Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 20

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 8. maí kl. 09:07, mun umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur halda 20. fund sinn. Fundurinn verður haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssalur. Viðstödd voru: Líf Magneudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Sigurjóna Guðnadóttir og Marta Grettisdóttir. Starfsfólk skrifstofu umhverfisgæða hjá umhverfis- og skipulagssviði sitja fundinn undir liðum 2-6.
Fundarritari er Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Umhverfis- og heilbrigðisráð, Fundarsköp        Mál nr. US190134

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gera athugasemd við fundarsköp umhverfis- og heilbrigðisráðs. 

    (E) Umhverfismál

  2. SORPA bs., Fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lögð fram fundargerð SORPU bs. nr. 406 dags. 12. apríl 2019 ásamt fylgiskjölum.

    Fylgigögn

  3. Hönnunarviðmið um úrgangslausnir við íbúðarhúsnæði í Reykjavík, framlagning         Mál nr. US180413

    Lögð er fram skýrsla Umhverfis- og skipulagssviðs dags. í mars 2019, sem unnin var með ráðgjöfum verkfræðistofunnar Eflu, þar sem lögð eru til hönnunarviðmið um úrgangslausnir við íbúðarhúsnæði í Reykjavík.
    Hönnunarviðmið um úrgangslausnir við íbúðarhúsnæði í Reykjavík samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Griðasvæði fyrir seli, tillaga         Mál nr. US190034

    Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur leggur til að selir fái friðhelgi á strandsvæðum og við árósa í Reykjavík. Þar með vill ráðið að allri veiði á bæði land- og útsel verði hætt innan lögsögu borgarinnar. Þá hvetur ráðið aðila sem stunda netaveiði í Faxaflóa til að gera sitt besta til að koma í veg fyrir að selir lendi óvart í netum. 
    Enn fremur leggur umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur til að lagaumgjörð um seli verði endurskoðuð með það fyrir augum að tryggja vernd íslensku selastofnana til framtíðar. Við þá endurskoðun þarf að meta hvort málefni sela eigi ekki heima undir stjórn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eins og málefni villtra landspendýra.
    Einnig er lögð fram greinargerð.
    Samþykkt með með fimm atkvæðum fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Pírata og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Langt er síðan mannskepnan nam land á Íslandi en henni hafa alla tíð fylgt óafturkræf áhrif á vistkerfi landsins. Þau hafa meðal annars birst í breytingum á gróðri og ofveiði á dýrategundum, meðal annars rostungi og geirfugli. Það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að minnka fótspor okkar eftir fremsta megni þannig að uppbygging mannvirkja og framleiðsla matvæla eyði ekki búsvæðum annarra tegunda. En fótspor okkar er ekki bara efnislegt heldur líka tengt mengun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þannig er nauðsynlegt að við hugum að öllum þeim áhrifum sem mannleg hegðun hefur á vistkerfi landsins, bæði á landi og í sjó. Að friða sel við Íslandsstrendur er löngu tímabær aðgerð þar sem stofnar hans eru verulega hætt komnir og við getum gert betur en svo að leyfa enn einni tegundinni að deyja út við Íslandsstrendur. Meirihluti umhverfis- og heilbrigðisráðs, sem jafnframt er náttúruverndarnefnd Reykjavíkur skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, samþykkir því tillögu um friðhelgi á strandsvæðum og við árósa innan Reykjavíkur á sama tíma það hvetur til þess að lagaumgjörð um seli verði endurskoðuð með það fyrir augum að tryggja vernd íslensku selastofnana til framtíðar.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins hefur a.m.k í tvígang lagt fram bókun um náttúruríki Kollafjarðar og Faxaflóa hvað varðar veitingu leyfis til leitar og rannsóknar á möl og sandi. Tvískinnungurinn er algjör hjá meirihlutanum þegar kemur að umhverfis- og auðlindamálum. Engar tölur liggja fyrir hvað margir selir eru veiddir á strandsvæðum við árósa í Reykjavík, hvað þá innan lögsögu borgarinnar. Ekki var hægt að upplýsa um hversu mikil netaveiði væri í Faxaflóa en hún er hverfandi. Allt í kringum þessa tillögu er mikið sjónarspil og er í grunnin afskipti af stjórnsýslu ríkissins sem sveitarfélög hafa ekkert með að gera. Afskipti borgarinnar um það hvaða málaflokkar eru í hvaða ráðuneyti eru merki um málþurrð en hæg eru heimatökin því umhverfis- og auðlinda ráðherra situr í skjóli Vinstri grænna og ætti því að vera einfalt mál að færa málaflokkinn á milli ráðuneyta. Það er mikið áhyggjuefni að selir eru að komast í útrýmingarhættu en það verður ekki leyst með tillögu frá Umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkur, heldur verður það gert á vettvangi ríkissins. Fulltrúi Miðflokksins vill ganga lengra og friða með öllu Faxaflóann og þar með talið Kollafjörð og Hvalfjörð fyrir öllu áreiti á lífríkið þ.m.t. að banna ætti hvalveiðar á svæðinu.

    Fylgigögn

  5. Viðburðadagskrá Grasagarðsins, kynnt         Mál nr. US160145

    Kynnt viðburðadagskrá Grasagarðsins, afnot af garðinum, móttaka og fræðsla í garðinum 2019.
    Kynnt.

    -    Kl. 10.18 tekur Ólafur Kr. Guðmundsson sæti á fundinum. 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans í umhverfis- og heilbrigðisráði þakka góða kynningu á metnaðarfullu og fjölbreyttu viðburðadagatali garðsins fyrir komandi sumar. Jafnframt er þakkað fyrir það góða starf sem fer þar fram árið um kring.

    Fulltrúi Miðflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frábært starf á sér stað í Grasagarði Reykjavíkur. Er starfsmönnum hrósað fyrir frábæra frammistöðu, skipulag og viðburði.

    Björk Þorleifsdóttir sérfræðingur og Hjörtur Þorbjörnsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

     (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  6. Skerjafjörður, Úthlutunaráætlun í Skerjafirði         Mál nr. US190129

    Kynnt úthlutunaráætlun í Skerjafirði. 
    Kynnt. 

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum vandaða vinnu við undirbúning deiliskipulags fyrir nýtt uppbyggingarsvæði við Skerjafjörð. Hún er ítarleg og fagleg og byggir á grunni rannsókna sem gerir þetta að eitt mest rannsakaða uppbyggingarsvæði borgarinnar. Rammaskipulagið sem liggur að baki deiliskipulagsvinnunni fékk verðlaun skipulagsfræðingafélags Íslands í byrjun ársins. Þarna mun rísa vistvæn og aðlaðandi byggð sem snýr til suðurs við sjávarsíðuna. Skipulagið gerir ráð fyrir vönduðum blágrænu ofanvatnslausnum, stóru grænu svæði og náttúrulegri fjöru. Gert er ráð fyrir grunnskóla í hverfinu auk þjónustu og verslunar, sem styður við sjálfbærni hverfisins og breyttar ferðavenjur. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna vilja leggja áherslu á að allt kapp verður lagt á að lágmarka jarðvegsflutninga í tengslum við uppbyggingu frá svæðinu hvort tveggja með landmótun og því að meðhöndla mengaðan jarðveg á staðnum eins og kostur er.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Miðflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Minnt er á að fulltrúar minnihlutans óskuðu eftir því að sett yrði á dagskrá fyrirhuguð uppbygging í Skerjafirði á borgarráðsfundi 4. apríl sl. ekki var orðið við þeirri ósk að setja málið á dagskrá fyrr en á fundinum í dag. Það verður að teljast einkennilegt að ráðið hafi ekki fengið þessar fyrirætlanir fyrr til umfjöllunar á meðan öll önnur ráð hafa fengið það til kynningar því hér stefnir í eitt stærsta umhverfisslys í sögu borgarinnar. Fulltrúar minnihlutans telja ótímabært að taka afstöðu til fyrirliggjandi þróunarsvæðis enda liggur nýtt deiliskipulag ekki fyrir. Áður en lengra er haldið er rétt að fá niðurstöður úr umferðarlíkani, umhverfismati og flugöryggismati, svo fátt eitt sé nefnt. Það er ótímabært að veita vilyrði og vekja væntingar um lóðaúthlutun þegar fagleg vinna er svo skammt á veg komin. Langur skipulagsferill er framundan þar sem borgaryfirvöldum er skylt að efna til víðtæks samráðs um skipulagslýsingu, aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagsgerð auk umhverfismats. Áætlað er að fara í um 5 hektara landfyllingu í stað þess að fara í hverfisvernd líkt gert er austan og vestan umrædds svæðis. Ekkert liggur fyrir um uppgröft og förgun á menguðum jarðvegi sem vitað er um á svæðinu.

    Jón Kjartan Ágústsson verkefnastjóri, Björn Axelsson skipulagsfulltrúi, fulltrúi verkefnastofunnar Eflu Bergþóra Kristinsdóttir, fulltrúi verkefnastofunnar Eflu Ólafur Árnason, fulltrúi ASK arkitekta Páll Gunnlaugsson, fulltrúi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Óli Örn Eiríksson, Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri og Snorri Sigurðsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  7. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta, vegna flokkunar sorps         Mál nr. US190109

    Lögð fram tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 26. mars 2019 þar sem lagt er til að flokka sorp á öllum starfsstöðum Reykjavíkurborgar. 
    Vísað til umsagnar skrifstofu umhverfisgæða.

    Fylgigögn

  8. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarnes, aukin athygli og sorphirða á grenndarstöðvum         Mál nr. US190111

    Lögð fram tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann frá 26. mars 2019 um aukna athygli og sorphirðu á grenndarstöðvum. 
    Vísað til umsagnar skrifstofu umhverfisgæða.

    Fylgigögn

  9. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar, og Hlíða, flokkunartunnur á almenningssvæðum í Reykjavík         Mál nr. US190110

    Lögð fram tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann frá 26. mars 2019 varðandi flokkunartunnur á almenningssvæðum í Reykjavík. 
    Vísað til umsagnar skrifstofu umhverfisgæða.

    Fylgigögn

  10. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks, umhverfisráð verði sameinað skipulags- og samgönguráði         Mál nr. US190104

    Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 27. mars 2019.

    Lagt er til að umhverfisráð verði sameinað að nýju skipulags- og samgönguráði enda er ætlunin að fækka fundum umhverfisráðs niður í einn fund á mánuði og á sama tíma verður fundum skipulags- og samgönguráðs fækkað úr fjórum fundum í þrjá á mánuði. Sömu mál eru ennfremur oft lögð fyrir bæði ráðin og því um tvíverknað að ræða. Með hliðsjón af þessum staðreyndum er ljóst að ekki var þörf á að stofna nýtt umhverfisráð með miklum tilkostnaði í upphafi kjörtímabilsins. Umhverfismálin koma mikið inn á skipulagsmálin og því eðlilegt og faglegra að þau mál séu unnin samhliða undir sama ráði.

    Tillagan felld með fjórum atkvæðum Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa Miðflokksins.

    Fulltrúi Miðflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga um að umhverfisráð yrði sameinað að nýju skipulags- og samgönguráði var felld á fundi ráðsins. Sú staðreynd að fækka fundum umhverfisráðs í þá veru að halda einungis einn fund á mánuði í stað tveggja sýnir áhugaleysi meirihlutans í málaflokknum. Nú stendur ráðið frammi fyrir því að ekki verði fundað í rúma 70 daga í sumar. Með hliðsjón af þessum staðreyndum er ljóst að ekki var þörf á að stofna nýtt umhverfisráð með miklum tilkostnaði í upphafi kjörtímabilsins. Það er augljóst að pólitískar tilfærslur réðu för en ekki hagsmunir borgarbúa.

  11. Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks, opin fundur og streymt almenningi         Mál nr. US190136

    Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks að næsti fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs verði opin og honum streymt almenningi til upplýsingar.
    Samþykkt.
    Skrifstofustjóra á skrifstofu sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs er falið að undirbúa og kanna möguleika þess að hafa næsta fund umhverfis- og heilbrigðisráðs opinn, finna hagkvæmustu leiðir til að gera það og koma því til framkvæmda sé það viðráðanlegt innan þessa tíma.

    Fulltrúi Miðflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar minnihlutans fagna því að tekið sé jákvætt í tillöguna og hún samþykkt. Þetta er í anda opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu.

  12. Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks, fækkun funda án samráðs.         Mál nr. US190137

    Lögð fram tillaga fulltrúa Miðflokks og fulltrúar Sjálfstæðisflokks

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins gera athugasemd við það að fundum umhverfis- og heilbrigðisráðs hefur verið fækkað án samráðs við ráðsmenn og án atkvæðagreiðslu í ráðinu. Óskað er eftir áliti borgarlögmanns á því hvort meirihlutanum í umhverfis- og heilbrigðisráði sé heimilt að taka einhliða ákvörðun um þetta mál?

    Tillögunni vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa Miðflokksins.

    Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Allir kjörnir fulltrúar hafa sama jafna aðganginn að embættismönnum borgarinnar. Ef ráðsmenn vilja leita álits borgarlögmanns þá gera þeir það bara. Þeir þurfa ekki samþykki fagráðs til þess. Tillögunni er því vísað frá.

  13. Fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks, Vatnsmýrin        Mál nr. US190153

    Mikil uppgröftur og röskun á sér stað á Vatnsmýrarsvæðinu öllu vega uppbyggingar þar. Óskað er eftir upplýsingum og greinarskrifum úr viðurkenndum vísindatímaritum um losun gróðurhúsalofttegunda við uppgröft á mýrarsvæðum. 
    Frestað.

  14. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna garðúrgangs í borginni        Mál nr. US190154

    Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins þar sem lagt er til að þjónusta borgarinnar með garðaúrgangs íbúa verði tekin til endurskoðunar í þá átt sem áður var og er í nágranasveitarfélögunum eins og til að mynda Garðabæ.
    Fyrirkomulagið yrði með þeim hætti, að auglýstar eru tilteknar dagsetningar eftir hverfum, þar sem íbúar geta komið garðaúrgangi fyrir t.d. við götur eða botnlanga og á þeim tímasetningum sér borgin til þess að hann sé sóttur og komið beint til förgunar hjá Sorpu.
    Einnig er lögð fram greinargerð. 
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:41

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir