Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 23

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 12. júní, var haldinn 23. fundur Umhverfis- og heilbrigðisráð. Fundurinn var haldinn í Tjarnarsal, Ráðhúsi og hófst klukkan 14:46. Viðstödd voru . Fundarritari:

Þetta gerðist:

  1. Skipulags- og samgönguráð, fulltrúi Samfylkingarinnar
             Mál nr. US190158

    Lagt fram bréf forstætisnefndar dags. 4. júní 2019 þar sem tilkynnt er að Ragna Sigurðardóttir tekur sæti sem fulltrúi í skipulags- og samgönguráði í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur.
    Lagt fram.

  2. Umhverfis- og heilbrigðisráð, Fundarsköp         Mál nr. US190134

    Á sameiginlegum fundi skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs gera fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins athugasemd við fundarsköp og leggja fram eftirfarandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði lögðu fram tillögu um opinn fund í ráðinu hinn 8. maí s.l. og að honum yrði streymt almenningi til upplýsingar. Það var ánægjulegt að tekið var jákvætt í þá tillögu en að sama skapi vekur það furðu að ekkert samráð var við minnihlutann í ráðinu um fundinn, hvorki hvenær né hvar hann yrði haldinn eða um dagskrá fundarins. Þá var einnig tekin einhliða ákvörðun um að þetta yrði sameiginlegur fundur með skipulags- og samgönguráði en eins og tillagan kvað á um var um að ræða að umhverfis- og heilbrigðisráð héldi opinn fund um umhverfismál en ekki sameiginlegan fund með öðrum ráðum. Í ljósi þess að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald hefði verið rétt að minnihlutinn hefði fengið tækifæri til að koma málum á dagskrá fundarins. Mörg brýn umhverfismál er nauðsynlegt að ræða s.s. yfirvofandi umhverfisslys í Skerjafirði með fyrirhuguðum landfyllingum, friðun strandlengjunnar, vatnsbúskapinn í Vatnsmýri og friðlýsingu Elliðarárdalsins svo fátt eitt sé nefnt. Af þessum sökum ítreka borgarfulltrúarnir ósk sína um opinn fund í umhverfis- og heilbrigðisráði þar sem þau umhverfismál sem að ofan eru talin verða á dagskrá fundarins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í skipulags- og samgönguráði gerir einnig athugasemd við fundarsköp og leggur fram eftirfarandi bókun:

    Mörg umdeild og mikilvæg mál hefðu átt fullt erindi á þennan opna fund Skipulags og samgöngráðs og Umhverfis og heilbrigðisráðs. Má þar t.d. nefna: óleyfisframkvæmdir á Úlfarsfelli. Offramboð nýrra íbúða á miðborgarsvæði. Skortur á íbúðum í úthverfum. Lagning Sundabrautar. Mislæg gatnamót Reykjanesbr/Bústaðavegs. Mislæg gatnamót og aðrar lausnir við td. Sæbraut- Miklubraut - Kringlumýrarbraut. Vegagerðin hefur ítrekað mikilvægi téðra úrbóta margsinnis. Verkefni Umhv. og heilbrigðisráðs eru að sama skapi mörg og umdeild og má þar td. nefna endanlega afmörkun og friðun Elliðaársdals.
    Hér er nefnt lítið brot þeirra brýnu verkefna sem borgarbúar bíða eftir lausnum á. En hvaða mál urðu fyrir valinu á þessum opna fundi sem við sitjum nú og valin voru einhliða af meirihluta Vg-Sf-C-P? Allavega ekkert þeirra sem hér hafa verið nefnd. Undirrituðum, áheyrnafulltrúa Miðflokksins í Skipulags og samgönguráði var í upphafi fundar vísað úr sæti sínu. Það er óásættanlegt.. Áheyrnarfulltrúi hefur fullt málfrelsi, tillögurétt og öll réttindi önnur, utan atkvæðisrétt. Sem slíkur hefur undirritaður beitt sér frá upphafi í hinum ýmsu málum. Mælir undirritaður með aðkomu minnhluta við uppsetningu og gerð dagskrár næsta opna fundar ráðanna. Þannig má hið minnsta koma í veg fyrir að fulltrúum tiltekinna flokka sé vísað úr sæti við upphaf fundar.

    Fulltrúar Pírata fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það var fulltrúum meirihlutans í umhverfis- og heilbrigðisráði ljúft og skylt að samþykkja tillögu fulltrúa minnihlutans um að næsti fundur ráðsins yrði opinn enda er það í anda gagnsæis, opinnar og aðgengilegrar stjórnsýslu. Eins og fram kemur í fundargerð ráðsins frá 8. maí var umhverfis- og skipulagssviði falin nánari útfærsla fundarins. Samkvæmt fundadagatali umhverfis- og heilbrigðisráðs var næsti fundur eftir 8. maí sameiginlegur fundur með skipulags- og samgönguráði í dag, 12. júní. Það ánægjulegt að fundur dagsins sé opinn enda mörg áhugaverð mál á dagskrá. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs á skilið bestu þakkir fyrir þennan góða undirbúning.

    (E) Umhverfismál

  3. Ágengar plöntutegundir í borgarlandinu, kynning         Mál nr. US190191

    Kynning á kortlagningu og aðgerðum á ágengum plöntutegundum og árangri starfsins í fyrra og framhald þess í ár.

    Fulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði Leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins þakkar fyrir kynninguna sem var faglega flutt og afar áhugaverð. Einnig eru borgarstarfsmönnum þökkuð vel unnin störf í baráttunni við ágengar plöntutegundir í borgarlandinu. En þess ber að geta að nefndarmenn í umhverfis- og heilbrigðisráði hafa þegar fengið þessa kynningu. Það er merki um málefnaþurrð hjá meirihlutanum að þurfa að taka sömu málin fyrir á mörgum fundum í stað þess að ræða umhverfismál sem brenna á borgarbúum s.s. yfirvofandi umhverfisslys í Skerjafirði með fyrirhuguðum landfyllingum, friðun strandlengjunnar, vatnsbúskapinn í Vatnsmýri og friðlýsingu Elliðarárdalsins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og heilbrigðissviði leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði taka undir að útrýma þarf og halda í skefjum hættulegum plöntum í borgarlandinu. Mikilvægt er að leitað verði leiða til að upplýsa almenning betur um skaðsemi plantna á borð við Bjarnarkló, Húnakló og Tröllahvönn sem víða finnast á einkalóðum og telja að borgarbúar verði jafnframt hvattir til að eyða þeim úr görðum sínum. Upplýsingar þurfa að vera tiltækar og aðgengilegar á vef borgarinnar um hvar þessar plöntur eru í borgarlandinu og hvernig sé best staðið að eyðingu þeirra.

    Fulltrúar Pírata fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans í skipulags- og samgönguráði og umhverfis- og heilbrigðisráði taka undir þakkir fyrir erindið sem sannarlega var áhugavert og faglega flutt. Rétt er að halda til haga að árlega fær umhverfis- og heilbrigðisráð kynningu á ágengum plöntum í borgarlandinu, kortlagningu þeirra, aðgerðum og árangri. Kynningin sem hér var flutt er því uppfærð frá þeirri sem ráðið fékk á árinu 2018.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (F) Framkvæmdir

  4. Framkvæmdir við Hverfisgötu, kynning         Mál nr. US190192

    Kynning á stöðu framkvæmda við Hverfisgötu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði og umhverfis- og heilbrigðisráði leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að við hönnun og lagfærslu gatna sem hafa það sjónarmiði að hafa aðgengi fyrir alla sé haft öflugt samráð við hreyfihamlaða. Oft eru götur og bílastæði ætluð hreyfihömluðum ónothæf t.d. vegna halla og því er mikilvægt að hlusta á raddir þeirra þegar ráðist er í breytingar, sér í lagi þegar kostnaður við breytinguna er eins mikill og raun ber vitni.

    (E) Umhverfis- og samgöngumál

  5. Orkuskipti í samgöngum, kynning         Mál nr. US190193

    Kynning á orkuskiptum í samgöngum, styrkir til fjöleignahúsa.

    Fulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar öllum tillögum sem snúa að því að gera aðgengi fjölskyldubílsins betri að götum borgarinnar. Orkuskipti í samgöngum er nauðsynlegur þáttur framþróunar í samgöngum sem er framtíðin hér á landi. Hugmyndir um borgarlínu er fortíðarhugsun.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði og skipulags- og samgönguráði leggja fram svohljóðandi bókun:

    Jákvæð skref hafa verið tekin til að ýta undir orkuskipti. Ætla má við að orkuskiptin í samgöngum muni gerast hraðar en búist var við og því nauðsynlegt að innviðirnir verði til staðar til að gera borgarbúum kleift að eiga og reka rafbíl. Þegar innviðir eru til staðar auðveldar það borgarbúum að hlaða bíla sína og gæti það jafnframt orðið hvati fyrir borgarbúa til orkuskipta. Ljóst er að fara þarf í öflugra átak til að mæta hraðri þróun í orkuskiptum í samgöngum hverjar svo sem þær eru.

    Fulltrúar Pírata fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mat á losun gróðurhúsalofttegunda frá fólksbifreiðum á höfuðborgarsvæðinu sýnir svart á hvítu hversu nauðsynlegt það er að ráðast í metnaðarfullar aðgerðir til að til að ná markmiðum Reykjavíkurborgar og standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Ljóst er að rafbílavæðing og aukin sparneytni bifreiða er langt því frá nægjanleg. Það er því nauðsynlegt að auka nýtingu og afkastagetu almenningssamgangna og auka hlutfall gangandi og hjólandi og draga þannig úr akstri bifreiða. Það er framtíðin.

    (A) Skipulagsmál

  6. C-40 verðlaunatillaga, Kynning         Mál nr. US190190

    Kynntar verða vinningstillögur C-40 reits í Reykjavík ¿ grænar þróunarlóðir, leiðarljós að sjálfbærri og umhverfisvænni byggð. 

    -    Kl. 11:48 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundi.
    -    Kl. 11:48 tekur Baldur Borgþórsson sæti á fundinum.
    -    Kl. 12:00 víkur Daníel Örn Arnarsson af fundi.

    Fulltrúi Lifandi Landslags Halldór Eiríksson, fulltrúi Eflu Sigurður Loftur Thorlacius og Karl Þráinsson, fulltrúi Reginn hf. Bjarki Páll Eysteinsson, fulltrúi EFLA Þráinn Hauksson og fulltrúi Basalt og Fabric Hrólfur Karl Cela taka sæti á fundi undir þessum lið.

    -    Kl. 11:16 víkur Egill Þór Jónsson af fundi.
    -    Kl. 11:16 víkur Inga María Hlíðar Thorsteinson af fundi.

    (D) Ýmis mál

  7. Kynjaður fjárhags- og starfsáætlun, kynning         Mál nr. US190194

    Kynntar verða niðurstöður greiningar út frá aðferðafræði kynjaðrar fjárhags og starfsáætlunar, samgöngur og borgarhönnun.

    -    Kl. 12:21 víkur Katrín Atladóttir af fundi.
    -    Kl. 12:22 víkur Ásgerður Jóna Flosadóttir af fundi. 

    Steinunn Rögnvaldsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins, varðandi jafnréttisskimun á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun.
             Mál nr. US190159

    Á sameiginlegum fundi skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur ítrekar fulltrúi Miðflokksins eftirfarandi fyrirspurn sem lögð var fyrir þann 10. maí 2019:

    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvenær var byrjað með jafnréttisskimun á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun hjá Reykjavíkurborg? 2. Hvað eru mörg stöðugildi sem sjá um jafnréttisskimun hjá Reykjavíkurborg á tillögum út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun? 3. Hver metur hvaða verkefni fara í jafnréttisskimun eða fara öll verkefni í skimun? 4. Er til skýrsla sem sýnir árangur verkefnisins, ef svarið er jákvætt þá er óskað eftir að hún verði send borgarfulltrúum? 5. Hefur jafnréttisskimunin einhvern tímann leitt til þess að fjárhags- og starfsáætlun hafi verið breytt?6. Ef svarið er já - hvaða verkefni voru það og voru þau til hækkunar eða lækkunar á fjárheimildum? 7. Hvað kostar verkefnið á ári?8. Hvað er áætlað að jafnréttisskimunin komi til með að kosta samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar 2020 - 2024 sundurliðað eftir árum?