Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 43

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2020, miðvikudaginn 25. nóvember kl. 09:03, var haldinn 43. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstödd var Líf Magneudóttir.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í

auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI.

bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Rannveig Ernudóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Baldur Borgþórsson og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Þórólfur Jónsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Framlengd heimild til notkunar fjarfundabúnaðar            Mál nr. US200205

    Lagt fram bréf borgarstjórnar Reykjavíkur til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að borgarstjórn samþykkti þann 3. nóvember sl. tillögu um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi. Einnig er lögð fram auglýsing, dags. 3. nóvember 2020, um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga nr. 1076/2020 og auglýsing um leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013.

    Heilbrigðisnefnd

    Mál nr. US200422

    Fylgigögn

  2. Kynning á eftirliti Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga á óleyfilegum heilsu- og næringarfullyrðingum.

  3. Lögð fram drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skotelda nr. 414/2017 og skýrsla starfshóps; Mengun af völdum skotelda og tillögur um aðgerðir dags. janúar 2020 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. október 2020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna taka heilshugar undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um víðtækari takmarkanir á skoteldum. Öllum er í ferskum minni hver áhrif þeirra voru um áramótin 2017-2018 bæði á umhverfið og heilsu manna en þau voru á við náttúruhamfarir. Skammvinnt skemmtanagildi skotelda getur ekki réttlætt það að umhverfi og heilsu manna sé teflt í hættu. Það er jákvætt að stytta þann tíma sem heimilt er að nota skotelda en það er dapurlegt að ekki voru nýtt tækifærin til að fara í áhrifameiri og róttækari breytingar eins og bann á sérstaklega hættulegum skoteldum eða hámarksmagn sem hver einstaklingur má kaupa. Sérstaklega ber að nefna heimild fyrir sveitarfélög til að banna notkun skotelda þegar stórhættulegar aðstæður í þéttbýli skapast og einnig tillagan sem ekki kemur til framkvæmdar að leyfa sveitarfélögum að afmarka svæði til notkunar skotelda sem gæti samt veitt mörgum mikla ánægju. Einnig eru það vonbrigði að hér voru ekki nýtt tækifæri að koma með aðra lausnir til að fjármagna mikilvægt starf björgunarsveitanna enda eiga hjálparsamtök sem bjarga mannslífum ekki að fjármagna sig með mengandi fjáröflunaraðgerðum sem geta sett líf og heilsu fólks í hættu með tilheyrandi ágangi á umhverfið. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins gera ekki athugasemdir við frekari tímatakmörkum á notkun skotelda. Eins og fram kemur í skýrslu starfshóps er mikilvægt að tryggja fjármögnun björgunarsveita á sama tíma og huga þarf að heilsu einstaklinga, en það er gert með fyrirliggjandi fækkun daga skv. skýrslunni. Það er hins vegar ekki hlutverk borgarinnar að ákveða hvers konar flugelda má selja eins og fram kemur í umsögn HER. Enn fremur er ekki hægt að taka undir þau sjónarmið að takmarka magn á sölu á hvern og einn einstaklings eða hvaða magn er flutt inn til landsins.

    Svava S. Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum, þingskjal 36 - 36. mál ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 2. nóvember 2020. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu nr. 62/2005 og fleiri lögum (endurskoðun stjórnsýslu neytendamála) dags. 27. október 2020 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 9. nóvember 2020.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram erindi Skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. nóvember 2020 um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um hundaeftirlitsferðir og kvartanir sem vísað var til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 18. nóvember 2020, ásamt fylgigögnum.

    Fylgigögn

  7. Lagður fram listi dags. 25. nóvember 2020 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  8. Lagður fram listi dags. 25. nóvember 2020 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Trúnaðarmerkt.

    Að loknum málum Heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.

    (E) Umhverfismál

  9. SORPA bs., fundargerðir                        Mál nr. US130002

    Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu Bs. nr. 435 dags. 15. október 2020 og nr. 436 dags. 22. október 2020, ásamt fylgiskjölum.   

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athygli er vakin á því að Sorpa stefnir að mikilli hækkun á gjaldskrám sem mun koma sér illa við heimilin og fyrirtækin í borginni. Í rekstraráætlun Sorpu 2021-2025 kemur fram að tekjur SORPU muni aukast sem nemur um 24% vegna gjaldskrárhækkana. 

    Fylgigögn

  10. Tæming Árbæjarlóns, kynning         Mál nr. US200418

    Kynning á tæmingu Árbæjarlóns. Jafnframt er lagt fram minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 9. nóvember 2020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna þakka Orkuveitunni og Bjarna Bjarnasyni fyrir kynninguna. Skiptar skoðanir eru á aðgerðum Orkuveitu Reykjavíkur við tæmingu Ábæjarlóns og fyrir marga er þetta mikið tilfinningamál, með réttu. Hins vegar er mikilvægt að ítreka að það er farsælast fyrir samfélagið að ákvarðanir sem varða umhverfið, lífríkið og náttúru Reykjavíkurborgar séu teknar í samráði og samstarfi við náttúruverndarráð borgarinnar, íbúaráð þeirra hverfa sem liggja að Elliðaárdal og aðra hagsmunaaðila og fagfólk á umhverfis- og skipulagssviði. Ákvarðanir verða alltaf betri ef viðhaft er samráð og samtal og að upplýsingagjöf sé greinargóð og gagnsæ. Það er von okkar að framvegis verði upplýsingaflæðið og samtalið milli Orkuveitu Reykjavíkur og náttúruverndarráðs borgarinnar gjöfult og gott með hagsmuni umhverfisins og íbúa að leiðarljósi og að ávallt sé gætt að því að kynningarefni og tilkynningar skili sér örugglega og sé fylgt eftir. Það er von fulltrúanna að þær mótvægisaðgerðir sem verður ráðist í heppnist vel í sátt við dýr og menn og að náttúran á þessu svæði nái sér til frambúðar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisráði gagnrýna harðlega vinnubrögð OR vegna tæmingu Árbæjarlóns. Ekki var leitað til viðeigandi eftirlitsstofnana og beðið úrskurðar þeirra eins og t.d. Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar. Náttúrufræðistofnun ber samkvæmt lögum að veita umsögn um svæði á náttúruminjaskrá sem til stendur að hrófla við. Einnig er ámælisvert að bæði íbúar í nærliggjandi umhverfi, íbúaráð og íbúasamtök, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og borgarstjórn hafi ekki verið látin vita af ákvörðuninni. Til að bæta gráu ofan á svart var stjórn Orkuveitunnar ekki upplýst um málið né umhverfisráð Reykjavíkurborgar sem fundaði t.a.m. deginum áður en verknaðurinn átti sér stað. Björn Gíslason fulltrúi í umhverfisráði óskaði eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar sem barst 23. nóvember en þar kemur fram orðrétt: „Að mati Náttúrufræðistofnunar er veikleiki þess sem hér hefur verið til umræðu sá að aðeins er verið að skoða hluta af því svæði sem raunverulega hefur verið raskað, en ekki heildarmyndina, og ekki fjallað um mögulega kosti og galla endurheimtar á sameiginlegum vettvangi. Einfaldast væri að stefna að því að endurheimta Elliðavatn og Elliðaá allt til ósa.“ Í ljósi þess hyggist fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nýjum stýrihóp um málefni Elliðaárdals leggja fram tillögu um að OR dragi þessa ákvörðun til baka og Árbæjarlón fyllt að nýju þar til heildarmynd Elliðaárdals og Elliðaá allt til ósa liggur fyrir. 

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins telur óásættanlegt að ekki hafi verið  haft samráð við íbúa við ákvarðanatöku um varanlega tæmingu Árbæjarlóns og leggur því til að lónið verði fært í fyrra horf. Að því loknu fari málið í  farveg  sem felur í sér aðkomu og samráð við íbúa og vilji þeirra sé tekin til greina við endanlega ákvörðun. Mikilvægt er að öll sjónarmið liggi fyrir áður en farið er í breytingar á umhverfi og náttúru eins og hér um ræðir. Þótt ekki reynist um lagalega skyldu að ræða, þá telur fulltrúi Miðflokksins að slík nálgun sé farsælust. Þannig skapast möguleiki á  að ná niðurstöðu sem allir geta sameinast um. Þannig má skapa lausn í stað vanda. Allt sem þarf er vilji. Sé það mat Orkuveitunnar að engin samráðsskylda sé  í jafn stóru inngripi og varanleg tæming lónsins er á náttúru og umhverfi, heldur einungis tilkynningarskylda vaknar upp spurning. Spurning um hver sé tilgangur ný stofnsetts stýrihóps borgarstjóra um hvernig Orkuveitan eigi að skila Elliðaárdal af sér? Stórt er spurt og svara er óskað.

    Bjarni Bjarnason og Hólmfríður Sigurðardóttir frá Orkuveitu Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040         Mál nr. US200419

    Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og skipulagssviðs dags. 15. október 2020 um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna endurskoðunar á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að breytingar á  Aðalskipulagi Reykjavíkur skuli núna fyrst vera lagðar fram í umhverfisráði þegar frestur til athugasemda er svo skammur eða aðeins tveir dagar eru í að skila á inn athugasemdum. Það er ekki boðlegt þegar um jafn mikilvægt ráð er að að ræða og ráð umhverfis- og heilbrigðismála. Hér er um það fagráð borgarinnar að ræða sem mótar stefnu í umhverfis- og náttúruverndarmálum og starfar í umboði borgarráðs í verkefnum náttúruverndarnefndar skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, sbr. einnig reglugerð um náttúruvernd nr. 205/1973 með síðari breytingum. Mótun skipulags og skipulagsbreytingar  geta haft veruleg  áhrif á umhverfisgæði og náttúruvernd og þess vegna er það óásættanlegt að fagráð borgarinnar í þeim málaflokki hafi ekki tækifæri til að kynna sér vel lokaútgáfu að aðalskipulagsbreytingum  og fá tækifæri til að koma með athugasemdir. Slík vinnubrögð eru ekki til vitnis um góða stjórnsýslu eða í samræmi við samþykktir ráðsins og ekki í anda skipulagslaga. Í ljósi alls þessa er farið fram á að umsagnarfresturinn verði framlengdur þannig að ráðinu gefist tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Breytingar á Aðalskipulagi 2010-2030 eru í kynningarferli og til umsagnar í þessum skrifuðu orðum. Frestur til að skila þeim er ekki liðinn. Umhverfis- og heilbrigðisráð getur því komið með allar þær ábendingar og tillögur sem því sýnist og ætlar ráðið að kalla eftir umsögn Skrifstofu umhverfisgæða og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og verður sú umsögn á dagskrá fundar ráðsins í desember. Tími til athugasemda náttúruverndarráðsins er því nægilegur.

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, nýi Skerjafjörður         Mál nr. US200428

    Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. september 2020 um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur varðandi Nýja Skerjafjörð; fjölgun íbúða, staðsetning nýs skóla, breytt landnotkun og minnkað umfang landfyllingar í Skerjafirði

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir fundinum lá tillaga að skoðað yrði í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun að strandlengjan við Skerjafjörð (Nauthólsvík) yrði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. grein náttúruverndarlaga. Standa þarf vörð um þetta græna svæði í borgarlandinu og gæta þess að uppbygging svæðisins snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar. Tillagan var ekki afgreidd á fundinum.

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Starfsemi Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2020, kynning         Mál nr. US200423

    Kynning á starfi Vinnuskólans síðastliðið sumar.

    Magnús Arnar Sveinbjörnsson skólastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  14. Deiliskipulagsbreyting og framkvæmdir Faxaflóahafna, við innsiglinga mastur á Gufuneshöfða, kynning         Mál nr. US200425

    Kynning á deiliskipulagsbreytingum og framkvæmdum vegna nýs innsiglinga masturs Faxaflóahafna á Gufuneshöfða.

    Ágústa Sveinbjörnsdóttir deildarstjóri og Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  15. Endurskoðun á úthlutunarreglum styrktarsjóðs, fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla         Mál nr. US200427

    Lagðar fram til afgreiðslu endurskoðaðar úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla, dags. 20. nóvember 2020.

    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  16. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga         Mál nr. US200386

    Lögð fram til afgreiðslu tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrk til Húsfélagsins Espigerði 2 úr styrktarsjóði fjöleignarhúsa, til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

    Samþykkt.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  17. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US200397

    Óskað er eftir upplýsingum um kolefnisspor upplýsingabæklings Reykjavíkurborgar, Uppbygging: íbúða í borginni og Græna planið: október 2020.

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  18. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US200398

    Alvarlegur olíuleki barst inn í hreinsistöðina í Klettagörðum. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er ekki vitað um hvaðan lekin kom. Óskað er eftir upplýsingum um hvort vinna sé í gangi um hvaðan lekinn barst, og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. 

    Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

  19. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US200399

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska upplýsinga um hversu oft umhverfis- og skipulagssvið hefur nýtt sér aðstöðu til funda í Kjarvalsstofu og af hvaða tilefni. Óskað er sundurliðaðs lista yfir tilefni, hverjir sátu fundina og hver var kostnaður hvers fundar. Þá er jafnframt óskað eftir því að kvittanir fylgi með fyrir hvern viðburð. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um kostnað við aðgangskort að Kjarvalsstofu.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurn um Kjarvalsstofumálið er vísað til umsagnar til frekari meðferðar, hins vegar liggur ekki fyrir skriflegt svar á fundinum og engum fyrirspurnum hefur verið svarað skriflega hingað til. Við það er gert athugasemd. Í áliti lögfræðings vegna þessara málsmeðferða kemur fram orðrétt: „Það er hefðbundin túlkun á stjórnsýslulögunum að skriflegum erindum þurfi að svara skriflega og þau eiga við um öll stjórnvöld þ.m.t. Reykjavíkurborg. Það er óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að hver sá sem ber  upp skriflegt erindi við stjórnvald ætti rétt á að fá skriflegt svar nema erindið bæri með sér að svars væri ekki vænst, en við setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var gengið út frá því að þessi regla gilti. Ef um er að ræða skriflega formlega fyrirspurn í fundagerð hjá ráði eða nefnd Reykjavíkurborgar þá á fyrirspyrjandi að jafnaði óskoraðan rétt á því að fá skriflegt svar. Það getur þó verið í formi umsagnar, minnisblaðs eða jafnvel bókunar“. Hlutverk kjörinna fulltrúa er m.a. að hafa eftirlit. Það er gert með því að kalla eftir skriflegum upplýsingum um ýmis mál. Í þeim tilfellum sem skrifleg svör berast ekki, við skriflegum fyrirspurnum er verið að brjóta á rétti kjörinna fulltrúa. Kvörtun verður send á sveitarstjórnarráðuneytið og óskað umsagnar um málið.

  20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins, leggja fram svohljóðandi tillögu um friðun strandlengjunnar         Mál nr. US200396

    Lagt er til að skoðað verði í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun að strandlengjan við Skerjafjörð (Nauthólsvík) verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. grein náttúruverndarlaga. Standa þarf vörð um þetta græna svæði í borgarlandinu og gæta þess að uppbygging svæðisins snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar.

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í umsögn Náttúrufræðistofnunar segir orðrétt: „Tillagan er sérstök að því leiti að eina svæðið innan hennar sem er svo til óraskað er fjaran, með auðugu fuglalífi allt árið um kring, en henni verður að stórum hluta eytt þó landfylling hafi verið minnkuð frá því sem áður var.” Þá kemur einnig fram í umsögninni varðandi umhverfismatið: „að tillagan er í alla staði talin neikvæð fyrir lífríki svæðisins og er hún því í raun í andstöðu bæði við lög um náttúruvernd og stefnu Reykjavíkurborgar. Það er því einkennilegt að forsendur fyrir skipulaginu eru þess eðlis að ekki er talið hægt að leysa það með öðrum hætti en að fara í landfyllingar.“ Í meirihlutasáttmálanum segir: „Við ætlum að hlúa að grænum svæðum... og vernda líffræðilegan fjölbreytileika í borgarlandinu.“  Umhverfisráðherra hlýtur að fara að tilmælum sinna undirstofnanna og faglegu áliti og skoði friðlýsingu strandlengjunnar þrátt fyrir að meirihlutinn í Reykjavík fari þá leið að vísa henni. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Vinna við breytingar á Aðalskipulagi 2010-2030 eru til skoðunar og umsagnar og ekkert hefur verið staðfest eða ákveðið að svo stöddu. Enn er beðið eftir niðurstöðu á umhverfismati framkvæmdarinnar sem Reykjavíkurborg fór fram á að yrði gert. Von er á því á vormánuðum 2021.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:26

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis-_og_heilbrigdisrad_2511.pdf