Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 37

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2020, miðvikudaginn 27. maí kl. 09:04, var haldinn 37. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi.

Viðstaddir voru: Líf Magneudóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Baldur Borgþórsson og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Kringlan, breyting á deiliskipulagi, umsögn

    Lögð fram umsagnarbeiðni Skrifstofu skipulagsfulltrúa dags. 7. apríl 2020 um skipulagslýsingu vegna skipulagsgerðar og umhverfismats Kringlusvæðisins. Einnig lögð fram breyting á deiliskipulagi Kringlusvæðisins - Verkefnislýsing skipulagsgerðar og umhverfismats, greinargerð Kanon arkitekta, VSÓ ráðgjafar dags. 18. mars 2020, ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 20. maí 2020.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins gerir athugasemdir við framlagða deiliskipulagsbreytingu Kringlusvæðis. Ríflega tíu þúsund fermetra gróðursælu grænu svæði við norðurenda svæðisins verður hér fórnað fyrir steypu. Ríflega fjögur þúsund fermetra gróðursælu grænu svæði við suðurenda verður sömuleiðis fórnað fyrir steypu. Ljóst er að sú deiliskipulagsbreyting sem hér liggur fyrir stenst engan veginn yfirlýst markmið meirihlutans um verndun grænna svæða innan borgarmarkanna, þvert á móti er þetta bein aðför að þeim. Vera má að draumsýn starfandi meirihluta sé að nema ekki staðar fyrr en öllum grænum blettum borgarinnar hefur verið eytt. Fulltrúi Miðflokksins leyfir sér að fullyrða að borgarbúar deili ekki þeirri sýn þeirra. Fulltrúi Miðflokksins vill ítreka fyrri ábendingar sínar um að ekki er ásættanlegt að gengið sé á veghelgunarsvæði Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en ekki verður betur séð en að húsveggir væntanlegra bygginga séu að hluta í einungis sex metra fjarlægð frá þessum stærstu vegum borgarinnar. Slík framsetning setur alla möguleika á úrbótum við þessi stærstu gatnamót borgarinnar í uppnám. Hér þarf að nema staðar áður en skaðinn er skeður.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri Grænna taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins. Mikilvægt er að kortleggja og meta áhrif skipulagsins á loftgæði og hljóðvist eins vel og kostur er. Tillögunni fylgja ýtarleg og góð gögn um hljóðvist og umhverfisgæði. Það er góðs viti. Á loftmyndum sem fylgja gögnunum má vera ljóst að Kringlusvæðið er í heild sinni eitt risastórt bílastæðaflæmi sem er illfært gangandi vegfarendum. Nýtt skipulag byggir á hugmyndasamkeppni sem Reykjavíkurborg, Félag Íslenskra Arkitekta og stærsti lóðahafi á svæðinu, fasteignafélagið Reitir, efndu til árið 2017. Í sem skemmstu máli felst skipulagið í því að breyta svæði, sem er autt stærstan hluta sólarhringsins, í mannabyggð með 800 til 1000 íbúðum. Borgargötur, torg, gróður og garðar koma í stað þeirrar auðnar sem nú blasir við. Gert er ráð fyrir að hlutfall grænna svæða fari ekki undir 20% og notaðar verði blágrænar ofanvatnslausnir þar sem kostur er með grænum þökum og gróðurbeðum. Svæðið liggur afar vel við fyrirhugaðri borgarlínu. Þessi uppbygging leiðir til mun betri landnýtingar en nú er og er líkleg til að draga úr svifryksmengun því hún er liður í því að stytta vegalengdir í borginni.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Miðflokksins telur sjálfsagt að skoðaðir séu kostir uppbyggingar á svæðinu, en gæta þarf hófs í byggingamagni og ágengni á græna hluta svæðisins sem og möguleika á bestun samgöngumannvirkja. Skilyrði er að ekki sé gengið á græn svæði og möguleiki til bestunar samgöngumannvirkja séu ekki eyðilagðir til frambúðar. Ekki verður betur séð en að fyrirlögð og fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting fari gegn hvoru tveggja.

    Svava S. Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Malbikunarstöð, tillaga að starfsleyfi, umsögn

    Lögð fram skýrsla VSÓ ráðgjafar, dags. nóv. 2019, varðandi Malbikunarstöð við Koparsléttu 6-8, Staðhættir, umhverfisáhrif og innra eftirlit og tillaga að starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir Malbikunarstöðina ehf, Koparsléttu 6-8, ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 12. maí 2020.

    Svava S. Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Brekkuboði, Kiðafell og Laufagrunnur, efnistaka í Hvalfirði

    Lögð fram umsagnarbeiðni Orkustofnunar, dags. 30. mars 2020, um leyfi Björgunar til töku efnis af hafsbotni utan netalaga við Brekkuboða, Kiðafell og Laufagrunn í Hvalfirði ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 21. apríl 2020. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Umhverfis- og heilbrigðisráð leggst alfarið gegn því að veitt sé leyfi til efnistökunar Björgunar af hafsbotni í Hvalfirði til þrjátíu ára án undangengis mats á umhverfisáhrifum. Eftir áratuga efnistöku hefur aldrei verið ráðist í að meta áhrifin sem efnistakan kann að hafa í för með sér né hafa verið gerðar rannsóknir á lífríki svæðisins í ljósi hugsanlegra áhrifa sem efnistaka á hafsbotni hefur. Svo sátt ríki um áframhaldandi starfsemi Björgunar telur umhverfis- og heilbrigðisráð afar brýnt að fram fari umhverfismat og leyfisveiting skoðuð í ljósi niðurstöðu þess. Það er ósk ráðsins að þessari afstöðu sé komið á framfæri við Orkustofnun. 

    Svava S. Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, umsögn

    Lögð fram fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 29. apríl 2020, um eftirlit með hávaða í miðborginni ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 22. maí 2020.

    Fylgigögn

  5. Greining KPMG á opinberu eftirliti, svar HER

    Lagt fram erindi KPMG dags. 8. apríl 2020 fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis um greiningu á opinberu eftirliti og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 22. apríl 2020.

    Fylgigögn

  6. Starfsleyfisumsókn SORPU bs. fyrir rekstur gas- og jarðgerðarstöðvar

    Lögð fram stafsleyfisumsókn Sorpu bs. dags. 4. apríl 2018 fyrir rekstur gas- og jarðgerðarstöð ásamt fylgiskjölum; greinargerð dags. janúar 2020 vegna umsóknar ásamt viðaukum A/Greinargerð, A/Skipulagsúrdráttur, B/Tilkynning og C/Ákvörðun. Janframt er lögð fram skýrsla; Report Odor study - New biogas plant at Álfsnes landfill, Reykjavik, Iceland. Lögð eru fram til kynningar drög að sértækum starfsleyfisskilyrðum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fyrir Sorpu bs. fyrir rekstri gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og beiðni Sorpu bs. um prófun á búnaði gas- og jarðgerðarstöðvarinnar dags. 18. maí 2020. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Miklir óvissuþættir eru enn til staðar varðandi Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu bs. Mörgum spurningum er enn ósvarað, bæði varðandi rekstrarmál og umhverfismál. Ekki virðist vera rekstrargrundvöllur fyrir stöðinni þar sem engin eftirspurn er eftir metangasi. Einnig eru óvissuþættir varðandi moltu sem á að framleiða í stöðinni. Reynsla sambærilegrar verksmiðju í Elverum í Noregi er mjög slæm en henni var lokað 5 árum eftir opnun.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér er haldið fram rangfærslum sem ekki standast skoðun og byggja á staðlausum ávirðingum. Gas- og jarðgerðarstöðin gegnir mikilvægu hlutverki í hringrásarhagkerfinu og er gríðarstórt umhverfismál meðal annars með tilliti til þess samfélagssáttmála að hætta að urða. Jarðvegsbætirinn sem er um 12-15.000 tonn sem unninn verður í stöðinni er fyrsta flokks og verður þess vandlega gætt með m.a. mælingum á efnainnihaldi mengandi efna. Hafa ýmis landgræðslufélög lýst áhuga sínum á að kaupa þennan jarðvegsbæti. Varðandi metanframleiðsluna þá eru ýmsir boltar á lofti varðandi nýtingu þess og er stefnan tekin á að þau 3.600 tonn af lífgasi sem framleidd verði árlega verði komin í sölu innan skamms. Þessum fullyrðingum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks er því vísað á bug.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í stjórn Sorpu fara stjórnarmenn með hlutfallslegt atkvæðavægi í samræmi við íbúafjölda þess sveitarfélags sem þeir eru fulltrúar fyrir. Reykjavíkurborg hefur um 60% vægi inn í stjórninni og ber því stærsta ábyrgð á framkvæmd Gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu. Skuldahlutfall Sorpu hefur margfaldast, hagnaður félagsins hefur hrunið auk þess hefur arðsemi eiginfjár fallið vegna GAJA. Ofan á það er engin markaður fyrir metangasi og því rekstrarforsendur GAJA óljósar. Reynsla sambærilegrar stöðvar í Elverum í Noregi sem notaði sömu aðferðir við framleiðslu moltu þurfti að urða moltuna vegna slakra gæða. Auðvitað vonast fulltrúarnir til að allt gangi vel þó reynslan með sambærilega stöð í Noregi hafi verið skelfileg.

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Olíumengun í jarðvegi, kynning

    Kynning Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á olíumenguðum jarðvegi og hlutverk heilbrigðiseftirlits.

    Svava S. Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Fráveitumál, kynning

    Kynning Veitna ohf. á fráveitumálum á Esjumelum. 

    Frestað.

  9. Samþykkt tóbaks- og starfsleyfi

    Lagður fram listi dags. 27. maí 2020 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  10. Samþykkt hundaleyfi

    Lagður fram listi dags. 27. maí 2020 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Eftir mál Heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.

    (E) Umhverfismál

  11. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lögð er fram fundargerð SORPU bs. nr. 426 dags. 20. apríl 2020, ásamt fylgiskjölum.

    Fylgigögn

  12. Áætlun um áframhaldandi tilraunaverkefni í söfnun lífræns eldhúsúrgangs, kynning         Mál nr. US200165

    Lagt fram minnisblað Umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. maí 2020, varðandi tilraunaverkefni á hirðu á lífrænum eldhúsúrgangi - Hamrahverfi í Grafarvogi.

    Fylgigögn

  13. Lenging starfstíma 10. bekkinga hjá Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2020,          Mál nr. US200167

    Formaður Umhverfis- og heilbrigðisráðs leggur fram svohljóðandi tillögu að 

    starfstímabil nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sem lokið hafa 10. bekk verði lengt úr þrem vikum í fjórar sumarið 2020. Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisráði fagna því að sambærileg tillaga og flokkurinn lagði til í borgarráði 16.apríl síðastliðinn sé lögð fyrir og afgreidd í umhverfisráði í dag. Þó má gagnrýna þessa tillögu sem gangur ekki nægilega langt, en 8. og 9. bekkur grunnskólanna er skilinn eftir. Ungmenni hafa farið í gegnum langt tímabil vegna Covid-19 með skertu skóla-, íþrótta-, og tómstundastarfi og því mikilvægt að koma á móts við þau í sumar.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins tekur undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fylgigögn

  14. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús              Mál nr. US200171

     til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla 

     Lögð fram til afgreiðslu tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrkjum úr 

     styrktarsjóði til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla við fjöleignarhús.

    Samþykkt.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  15. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200137

    Óskað er eftir útskýringum á því af hverju vorþrif borgarinnar fari jafn seint af stað og raun ber vitni. Hvað veldur því að ekki sé byrjað fyrr. Til að mynda eru vorþrif í Grafarvogi að klárast um miðjan júní mánuð. 

    Hjalti Jóhannes Guðmundsson skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlands tekur sæti á fundinum undir þessum lið og svarar fyrirspurn munnlega.

  16. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US200108

    Lagt er til að Reykjavíkurborg beini því til stjórnar Sorpu Bs. að kanna þann kost að lengja opnunartíma endurvinnslustöðva á meðan fjöldatakmarkanir vegna Covid-19 standa yfir. Biðtími inn á endurvinnslustöðvar hafa verið allt að 30-60 mínútur síðustu vikur. Tækifæri felast í að opna endurvinnslustöðvar fyrr til að dreifa álaginu á endurvinnslustöðvar. 

    Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar ástand skapaðist við endurvinnslustöðvarnar vegna Covid19 var strax tekið á það ráð að lengja opnunartíma þeirra hjá Sorpu. Eins brást Reykjavíkurborg við og opnaði þrjú garðaúrgangssvæði til að mæta annríkinu og létta á endurvinnslustöðunum. Nú er þetta ástand um garð gengið og tillögunni er því vísað frá.

  17. Tillaga fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna,          Mál nr. US200170

    Lagt er til að fela skrifstofu umhverfisgæða að leggja grunn að stefnumörkun um aukna verndun mikilvægrar náttúru í borgarlandinu. Unnið verði yfirlit yfir þær leiðir sem hægt er að fara í því skyni, s.s. með hverfisvernd í deiliskipulagi, skilgreiningu fólkvanga og friðlýsingu skv. náttúruverndarlögum. Horft verði til þeirra athugana og rannsókna sem fyrir liggja hjá Reykjavíkurborg, Náttúrufræðistofnun, Aðalskipulagi borgarinnar og stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Þá verði horft til tillagna Náttúrufræðistofnunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem mögulegan útgangspunkt við slíka skoðun og mörkuð afstaða til þeirra hugmynda sem þar koma fram. Aflað verði upplýsinga um áform ríkis um fjárveitingar, umhirðu, verndun og vörslu ef til formlegrar friðlýsingar kæmi á einhverjum svæðum í borgarlandinu.

    Samþykkt.

    Vísað til meðferðar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að standa vörð um græn svæði í borginni. Hins vegar er ágangur meirihlutans í borginni á þau svæði mikill og því hefur grænum svæðum víða um borgina fækkað. Nýlega hafa þrenn íbúasamtök í vesturhluta Reykjavíkur gagnrýnt stefnu meirihlutans um of mikla þéttingu byggðar þar sem gengið er „freklega“ á græn svæði þessa borgarhluta. Enn fremur ætlar meirihluti borgarstjórnar að keyra í gegn risavaxnar byggingar í Elliðaárdalnum þvert á vilja íbúa borgarinnar. Auk þess var ekki hlustað á varnaðarorð Umhverfisstofnunar ríkisins sem lagðist gegn þessum áformum, sem og formaður og stjórnar Landverndar. Því er áhugavert að fylgjast með því hver raunverulegur tilgangur þessara vinnu er.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins tekur undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Enginn þeirra þéttingarreita sem hafa komið til uppbyggingar undanfarin ár gengur á græn svæði eða almenningssvæði. Eingöngu hefur verið byggt á aflögðum iðnaðar- og atvinnusvæðum og lítið notuðum bílastæðum. Nefna má að við uppbyggingu út á Keilugranda, þar sem á var stór skemma, hefur verið hannaður lýðheilsureitur. Einnig mætti nefna að á Miðbakka og í Tryggvagötu hafa verið útbúin vinsæl útivistarsvæði þar sem áður voru lítt notuð bílastæði. Í Pósthússtræti hefur gamla steinbryggjan verið grafin upp. Austar á miðborgarsvæðinu á Stýrimannaskólareit er gert ráð fyrir að svokallaður Saltfiskmói verði verndaður. Græn svæði í Reykjavík eru mörg og fjölbreytt og um 40% af þéttbýlissvæðinu fellur undir opin svæði og hefur þessi meirihluti staðið bæði vörð um þau og fjölgað þeim. Friðlýsingar og verndun þeirra er mikilvæg aðgerð og einnig er mikilvægt að skoða hvaða svæði í Reykjavík ber að friðlýsa sem er efsta stig verndunar. Þessi tillaga meirihlutans undirstrikar enn frekar afstöðu hans til mikilvægi náttúru og grænna svæða og umhyggju fyrir lýðheilsu borgarbúa og er því skoðunum Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins vísað til föðurhúsanna.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Minnt er á það að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til í borgarráði 4. okt. 2018 að ekki yrði mokað yfir gömlu steinbryggjuna við Tryggvagötu eins og til stóð að gera af fulltrúum meirihlutans. Þá skal halda því til haga í þessu samhengi að steinbryggjan og Miðbakki hafa aldrei verið skilgreind sem græn svæði enda fer því fjarri að hér sé um græn svæði ræða. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins upplýsa fulltrúa meirihlutans um að þessi svæði eru gömul og rótgróin atvinnusvæði sem lögðu grunnin að atvinnubyggingu í Reykjavík. Það skal tekið fram að meirihlutinn, þar með talið vinstri grænir í borgarstjórn, hafa margsinnis fellt tillögu um friðlýsingu Elliðaárdalsins. Það gefur ekki góð fyrirheit um framtíð grænna svæða í Reykjavík.



    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins tekur undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  18. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram    Mál nr. US200175

    svohljóðandi fyrirspurn, 

    Óskað eftir upplýsingum hvort vitað sé hvar olíumengaður jarðvegur er í borgarlandinu, ennfremur er óskað er eftir því hvort koma eigi upp meðhöndlunarsvæði fyrir mengaðan jarðveg, en Umhverfisstofnun hefur beint tilmælum til sveitarfélaga að þau tryggi sér aðgang að slíkum jarðhreinsistöðvum.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:59

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

Hjálmar Sveinsson