingar á Aðalskipulaginu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil umhverfisspjöll verða ef að landfyllingu verður í Skerjafirði sem ógna mun náttúrunni og fjölbreytileika lífríkis við strandlengjuna. Tillaga að breytingum í Aðalskipulagi vegna nýrrar byggðar í Skerjafirði snúa að því að minnka leyfða landfyllingu þrátt fyrir að til stendur að friðlýsa ströndina og að fram komi í umsögn Náttúrufræðistofnunar:,, „að tillagan er í alla staði talin neikvæð fyrir lífríki svæðisins og er hún því í raun í andstöðu bæði við lög um náttúruvernd og stefnu Reykjavíkurborgar” Þá er lagt til að færa skólann, nær ströndinni þrátt fyrir að Heilbrigðiseftirlitið telji að stór hluti svæðisins sé olíumengaður og tvö jarðvegssýni tekin þar sem skólinn á að vera sem eru í ástandsflokknum ,, mjög slæmt”. Jafnframt er lagt til að stækka íbúðabyggð á kostnað opinna svæða og þrengja á grænan ás á svæðinu. Lítið er að marka meirihluta sem kennir sig við umhverfisvernd og leggur þetta til ásamt því að þétta byggð á kostnað þeirra örfáu grænu svæða sem eftir eru í borginni. Ámælisvert er að meirihlutinn heldur áfram áformum sínum þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hringi og að opinberar stofnanir geri fjölmargar athugasemdir við landfyllinguna og uppbygginguna á svæðinu hvað varðar náttúruna, neikvæð umhverfisáhrif, byggingarmagn, samgöngur og áhrif á flugöryggi.
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lyklafellslína 1 og Ísallína 3, ásamt niðurrifi Hamraneslínu 1&2 og Ísallínu 1&2, umsögn - USK2020070046 Mál nr. US200443
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 1. desember 2020.
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata taka undir umsögn skrifstofu umhverfisgæða varðandi þá áhættu sem skapast vegna þessara framkvæmda. Einnig taka fulltrúarnir undir þær ábendingar að það vanti að fjalla um fleiri valkostir til að minnka áhættu ófyrirséðra mengunaróhappa sem setja vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu og geta spillt þeim til frambúðar. Einnig þarf að gera betur grein fyrir bæði beinum og óbeinum áhrifum framkvæmdanna sem og setja fram viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa.
Fylgigögn
-
Arnarnesvegur: vegamót við Breiðholtsbraut, umsögn, USK2019080006, R19070200 Mál nr. US200441
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 2. desember 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata geta ekki tekið undir niðurstöðu umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs um að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og gagnrýna skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsstofnun staðfestir í erindi sínu að breyta þurfi aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við þá útfærslu (Leið 2) sem borgin hyggist fara, þar sem brú er ekki sýnd yfir Breiðholtsbraut í gildandi aðalskipulagi. Þrír valkostir hafa verið skoðaðir vegna lagningu Arnarnesvegar og tengingu við Breiðholtsbraut. Það er ljóst að sú tillaga sem hefur verið kynnt af hálfu borgarinnar er ekki besta leiðin. Útfærsla borgarinnar, með ljósastýrðum gatnamótum mun auka umferð gríðarlega á þessu svæði með því að leiða stóra umferðaræð úr Kópavogi inn á Breiðholtsbraut. Þegar umferðin eykst, má leiða líkur á minna umferðaröryggi, en gatnamótin við Ögurhvarf eru í 8-20. sæti yfir slysamestu gatnamót landsins. Einnig er áhyggjuefni að tafatími í umferðinni fyrir þá sem kjósa ferðast á eigin vegum eða í almenningssamgöngum mun aukast gríðarlega á þessu svæði. Einn af fylgikvillum umferðartafa er aukin mengun og því ávísun á lakari loftgæði. Útfærslan sem borgin hyggst fara er einnig brot á samgöngusáttmála sem kveður m.a. á um að auka umferðaröryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, einnig að draga úr mengun. Leið 3 myndi hins vegar uppfylla öll markmið samgöngusáttmála.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Mislæg gatnamót eru verulegur faratálmi fyrir alla fararmáta aðra en einkabílinn. Fullbúin mislæg gatnamót myndu liggja það hátt í landi að neikvæð sjónræn áhrif væru veruleg og myndu alltaf skerða útivistargildi svæðisins. Leið tvö sem hér er um rætt er ágætis málamiðlun þar sem gerð er tilraun til að lækka gatnamótin í landinu, draga úr umfangi þeirra og draga þannig úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Umrædd tillaga að gatnamótum er unnin í góðu samstarfi við Vegagerðina enda er framkvæmdin á forræði ríkisins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í kynningarefni frá Eflu verkfræðistofu sem annaðist útfærslur vegarins kemur fram orðrétt: "Með tilliti til umferðaröryggis, afkasta og kostnaðar er lausn 3 ákjósanlegust". Ætli borgin sér að standa við samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að ráðast þurfi í leið 3.
Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Miðflokksins vill koma á framfæri að fullyrðingar um að ekki sé þörf á aðalskipulagsbreytingu sé leið 2. valin er röng. Engu skiptir hvort valin er leið 2. eða 3. Þörf er á aðalskipulagsbreytingu í báðum tilfellum og hefur Skipulagsstofnun ríkisins staðfest það með skýrum hætti. Öllu máli skiptir þó hvor leiðin er valin sé horft til afkastagetu og almennrar skynsemi. Leið 3. eru fullbúin mislæg gatnamót. Í samgöngusamning er gert ráð fyrir að sú leið sé farin og ekki að ástæðulausu. Sú leið er valin með hagkvæmni almenna skynsemi og hag íbúa/notenda að leiðarljósi. Fulltrúi Miðflokksins leggst því alfarið gegn tilraunum meirihluta Vg-P-Sf-C til að knýja fram að leið 2. verði valin , en þar er um að ræða mislæg gatnamót að hluta og ljósastýrð að hluta, sem gerir gatnamótin mun óskilvirkari og óhagkvæmari. Rétt er að fram komi að engin munur er á kostnaði, en gríðarlegur munur er á gæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Mislæg gatnamót eru verulegur farartálmi fyrir alla fararmáta aðra en einkabílinn. Fullbúin mislæg gatnamót myndu liggja það hátt í landi að neikvæð sjónræn áhrif væru veruleg og myndu alltaf skerða útivistargildi svæðisins. Leið tvö sem hér er um rætt er ágætis málamiðlun þar sem gerð er tilraun til að lækka gatnamótin í landinu, draga úr umfangi þeirra og draga þannig úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Umrædd tillaga að gatnamótum er unnin í góðu samstarfi við Vegagerðina enda er framkvæmdin á forræði ríkisins.
Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Græn skref í rekstri Reykjavíkurborgar, kynning Mál nr. US200445
Kynning á uppfærðum aðgerðum í Grænum skrefum, stöðu Grænna skrefa og áætlun um innleiðingu.
Hildur Sif Hreinsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga Mál nr. US200386
Lögð fram til afgreiðslu tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrk til Húsfélagsins Berjarima 2-8 úr styrktarsjóði fjöleignarhúsa, til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Samþykkt.
(D) Ýmis mál
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið,
uppgjör janúar til september 2020 Mál nr. US200295Lögð fram greinargerð 9. mánaða uppgjörs umhverfis- og skipulagssviðs janúar til september 2020.
Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið,
yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr. Mál nr. US200297Lagðar fram innkaupaskýrslur umhverfis- og skipulagssviðs frá janúar til september 2020 fyrir aðalsjóð og eignasjóð á kaupum sem fara yfir milljón.
Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið,
yfirlit yfir ferðakostnað Mál nr. US200296Lögð fram skýrsla um ferðakostnað á umhverfis- og skipulagssviði fyrir tímabilið júlí til september 2020.
Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um notkun umhverfis- og skipulagssviðs á Kjarvalsstofu - USK2020110101 Mál nr. US200399
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra dags.
23. nóvember 2020, ásamt fylgigögnum.Fylgigögn
-
Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa Miðflokksins, um friðlýsingu Skerjafjarðar - USK2020110107 Mál nr. US200396
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 4. desember 2020.
Frestað.
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Tillaga umhverfis- og heilbrigðisráðs, Mál nr. US200446
Umhverfis- og heilbrigðisráð óskar eftir að Skrifstofa umhverfisgæða og Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar meti þörf fyrir hleðslutengla fyrir rafhjól og -hlaupahjól við stofnanir borgarinnar og í borgarlandinu. Tengla sem nýtast íbúum, þjónustuþegum og starfsmönnum borgarinnar. Sé þörf fyrir tengla verði unnin áætlun um staðsetningu og uppsetningu tengla og hún kostnaðarmetin.
Samþykkt.
Vísað til meðferðar Skrifstofu umhverfisgæða, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og stýrihóps um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur. -
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200453
Nú hefur komið í ljós að jarðvegurinn í Nýja Skerjafirði er olíumengaður. Hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eða aðrar eftirlitsstofnanir rannsakað hvort jarðvegsmengun í formi þungamálma finnist á svæðinu? Ef ekki, telur HER þörf á slíkri rannsókn
Frestað.
Fundi slitið klukkan 11:57
Líf Magneudóttir Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis-_og_heilbrigdisrad_0912.pdf