Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 31

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 27. nóvember kl. 9:03, var haldinn 31. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstaddir voru: Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Vigdís Hauksdóttir og fulltrúi Samtaka Atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Þórólfur Jónsson, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Guðjón Ingi Eggertsson, Sigurjóna Guðnadóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir 

Þetta gerðist:

  1. Mál heilbrigðisnefndar, Heilbrigðisnefnd         Mál nr. US190025

    I.    Lagt fram erindi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 8. maí 2019 um breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Korpulínu ásamt breytingu nr. 32 dags. apríl 2019 og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 24. október 2019.
    Kynnt.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    II.    Lagt fram erindi Skipulagsstofnunar dags. 14. október 2019 um breikkun Vesturlandsvegar ásamt tillögu að matsáætlun dags. 10. október 2019 og umsögn Heilbrigðiseftirlitis Reykjavíkur dags. 24. október 2019.
    Kynnt.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 9:12 tekur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir sæti á fundinum.

    III.    Lögð fram fyrirspurn frá borgarráðsfundi þann 31. október 2019: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvort að neysluvatn Reykvíkinga sé geislað. Ef svo er að vatnið sé geislað hverjar eru ástæður þess og af hverju hefur það ekki verið upplýst um það."
    Vísað til Veitna ohf. til umsagnar. 

    Fulltrúi Miðflokksins bókar: 

    Þegar kjörnir fulltrúar leggja fram skriflega fyrirspurn er óskað skriflegs svars. Það er hefðbundin túlkun á stjórnsýslulögunum að skriflegum erindum þurfi að svara skriflega og þau eiga við um öll stjórnvöld þ.m.t. Reykjavíkurborg. Upplýst var á fundinum að erindið ætti ekki heima í ráðinu og þyrfti því ekki að svara því skriflega. Hvers vegna er málið þá á dagskrá fundarins? Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beina því erindinu til Veitna til skriflegs svars.  Leyndarhyggjan hjá meirihlutanum er óþolandi.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata gagnbóka: 

    Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins var vísað til Umhverfis- og heilbrigðisráðs úr borgarráði og þar með var skylt að legga það fram á fundi ráðsins. Það er hins vegar ekki skylda heldur venja að svara fyrirspurnum skriflega. Í þessu tilfelli er skýrt að eftirlitshlutverk yfir þennan málaflokk liggur hjá Heilbrigðiseftirlitinu en ekki úrvinnslan sjálf. Er hún í höndum Veitna. Fulltrúar HER útskýrðu ítarlega þeirra aðkomu og stöðu eftirlits með málinu og var ákveðið að áframsenda fyrirspurnina til Veitna. Þess má geta að svör við fyrirspurnum er einnig hægt að leggja fram á fundum í formi bókana og hafði sú leið verið valin í þetta sinn.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókar: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði beina eftirfarandi spurningum til Veitna til skriflegs svars. Óskað eftir upplýsingum um það hvort að neysluvatn Reykvíkinga sé geislað. Ef vatnið er geislað, hverjar eru ástæður þess og af hverju hefur ekki verið upplýst um það?

    IV.    Lagt fram af samradsgatt.island.is mál nr. 243/2019 um frumvarp til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna viðauka ásamt samanburðarskjali og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 25. október 2019.
    Lagt fram.

    V.    Lagt fram af samradsgatt.island.is mál nr. 244/2019 um drög að reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur ásamt viðauka, skráningarferli og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 30. október 1019.
    Lagt fram.

    VI.    Lagt fram erindi nefndarsviðs Alþingi um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla (einföldun regluverks, Matvælasjóður og EES-reglur), þingskjal 361 - 318 mál, ásamt umsögn Heilbirgðiseftirlits Reykjavíkur dags. 19. nóvember 2019.
    Lagt fram.

    VII.    Lagður fram listi dags. 27. nóvember 2019 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    VIII.    Lagður fram listi dags. 16. nóvember 2019 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Kl. 10:12 víkur Ólafur Jónsson af fundi.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  2. Umhverfis- og heilbrigðisráð, Fundarsköp         Mál nr. US190134

    Fulltrúar Sjálfstæðiflokks og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði furða sig á því fundarofbeldi sem formaður ráðsins viðhafði á fundinum og það ekki í fyrsta sinn. Formaður ráðsins neitaði fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að bóka undir fundarsköpum í byrjun fundar umhverfisráð eftirfarandi: “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði furða sig á því að Líf Magneudóttir formaður ráðsins skuli vaða í fréttir Ríkisútvarpsins með tillögu um að takmarka umferð ökutækja nú. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram ítarlega tillögu (R19030213) um aðgerðir í lofgæðamálum í borgarstjórn, þriðjudaginn 19. Mars sl. sem samþykkt var að taka til úrvinnslu í umhverfis- og heilbrigðisráði. Síðan eru liðnir 253 dagar og tillagan hefur enn ekki verið til umræðu í ráðinu. Það er borginni til háborinnar skammar að ekki hafi verið tekið á málunum fyrr enda stóð til að vinna úr tillögunum fyrir rúmlega 8 mánuðum síðan. Nú hefur svifryk mælist ítrekað yfir heilsuverndarmörkum en ráðið hefur setið aðgerðarlaust.” Einnig var fulltrúunum neitað að telja upp hvað fólst í tillögum Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var að vísa til ráðsins fyrir rúmlega 8 mánuðum.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata bóka: 

    Ef vilji hefði verið til að taka málið á dagskrá hefði verið eðlilegt að beina þeirri tillögu til formanns sem tekur ákvarðanir um dagskrá funda. Slík tillaga hefur ekki komið fram og því er ekki tilefni til bókunar um fundarsköp. Hægt hefði verið að setja fram fyrirspurn, sem bókuð hefði verið í fundargerð, til að fá upplýsingar um afdrif málsins og hvort og hvenær til stæði að taka það á dagskrá ráðsins. Allar ásakanir um fundarskapaofbeldi er fulltrúunum til minkunnar enda hafa þeir ekki getað fært nein rök fyrir því að ásaka samstarfsfólk sitt um ítrekað ofbeldi. Fulltrúunum væri nær að kynna sér betur samþykktir borgarinnar og hvernig fundir fara fram og fundarsköp sem þeim fylgja. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gagnbóka: 

    Loftgæðamálin virðast meirihlutanum mjög viðkvæm enda hefur fullbúinn tillaga þess efnis beðið afgreiðslu í rúmlega átta mánuði. Meðal aðgerða sem lagt var til í tillögunni var endurskoðun á efnisvali borgarinnar varðandi gæði efna í malbiki, þrif verði aukin á umferðaræðum (sópun, þvottur og rykbinding), að frítt verði í strætó á „gráum dögum“, takmörkun þungaflutninga með efni sem valdið geta svifryksmengun á „gráum dögum“, dregið úr notkun nagladekkja í borgarlandinu og að íbúar í fjölbýlishúsum geti hlaðið rafbíla með auðveldum hætti, að nýting affallsvatns verði notuð  í auknum mæli til að hita upp göngu- og hjólastíga borgarinnar og að endingu að unnið verði gegn dreifingu byggðar. Skildi ástæða þess að málið hafi ekki fengið afgreiðslu í ráðinu sé vegna þess að meirihlutinn í Reykjavík hefur lítinn áhuga á að laga loftgæðamálin í Reykjavík vegna þess að það hentar ekki þeirra pólitík? 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata gagnbóka: 

    Fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks var boðið að setja fram fyrirspurn um afdrif tillögunnar sem hefði fengið viðeigandi málsmeðferð samkvæmt samþykktum en þeir skelltu skollaeyrum við, allt til að reyna að koma pólitísku höggi á svokallaða andstæðinga sína með afar ómaklegum hætti sem standast ekki skoðun í ljósi góðra fundarskapa. Því má halda til haga hér, þó athugasemdin sé efnisleg en varðar ekki fundarsköp; að uppspretta svifryksmengunar og mengunar vegna útblásturs er sú gríðarlega mikla bílaumferð sem hrjáir höfuðborgarsvæðið. Ef fulltrúarnir eru hissa á þeirri staðreynd þurfa þeir að kynna sér málið betur. Borgarbúar eiga rétt á heilnæmu lofti og rétti til bestu mögulegrar heilsu. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja það og aðgerðir sem takmarka umferð ökutækja eru einmitt til þess gerðar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gagnbóka: Borgarstjórn samþykkti samhljóða 4. september 2018 að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Talið er að 80 ótímabær dauðsföll eigi rót sína að rekja til þessa á Íslandi. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fer svifryk ítrekað yfir heilsuverndarmörk. Tillögur Sjálfstæðismanna eru ekki ný vísindi. Áðurnefnd tillaga Sjálfstæðisflokksins auk tillagna um aukið umferðarfræði með snjallvæðingu umferðarljósa eru dæmi leiðir til að draga úr mengun. Bifreiðar í lausagangi auka mengun gríðarlega.

    (E) Umhverfismál

  3. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar eru fram fundargerðir SORPU bs. nr. 414 dags. 7. október 2019 og nr. 415 dags. 1. nóvember 2019 og ásamt fylgiskjölum.

    Fulltrúi Miðflokksins bókar: 

    Sorpa bs. er byggðarsamlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur komið í ljós að mismunandi litir eru á sorptunnum fyrir sama úrgang eftir sveitarfélögum sem að samlaginu standa. Óskiljanlegt er að ekki skuli vera samfella í þessum málum hjá fyrirtækinu. Umhverfisráðherra stekkur upp og boðar lagabreytingu gegn þessum einfalda hlut. Málið er innanhússmál hjá Sorpu og einungis þarf einfalda ákvörðun á einum fundi að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er hvimleiður vani að ef einhver smámál koma upp þá er fyrsta svar alltaf lagabreyting.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata gagnbóka: 

    SORPA bs. er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk fyrirtækisins er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu fyrir þessi sex sveitarfélög samkvæmt þjónustusamningi við sveitarfélögin. Fyrirtækið skiptir sér hins vegar ekki af því hvernig hirðu við heimili íbúa hvers sveitarfélags er háttað og taka sveitarfélögin sjálf þá ákvörðun. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur frá heimilum þeirra. Íbúar þurfa því að óska eftir grænni tunnu undir plast og blárri tunnu undir pappír og pappa við heimili sitt. Sveitarfélögin þurfa að taka ákvörðun um hvort þau samræmi flokkun sína en sú ákvörðun verður tekin á vettvangi hvers sveitarfélags fyrir sig og í sátt við hlutaðeigandi. Umræður um samræmingu flokkunar sveitarfélaga og vinna sem snýr að því er þegar farin af stað hjá sveitarfélögunum á Suðvesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Ríkur vilji er til að ná samstöðu um úrgangsmálin á þessu svæði

    Fylgigögn

  4. Staða tilraunaverkefnis á Kjalarnesi, söfnun lífræns úrgangs         Mál nr. US190390

    Kynnt er staða tilraunar að söfnun á lífrænum úrgangi á Kjalarnesi.

    Friðrik Klingbeil Gunnarsson verkefnisstjóri, Skrifstofu umhverfisgæða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Miðflokksins bókar: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar mjög þessu verkefni. Það er engin spurning að söfnun á lífrænum úrgangi í Reykjavík allri er nauðsyn. Hrinda þarf því verkefni strax í framkvæmd. Reykjavík er langt á eftir í þessum málum miðað við nokkuð mörg sveitarfélög. Mikil vitundarvakning á sér stað um flokkun sorps og verður móttakarinn/Sorpa að sinna þessu kalli.

    (D) Ýmis mál

  5. Umhverfis- og skipulagssvið, 8 mánaða uppgjör         Mál nr. US190384

    Lögð er fram greinagerð 8 mánaða uppgjörs Umhverfis- og skipulagssviðs janúar - ágúst 2019.

    Kristján Ólafur Smith sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Stýrihópur um þjónustu borgarinnar við gæludýr, skipun fulltrúa og drög að erindisbréfi         Mál nr. US190323

    Lögð eru fram drög að erindisbréfi vegna stýrihóps til að greina hvernig haga skuli þjónustu borgarinnar við gæludýr.
    Samþykkt að skipa Sabine Leskopf og Ingu Maríu Hlíðar Thorsteinson i stýrihópinn ásamt Þorkeli Heiðarssyni sem er skipaður formaður stýrihópsins.

    Fylgigögn

  7. Áfangastaðurinn Reykjavík, erindi til umsagnar         Mál nr. US190379

    Lögð eru fram drög ódags. að nýrri ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg þar sem leitað er umsagnar fagráða við drögin.
    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra til umsagnar.

    Fylgigögn

  8. Betri Reykjavík/þín rödd, Gróðursetning gróðurs við helstu umferðargötur (USK2019100061)         Mál nr. US190374

    Lagt fram til meðferðar erindið "Gróðursetning gróðurs við helstu umferðargötur" sem tekið var af samráðsvefnum Betri Reykjavík þann 17. október 2019. Erindið var efsta hugmynd septembermánaðar á samráðsvefnum sem stóðst skilyrði til afgreiðslu. 
    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða til yfirstandandi vinnu við útfærslu loftlagsskóga.

    Fylgigögn

  9. Betri Reykjavík/þín rödd, Gróðursetja tré við í kringum POLO-sjoppu við Bústaðarveg (USK2019100060)         Mál nr. US190375

    Lagt fram  til meðferðar erindið "Gróðursetja tré við í kringum POLO-sjoppu við Bústaðarveg" sem tekið var af samráðsvefnum Betri Reykjavík þann 16. september 2019. Erindið var fimmta efsta hugmynd ágústmánaðar á samráðsvefnum. 
    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða til meðferðar.

    Fylgigögn

  10. Betri Reykjavík/þín rödd, Rusl í Reykjavík  (USK2019100058)         Mál nr. US190376

    Lagt fram  til meðferðar erindið "Rusl í Reykjavík" sem tekið var af samráðsvefnum Betri Reykjavík þann 16. september 2019. Erindið var þriðja efsta hugmynd ágústmánaðar á samráðsvefnum. 
    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands til meðferðar.

    Fylgigögn

  11. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins borgarráðs, (USK2019100054)         Mál nr. US190377

    Lagt fram erindi skrifstofu borgarstjórnar f.h. borgarráðs dags. 17. október 2019 þar sem fram kemur tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks Fólksins um að borgin komi upp aðstöðu þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins.
    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða til meðferðar.

    Fylgigögn

  12. Fyrirspurn frá fulltrúa Miðflokksins, mengunarmælar í Reykjavík         Mál nr. US190394

    Fyrirspurnir um mengunarmæla til skriflegs svars 1. Hvar eru mengunarmælar staðsettir í Reykjavík? 2. Hvar eru mengunarmælar Vegagerðarinnar staðsettir og hvar eru mengunarmælar borgarinnar staðsettir? 3. Hafa verið settir upp mengunarmælar við Landsspítalann? 4. Hvernig er tekin ákvörðun um staðsetningu færanlegra mengunarmæla?
    Frestað.

  13. Fyrirspurn frá fulltrúa Miðflokksins, vegna leikvallar við Ísaksskóla við Skaftahlíð         Mál nr. US190395

    Leiktæki- og völlur við Ísaksskóla/Skaftahlíð valda nágrönnum miklu ónæði. Í raun var skólalóð breytt í íþróttasvæði án þess að það liggi skýrt fyrir hver og hvort hafi veitt leyfi fyrir framkvæmdinni. Þessar framkvæmdir voru ekki verið kynntar íbúum. Lóðin er inni í miðju íbúðahverfi. Mikið ónæði er af vellinum eftir að skóla líkur á daginn, á kvöldin og um helgar. 1. Var fengið byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni, deiliskipulagi breytt og það grenndarkynnt? 2. Samræmist nálægð  knattspyrnuvallar við íbúðarhús deiliskipulagi? 3. Hefur bygginganefnd tekið svæðið út? 4. Hafa verið gerðar hljóðmælingar á þessum stað? 5. Hefur verið farið í grenndaráhrif og slysahætta metin? 6. Getur verið að völlurinn er óleyfisframkvæmd? Óskað er eftir skriflegu svari

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf