Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 26

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 28. ágúst kl. 09:11, var haldinn 26. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstaddir voru: Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf, Egill Þór Jónsson, Örn Þórðarson, Vigdís Hauksdóttir og Ólafur Jónsson.
Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir. Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir 

Þetta gerðist:

  1. Umhverfis- og heilbrigðisráð, samþykktir         Mál nr. US180349

    Lagðar fram nýjar samþykktir fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  2. Umhverfis- og heilbrigðisráð, Breyting á fundadagatali         Mál nr. US190278

    Lagt er til að halda sameiginlegan fund umhverfis- og heilbrigðisráðs og skipulags- og samgönguráðs 28. ágúst 2019 frá kl. 13 - 17 vegna nýrrar fjármálaáætlunar umhverfis- og skipulagssviðs. Með því mun skipulags- og samgönguráðsfundur þann 18. september 2019 verða sameiginlegur beggja ráða og 2. október sem skv. fundardagatali eigi að vera sameiginlegur fundur beggja ráða verða í stað þess fundur fyrir skipulags- og samgönguráð.
    Kynnt.

  3. Kosning í umhverfis- og heilbrigðisráð, Kynnt         Mál nr. US190026

    Lagt er fram bréf dags. 21. júní 2019, frá fundi borgarstjórnar 18. júní 2019 þar sem var samþykkt að Örn Þórðarson taki sæti varamanns í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.

    Fylgigögn

  4. Mál heilbrigðisnefndar, Heilbrigðisnefnd         Mál nr. US190025

    I.    Ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og rekstraruppgjör 2018.
    Lagt fram

    -    Kl. 9:19 tekur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir sæti á fundinum.

    II.    Lagt fram á ný bréf Samtaka atvinnulífsins til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis dags. 18. desember 2018. Lögð eru fram bréf Umhverfisstofnuar dags. 21. janúar 2019, bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 12. febrúar 2019. Einnig eru lögð fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til Umhverfisstofnunar dags. 5. febrúar 2019 og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 18. febrúar 2018. Lögð fram bréf Umhverfisstofnunar dags. 17. apríl 2019 ásamt tölvupóstsamskiptum dags. 15. maí 2019 og 17. maí 2019 og bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 9. maí 2019 ásamt tölvupóstsamskiptum dags. 29. maí 2019 og 5. júní 2019. Jafnframt er lögð fram á ný fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks dags. 13. febrúar 2019 vegna birtingar á niðurstöðum eftirlitsskýrslna og greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 23. ágúst 2019.  
    Lagt fram. 

    III.    Lögð fram á ný tillaga fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í umhverfis- og heilbrigðisráði dags. 27. mars 2019, varðandi birtingu niðurstaðna eftirlits á netinu ásamt tölvupóstsamskiptum dags. 6. mars 2019. 

    -    Kl. 9:44 tekur Rannveig Ernudóttir sæti á fundinum.

    Afgreiðslu tillögunar er frestað á milli funda. Formanni er falið að reyna leita sátta í málinu. 

    IV.    Kynnt er mengunaróhapp vegna olíuleka í ofanvatnslagnir í Breiðholti 1. ágúst 2019. 
    Kynnt. 

    V.    Lagt fram bréf Orkustofnunar dags. 24. júní 2019, þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn Faxaflóahafna um leyfi til efnistöku á hafsbotni í Sundahöfn dags. 24. júní 2019. Einnig lagt fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 9. júlí 2019. 
    Lagt fram og kynnt. 

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    VI.    Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 18. júlí 2019 vegna landfyllingar í Skerjafirði. Einnig eru lagðar fram umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavík dags. 15. ágúst 2019 og Umhverfis- og skipulagssviðs, Umhverfisgæða dags. 16. ágúst 2019.
    Lagt fram og kynnt. 

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúar Pírata bóka: 

    Það er mat fulltrúa meirihluta í umhverfis- og heilbrigðisráði að stíga eigi varlega til jarðar í öllum fyrirhuguðum framkvæmdum. Mikilvægt er að málið sé metið með faglegum hætti og tekið er undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögnum Umhverfis- og skipulagssviðs og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Mat á umhverfisáhrifum er besta leiðin til þess að meta og setja fram skilvirkar mótvægisaðgerðir við þeim framkvæmdum sem áætlaðar eru.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins bóka: 

    Fulltrúar minnihlutans í umhverfis- og heilbrigðisráði fagna þeim upplýsingum sem fram koma á fundinum að senda eigi fyrirhugaða tæpa 5 hektara landfyllingu og sjóvarnargarð í Skerjafirði vestan við Reykjavíkurflugvöll í umhverfismat. Er það algjörlega í takti við bókanir minnihlutans í málinu á sviði ráðsins og einnig í borgarráði. Ljóst er að yfirvofandi er mikið umhverfisslys í Skerjafirði með fyrirhugaðri uppbygginu sem hefur aukinheldur mikil áhrif á vatnsbúskapinn í Vatnsmýrinni. Fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað óskað eftir að uppbygging á landfyllingu í Skerjafirði yrði tekið fyrir í ráðinu. Við því varð orðið seint og um síðir en ekki fyrr og úthlutunaráætlun lóða á þessu svæði var afgreidd frá borgarráði. Um er að ræða gríðarlega stórt umhverfismál og hafði umhverfið sigur í þetta sinn.

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúar Pírata gagnbóka: 

    Hér er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmdin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Einungis liggja hér fyrir umsagnir Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem eru samhljóða um að leggja til að framkvæmdin fari í slíkt mat. Það er hins vegar í höndum Skipulagsstofnunar að kveða endanlega upp hvort svo verði eða ekki. Það er því annað stjórnvald sem ákveður það en ekki Reykjavíkurborg líkt og kemur fram í bókun minnihlutans. Uppbygging í Skerjafirði er hluti af mikilvægri húsnæðisuppbyggingu og á ekkert skylt við upphrópanir minnihlutans um umhverfisslys.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gagnbóka: 

    Hér er verið að deila um keisarans skegg og verið að gera lítið úr þeirri náttúruperlu sem Skerjafjörðurinn er. Ekki þarf að ræða það frekar að landfyllingin í Skerjafirði og fyrirhugaður sjóvarnargarður þarf að fara í umhverfismat eins og segir í umsögn Umhverfis og skipulagssviðs: „Áætluð framkvæmd er á viðkvæmu náttúrusvæði með umtalsvert verndargildi og þar finnast vistgerðir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2012. Skerjafjörður er metinn sem mikilvægt fuglasvæði og er eitt af náttúrusvæðum sem Náttúrufræðistofnun telur að skuli friðlýsa samkvæmt tillögum þeirra fyrir B-hluta náttúruminjaskrár sem er í undirbúningi hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Stór hluti strandlínu Skerjafjarðar í Reykjavík er verndaður m.a. friðlýstur að hluta í Fossvogi en einnig undir hverfisvernd. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði ætla að senda Skipulagsstofnun bókanir sínar í málinu til að undirstrika mikilvægi þess að uppbygging svæðisins verði sett í umhverfismat.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri og Snorri Sigurðsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    VII.    Lagður fram listi dags. 23. ágúst 2019 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    VIII.    Lagður fram listi dags. 23. ágúst 2019 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  5. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar eru fram fundargerðir SORPU bs. nr. 409 dags. 25. júní 2019, nr. 410 dags. 19. júlí 2019 og 411 dags. 16. ágúst 2019 ásamt fylgiskjölum.

    6.    Umhverfis- og skipulagssvið, Fimm mánaða uppgjör         Mál nr. US190254

    Lagt fram fimm mánaða uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs janúar til maí 2019.

    Fylgigögn

  6. Umhverfis- og skipulagssvið, innkaupaskýrsla (USK2015020003)         Mál nr. US130045

    Lagt fram yfirlit yfir viðskipti umhverfis- og skipulagssviðs við innkaupadeild í júní 2019.

  7. Lagt fram yfirlit yfir viðskipti umhverfis- og skipulagssviðs við innkaupadeild í júní 2019.

  8. Grænt bókhald, Kynning         Mál nr. US180453

    Lögð er fram skýrsla um grænt bókhald hjá Reykjavíkurborg 2018 dags. ágúst 2019.

    Þórhildur Ósk Halldórsdóttir deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Endurskoðun á aðgerðaráætlun í loftlagsmálum, tillaga         Mál nr. US190273

    Lögð er fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að endurskoðun á aðgerðaráætlun í loftslagsmálum ásamt fylgigögnum, dags. 29. júlí 2019.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Örn Þórðarson og fulltrúi Miðflokksins sitja hjá. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Egill Þór Jónsson sat ekki undir þessum lið. 

    Samþykkt er að skipa Líf Magneudóttur, Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur og Vigdísi Hauksdóttur í stýrihóp um endurskoðun aðgerðaráætlunar Reykjavíkur í loftslagsmálum. 

    Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  10. Fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks, Vatnsmýrin         Mál nr. US190153

    Á 20. fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs þann 8. maí 2019 lögðu fulltrúar Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi fyrirspurn:

    „Mikil uppgröftur og röskun á sér stað á Vatnsmýrarsvæðinu öllu vegna uppbyggingar þar. Óskað er eftir upplýsingum og greinarskrifum úr viðurkenndum vísindatímaritum um losun gróðurhúsalofttegunda við uppgröft á mýrarsvæðum.“ 

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúar Pírata bóka: 

    Stuttar fyrirspurnir kunna að vera á verksviði umhverfis- og skipulagssviðs en það er á ábyrgð ráðsmanna að afla sér þekkingar og kynna sér mál. Það er ekki í starfslýsingu starfsfólks að leita að vísindagreinum fyrir kjörna fulltrúa en eflaust væri hægt að leita til þess eftir leiðsögn án þess að þurfa að leggja formlega fram tillögu þess efnis í ráðinu. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gagnbóka: 

    Skriflegum fyrirspurnum ber að svara með skriflegu svari. Hér er verið að afgreiða mikilvæga lögbundna upplýsingaöflun kjörinna fulltrúa með bókun. Málið er viðkvæmt hjá meirihlutanum og því á að stinga málinu undir stól með þessum hætti.