Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 35

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2020, miðvikudaginn 22. apríl kl. 09:05, var haldinn 35. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. 
Viðstödd voru: Líf Magneudóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Baldur Borgþórsson og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Mál heilbrigðisnefndar, Heilbrigðisnefnd         Mál nr. US190025

    Covid 19, kynning á stöðu mála frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

  2. Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar dags. 18. febrúar 2020 um breikkun Vesturlandsvegar ásamt frummatsskýrslu og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags.12. mars 2020.

    Svava S. Steinarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram reglugerð um breytinga á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 26. febrúar 2020.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil notkun nagladekkja er ein helsta uppspretta lífsógnandi svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess valda nagladekkin gríðarmiklum og mjög kostnaðarsömum skemmdum á yfirborði gatnanna. Af þeim stafar líka talsverður hávaði, einkum þegar hratt er ekið. Það er tímaskekkja og mikil afturför að nú eigi að lengja nagladekkjatímabilið. Nær væri að stjórnvöld beittu sér fyrir því að draga eins og kostur er úr nagladekkjanotkun. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins og leggjast eindregið gegn því að nagladekkjatímabilið verði lengt.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Miðflokksins fagnar þeirri breytingu sem boðuð er á reglugerð um notkun nagladekkja sem felur í sér lengingu leyfilegs tímabils á notkun þeirra. Sú breyting á eftir að tryggja betur öryggi vegfarenda víða um land og ekki vanþörf á í því veðurfari sem landsmenn búa við og er veturinn í vetur rækileg áminning þar um. Hér verður að taka tillit til þeirra sem á landsbyggðinni búa og þurfa meðal annars að sækja þjónustu til borgarinnar af ýmsum ástæðum. Þeirra öryggi þarf að tryggja. Það eru fulltrúa Miðflokksins vonbrigði að sjá Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leggjast gegn breytingum sem stuðla að auknu öryggi landsmanna.
    Nær væri að fagna breytingunni og nota önnur ráð en boð og bönn til að fá íbúa borgarinnar til að nota annan búnað en nagladekk. Það er sannarlega svo að þeir sem á höfuðborgarsvæðinu búa þurfa ekki á slíkum búnaði að halda nema í algjörum undantekningartilfellum. Höfðum til þeirra að sleppa nagladekkjunum án þess að fórna öryggi þeirra sem sannarlega þurfa á þeim að halda öryggis síns og annara vegna.

    Svava S. Steinarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram ársskýrsla 2019 Framkvæmdastjórnar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu og fundargerð 130. fundar Framkvæmdastjórnarinnar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram umsagnarbeiðni Orkustofnunar dags. 24. febrúar 2020 um leyfi til töku efnis af hafsbotni utan netalaga í Engeyjarnámi í Kollafirði og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 11. mars 2020. 

    Svava S. Steinarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum á málefnasvið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu (lög á sviði landbúnaðar og matvæla) af samráðsgátt, mál nr. 38/2020 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 7. apríl 2020.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram drög að frumvarpi til laga um viðskiptaleyndarmál, mál nr. 75/2020 úr samráðsgátt ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2020.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram tölvupóstur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis dags. 2. apríl 2020 um greiningu á opinberu eftirliti ásamt samantekt verkefnis. Jafnframt er lagður fram tölvupóstur KPMG dags. 8. apríl 2020 ásamt spurningalista, Gagnaöflun_heilbrigðisnefndir og bréf Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi dags. 6. apríl 2020.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata í Umhverfis- og heilbrigðisráði styðja að greining á núverandi eftirlitskerfi verði framkvæmd með það að markmiði að styrkja heilbrigðiseftirlitið í sínu hlutverki í að sinna nærþjónustu við íbúa og hollustuhátta-, matvæla- og mengunarvarnareftirliti. Leiðbeinandi hlutverk stofnanna á borð við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun er hluti af þessu kerfi og þess vegna er mikilvægt að taka út kerfið í heild sinni. Varast ber að setja bæði eftirlit og eftirfylgni við eftirlitið undir sama hatt enda miklir hagsmunir í húfi. Fulltrúarnir taka því undir umsögn SHÍ að mikilvægt er að skýra hvaðan athugasemdir og gagnrýni á kerfið kemur. Einnig er tekið undir að nauðsynlegt er að framkvæma þjónustukönnun meðal eftirlitsþega til að fá heildarmyndina. Skora fulltrúarnir á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem og umhverfis- og auðlindaráðuneytið að fresta framkvæmd úttektar á meðan heilbrigðiseftirlitin í landinu eru undir gífurlega álagi vegna Covid19 faraldurs.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram erindi íbúa á Kjalarnesi dags. 5. desember 2019 til borgarráðs Reykjavíkur og íbúaráðs Kjalarness varðandi mengun frá skotsvæðum á Álfsnesi ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Einnig er lagt fram svar Heilbrigðiseftirlitsins við erindi íbúaráðs Kjalarness dags. 17. febrúar 2020.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fyrirspurn íbúaráðs Grafarvogs um framtíð Sorpu, má. nr. R20020223, dags. 21. febrúar 2020 og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 16. apríl 2020.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar, dags. 30 mars 2020, um umhverfis- og auðlindamál nr. 8/2020 um bálför hunds ásamt greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 2. mars 2020.

    Fylgigögn

  12. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar, dags. 30 mars 2020, um umhverfis- og auðlindamál nr. 58/2020 vegna óleyfishunds að Dalalandi 12 ásamt greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 6. ágúst 2019.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi Skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. febrúar 2020 um meðferð tillagana áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hundahald, lagt fram í borgarráði 13. febrúar 2020 - mál R20010132 og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2020.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram erindi Skrifstofu borgarstjórnar dags. 21. febrúar 2020 varðandi fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ástand Fossvogsskóla og heilsu skólabarna - mál R20020201 og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2020.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram erindi Skrifstofu borgarstjórnar dags. 20. febrúar 2020 til umhverfis- og heilbrigðisráðs til afgreiðslu um tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að gerð verði fagleg úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2020.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Faglegar úttektir hafa verið gerðar á Fossvogsskóla bæði af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fleirum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er sá lögboðni og faglegi aðili sem metur hvort húsnæði standist kröfur skv. hollustuháttalöggjöf. Viðamiklar úrbætur hafa verið gerðar á húsnæði Fossvogsskóla og eru engar athugasemdir við þær af hálfu umhverfis- og heilbrigðisráðs miðað við niðurstöður síðasta heilbrigðiseftirlits og úttekta sem liggja fyrir. Tillögunni er því vísað frá. 

    Tillögunni er vísað frá með atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram erindi Skrifstofu borgarstjórnar dags. 6. mars 2020 um trúnaðarmerkta fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins dags. 30. janúar um starfsfólk hundaeftirlits ásamt ódags. svari persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í meðfylgjandi svari persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar kemur fram að óheimilt er samkvæmt persónuverndarlögum að veita aðgang að vinnustundum starfsfólks. Varðandi annað í fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um verkefni starfsmanna þá er vísað til framlagðar starfslýsingar fyrir hundaeftirlitsmann og samþykktar um hundahald í Reykjavík sem hundaeftirlitsmenn vinna samkvæmt, og finna má á vef Reykjavíkurborgar. Hundaeftirlitsmenn eru báðir ráðnir í 100% starf og starfa undir yfirumsjón framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

  17. Lagður fram listi dags. 22, apríl 2020 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

  18. Lagður fram listi dags. 22. apríl 2020 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Eftir mál Heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.

    (E) Umhverfismál

  19. Rauðhólar, kynning á deiliskipulagslýsingu            Mál nr.SN200198

    Kynnt lýsing skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla, dags. 30. mars 2020. Um er að ræða Rauðhóla sem hafa verið friðlýstir sem fólkvangur síðan 1974, ásamt aðliggjandi svæði í kringum Heiðmerkurveg yfir brúnna að Helluvatni. Helstu viðfangsefni og meginmarkmið fyrir deiliskipulagið koma fram í lýsingunni, en m.a. er lagt til að skilgreina aðalleiðir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarenda um svæðið o.fl. (kynnt)

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  20. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar eru fram fram fundargerðir SORPU bs. nr. 421 dags. 17. febrúar 2020, nr. 422 dags. 3. mars 2020, nr. 423 dags. 13. mars 2020, nr. 424 dags. 23. mars 2020 og nr. 425 dags. 30. mars 2020.

    Fylgigögn

  21. Efnistaka á hafsbotni í Kollafirði, umsögn, umhverfismat apríl 2020         Mál nr. US200085

    Lagt er fram erindi Skipulagsstofnunar dags. 12. mars 2020 þar sem óskað var umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs um mat á umhverfisáhrifum á efnistöku á hafsbotni í Kollafirði, einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 6. apríl 2020. 

    Umhverfis- og heilbrigðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umhverfis- og heilbrigðisráð tekur undir umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um að nýtt mat ætti að fara fram á umhverfisáhrifum á efnistöku Björgunar í Kollafirði enda sé það gamla mörgum annmörkum háð og frekari rannsókna er þörf. Það er eindregin ósk umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur að það fari fram umhverfismat á umsvifum og athöfnum Björgunar við efnistöku í Kollafirði. Þar til umhverfismat hefur farið fram leggst ráðið gegn því að Björgun fái langtímaleyfi til að námustarfsemi á hafsbotni fjarðarins. 

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Tilraunaverkefni við söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi á Kjalarnesi, kynning         Mál nr. US200092

    Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. apríl 2020 er varðar tilraunaverkefni á hirðu á lífrænum eldhúsúrgangi. Kynning á stöðu verkefnisins, niðurstöður hingað til og framhald.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Umhverfis- og heilbrigðisráð leggur til að halda eigi tilraunaverkefninu á Kjalarnesi áfram fram á haust og að gerðar séu frekari tilraunir um úrgangslausnir. Mikilvægt er að kanna síðan reynslu og ánægju íbúa af fyrirkomulaginu. 

    Friðrik Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Endurgerð grenndarstöðva 2020, kynning         Mál nr. US200093

    Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. apríl 2020 er varðar endurgerð grenndarstöðva 2020 . Kynntur verður listi yfir stöðvar sem verða endurgerðar í sumar.

    Friðrik Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Vinnuskólinn sumarið 2020,          Mál nr. US200094

    Kynning á starfsemi vinnuskólans.

    Magnús Arnar Sveinbjörnsson skólastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  25. Fyrirhugaðrar friðlýsingar á Lundey, afstaða Reykjavíkurborgar og tilnefning í starfshóp (USK2020040013)         Mál nr. US200101

    Lögð fram ósk Umhverfisstofnunar dags. 3. apríl 2020 eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þess að hefja undirbúning að friðlýsingu Lundeyjar ásamt því að óska eftir tilnefningu í samstarfshóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að friðlýsingu svæðisins og mörkum þess.

    Umhverfis- og heilbrigðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2014 sendi Fuglavernd Reykjavíkurborg erindi og hvöttu stjórnvöld til að friðlýsa bæði Akurey og Lundey. Tók borgin vel í erindi Fuglaverndar á þeim tíma og var Akurey, sem er í eigu borgarinnar, loksins friðlýst í maí í fyrra. Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur hefur engu breytt í afstöðu sinni til erindisins og telur einboðið að ljúka verkefninu með því að friðlýsa einnig Lundey sem er í eigu ríkisins. Verndargildi eyjanna beggja er mikið enda er þar ríkulegt lífríki sjófugla og varpstaður m.a. lunda sem er í bráðri útrýmingarhættu. Það er því von umhverfis- og heilbrigðisráðs að friðlýsing Lundeyjar gangi hratt og örugglega fyrir sig, lífríkinu til heilla. Er skrifstofustjóra umhverfisgæða falið að skipa fulltrúa borgarinnar í samstarfshóp Umhverfisstofnunar um friðlýsinguna. 

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Tjarnarfuglar 2019, skýrsla lögð fram.          Mál nr. US200096

    Lögð fram skýrsla Ólafs K. Níelssonar og Jóhanns Óla Hilmarssonar 
    Fuglalíf Tjarnarinnar 2019.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  27. Úthlutun styrktarsjóð fyrir hleðslustöðvar við fjöleignarhús, kynning         Mál nr. US200099

    Kynning á úthlutun úr sjóðnum.

  28. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins,                  Mál nr. US200107

    Ruslastampar víða um borgina hafa verið yfirfullir vegna aukinnar umferðar gangandi vegfarenda. Óskað er eftir upplýsingum um hvort Reykjavíkurborg ætli að auka losun ruslastampa í borgarlandinu? 

    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandssins til umsagnar.

  29. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins,                   Mál nr. US200108

    Lagt er til að Reykjavíkurborg beini því til stjórnar Sorpu bs. að kanna þann kost að lengja opnunartíma endurvinnslustöðva á meðan fjöldatakmarkanir vegna Covid-19 standa yfir. Biðtími inn á endurvinnslustöðvar hafa verið allt að 30-60 mínútur síðustu vikur. Tækifæri felast í að opna endurvinnslustöðvar fyrr til að dreifa álaginu á endurvinnslustöðvar.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:40

Líf Magneudóttir Hjálmar Sveinsson

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis-_og_heilbrigdisrad_2204.pdf