Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 24

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 19. júní kl. 09:07, var haldinn 24. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstödd voru: Líf Magneudóttir, Þorkell Heiðarsson, Sabine Leskopf, Valgerður Árnadóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og fulltrúi frá Samtökum atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Guðmundur B. Friðriksson, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir. Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Mál heilbrigðisnefndar, Heilbrigðisnefnd         Mál nr. US190025

    I.    Lögð fram tillaga Samtaka atvinnulífsins dags. 19. mars 2019 varðandi birtingu niðurstaðna eftirlits á netinu. Jafnframt er lögð fram fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks dags. 13. febrúar 2019 vegna birtingar heilbrigðiseftirlitsins á niðurstöðum eftirlitsskýrslna. Lagt er fram bréf Samtaka atvinnulífsins til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis dags. 18. desember 2018, bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti dags. 12. febrúar 2019, bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis dags. 18. febrúar 2019. Einnig er lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til Umhverfisstofnunar dags. 5. febrúar 2019. 
    Frestað.

    II.    Lagt fram og kynnt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 29.maí 2019 vegna verkefnislýsingar skipulagsgerðar og umhverfismats Korpulínu. 
    Kynnt.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    III.    Lagt fram og kynnt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 8. maí 2019 vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 vegna iðnaðar á Esjumelum, AT5.
    Kynnt.

    Kristín Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri og Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    IV.    Lagt fram og kynnt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 30. apríl 2019 vegna frumvarps til laga, þingskjals 1217- 766. mál um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. 
    Kynnt.

    V.    Kynning á umgengismálum á Esjumelum vegna kvartana sem hafa borist Heilbrigðiseftirlitinu frá borgarbúum.
    Kynnt.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata í umhverfis- og heilbrigðisráði þakka fyrir greinargóða kynningu á umgengismálum á Esjumelum. Af því tilefni vilja fulltrúarnir koma því á framfæri við lóðarhafa að þeir virði lóðarmörk og gangi snyrtilega um umhverfi sitt. Þá er starfsfólki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þökkuð þessi vinna og hvött til áframhaldandi eftirlits á svæðinu og inngripa þegar þörf er á. 

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    VI.    Lögð eru fram bréf frá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 13. júní 2019 ásamt fylgigögnum þar sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur óskar eftir því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykki að númerslausir bílar/bílhræ að Háaleitisbraut 101 - 107 verði fjarlægðir og lóðin hreinsuð á kostnað eiganda. 
    Beiðni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur samþykkir að númerislausir bílhræ á lóðinni Háaleitisbraut 101-107, séu fjarlægðir á kostnað eiganda sem og hreinsun lóðar, sbr. ákvæði 16. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003.

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    VII.    Lagður fram listi dags. 19. júní 2019 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    VIII.    Lagður fram listi dags. 19. júní 2019 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    (E) Umhverfismál

  2. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar eru fram fundargerðir SORPU bs. nr. 407 dags. 29. apríl 2019 og 408 dags. 29. maí 2019 ásamt fylgiskjölum.

     (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  3. Umhverfis- og skipulagssvið, innkaupaskýrsla (USK2015020003)         Mál nr. US130045

    Lagt fram yfirlit yfir viðskipti umhverfis- og skipulagssviðs við innkaupadeild í apríl  2019.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athugasemd er gerð við kostnað á endurgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra, sérstaklega í ljósi þess hve viðhaldi skólabygginga hefur verið ábótavant með þeim afleiðingum að húsnæði er víða orðið heilsuspillandi og í sumum tilfellum þurft að loka því. Þetta er skírt dæmi um ranga forgangsröðun en í innkaupayfirliti kemur fram að kostnaðurinn við Óðinstorg sé tæpar 280 milljónir en viðhald skóla- og leikskólabyggingum sé aðeins rúmar 100 milljónir. 

  4. Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir innkaup         Mál nr. US130118

    Lagt fram yfirlit yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs á verkum yfir milljón í janúar til mars 2019.

  5. Umhverfis- og skipulagssvið, ferðakostnaður         Mál nr. US170113

    Lagt fram yfirlit yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið janúar til mars 2019.

  6. Umhverfis- og skipulagssvið, þriggja mánaða uppgjör         Mál nr. US190196

    Lagt fram þriggja mánaða uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs, janúar til mars 2019.

    (E) Umhverfismál

  7. Tillaga um sameiningu Sorpu bs. og Kölku sf., umsögn         Mál nr. US190197

    Lögð er fram og kynnt umsögn Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 21. maí 2019 um tillögu um sameiningu Sorpu bs. og Kölku sf.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata í umhverfis- og heilbrigðisráði þakka fjármálaskrifstofu Reykjavíkur fyrir vandaða og ítarlega umsögn um mögulega sameiningu Sorpu og Kölku. Áður hefur verið lögð fram umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs þar sem lögð er áhersla á að unnin sé skýr stefnumótun í úrgangsmálum með tilliti til áherslna á hringrásarhagkerfið sem felldar hafa verið inn í Evróputilskipun í úrgangsmálum og að ótímabært sé að stefna að sameiningu áður en slík stefnumótun liggur fyrir. Einnig er bent á að sú greining sem liggi fyrir skoði ekki að neinu leiti aðra valkosti og liggur því enginn samanburður til grundvallar. Umsögn fjármálaskrifstofu er nokkuð afdráttarlaus - ekki er mælt með að farið sé í þessa sameiningu. Það er mat skrifstofunnar að í henni felist engin fjárhagslegur ávinningur fyrir eigendur en töluverð aukning fjárhagslegra skuldbindinga. Auk þess vanti rýningu á öðrum valkostum og að vöntun sé á skýrari þarfagreiningu og heildarstefnumótun. Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar, stærsta eiganda Sorpu leggur áherslu á að málið fari í mun betri rýningu sem feli í sér valkostagreiningu og að gætt sé þess að unnið sé í takt við áherslur hringrásarhagkerfisins eins og þær eru innleiddar í Evróputilskipun í úrgangsmálum. Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur leggst gegn tillögum um sameiningu Sorpu og Kölku að svo stöddu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fjármálaskrifstofu faglega umsögn. Það er mat skrifstofunnar að í henni felist engin fjárhagslegur ávinningur fyrir eigendur en töluverð aukning fjárhagslegra skuldbindinga auk annarra áhættu. Af þeim sökum mælir fjármálaskrifstofan ekki með að verði farið í þessa sameiningu. Undir það taka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir að hvert sveitarfélag sé að fást við úrgangsmál í stað þess að vinna að vandamálinu á landsvísu og í einni heild. Í ljósi þess að hér er rætt um sameiningu Kölku sf. og Sorpu bs. er minnt á bókun Miðflokksins í Reykjanesbæ frá 5. febrúar s.l. sem hljóðar svo: „Bæjarfulltrúi Miðflokksins geldur varhug við því að Kalka eigi að taka við megninu af sorpi af höfuðborgarsvæðinu. Bæði er það mikið umhverfisálag fyrir Reykjanesbæ og ekki síður umferðarálag á Reykjanesbrautina. Á meðan ástandið á Reykjanesbrautinni er ekki betra en raun ber vitni er varhugavert að auka álagið á brautina enn frekar með sorpflutningum hingað suður eftir. Áður en lengra er haldið verða frekari upplýsingar að liggja fyrir s.s. þær hvort áætlað er að nýr brennsluofn eigi að vera staðsettur í Helguvík.“ Á fundi Umhverfis- og heilbrigðisráðs í dag fengu borgarfulltrúar kostnaðargreiningu á verkefninu sem sýnir blákalt að sameining Kölku og Sorpu gengur aldrei upp fjárhagslega séð vegna slæmrar stöðu Kölku. Það er löngu orðið tímabært að gera eigendum Kölku það ljóst að sameining við Sorpu er ekki á dagskrá Reykjavíkurborgar. 

    Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri og Ólöf Marín Úlfarsdóttir lögfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    (D) Ýmis mál

  8. Fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins, varðandi jafnréttisskimun á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun.
             Mál nr. US190159

    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins:

    1.  Hvenær var byrjað með jafnréttisskimun á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun hjá Reykjavíkurborg? 2.  Hvað eru mörg stöðugildi sem sjá um jafnréttisskimun hjá Reykjavíkurborg á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun? 3.  Hver metur hvaða verkefni fara í jafnréttisskimun eða fara öll verkefni í skimun? 4.  Er til skýrsla sem sýnir árangur verkefnisins, ef svarið er jákvætt þá er óskað eftir að hún verði send borgarfulltrúum?  5.  Hefur jafnréttisskimunin einhvern tímann leitt til þess að fjárhags- og starfsáætlun hafi verið breytt? 6.  Ef svarið er já - hvaða verkefni voru það og voru þau til hækkunar eða lækkunar á fjárheimildum?  7.  Hvað kostar verkefnið á ári? 8.  Hvað er áætlað að jafnréttisskimunin komi til með að kosta samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar 2020 - 2024 sundurliðað eftir árum? Vísað til umsagnar hjá fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar.

  9. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna plastmengunar í nærumhverfi borgarbúa         Mál nr. US190089

    Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að borgin fari í sérstakar aðgerðir til að ná til borgarbúa með hvatningu um að þeir sinni sínu nærumhverfi, þá sérstaklega með tilliti til plasts sem fýkur um borgina stundum í óheyrilegum mæli. Lagt er til að ákveðinn dag í hverjum mánuði, frá mars til október loka, verði íbúar Reykjavíkur hvattir til að fara um sitt nærumhverfi og tína plast og annað rusl sem óneitanlega safnast fyrir víða um borgina. Jafnframt þarf að kanna fleiri möguleika borgarbúa að koma uppsöfnuðu rusli sem auðveldast frá sér. Hugsanlega væri hægt að veita verðlaun í einhverjum flokkum. Vissulega taka margar "götur" sig saman og sinna t.d. vorhreinsun til mikillar fyrirmyndar. En það virðist ekki duga til.  Það er á ábyrgð allra borgarbúa að halda borginni sinni hreinni. Borgarmeirihlutinn getur haft ríkara frumkvæði en áður til að finna leiðir til að vekja borgarbúa enn frekar til meðvitundar um hreinsunarmál í borginni. Tillögu vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins greiða atkvæði gegn frávísun tillögunnar.

  10. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna garðaúrgangs í borginni         Mál nr. US190154

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins lögðu fram neðangreinda  tillögu hinn 8. maí sl. Tillögunni var frestað og hefur ekki enn verið tekin fyrir í ráðinu. Markmið tillögunnar er að auðvelda íbúum að koma frá sér garðaúrgangi sem gæti orðið hvati til að fólk haldi lóðum sínum snyrtilegum auk þess sem það er umhverfisvænna að söfnunarstaður sé í hverfunum fyrir garðaúrgang sem borgin hirðir og fargar í stað þess að hver og einn keyri langar leiðir með slíkan úrgang á Sorpu. Ítrekuð er ósk um að tillagan verði tekin fyrir sem fyrst. „Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins þar sem lagt er til að þjónusta borgarinnar með garðaúrgangs íbúa verði tekin til endurskoðunar í þá átt sem áður var og er í nágranasveitarfélögunum eins og til að mynda Garðabæ. Fyrirkomulagið yrði með þeim hætti, að auglýstar eru tilteknar dagsetningar eftir hverfum, þar sem íbúar geta komið garðaúrgangi fyrir t.d. við götur eða botnlanga og á þeim tímasetningum sér borgin til þess að hann sé sóttur og komið beint til förgunar hjá Sorpu.

    Einnig er lögð fram greinargerð.“
    Frestað.

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir