Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 19

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, miðvikudaginn 24. apríl kl. 9:06, var haldinn 19. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Viðstödd voru: Líf Magneudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og fulltrúi atvinnulífsins Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Árný Sigurðardóttir, Rósa Magnúsdóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, og Marta Grettisdóttir. Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir

Þetta gerðist:

  1. Umhverfis- og heilbrigðisráð, Fundarsköp         Mál nr. US190134
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins gera athugasemd við fundarsköp umhverfis- og heilbrigðisráðs 

    Fulltrúar Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að sett yrði á dagskrá fundarins umræða um fyrirhugaða uppbyggingu í Skerjafirði í ljósi þeirra umhverfisáhrifa sem slík uppbygging mun hafa. Þrátt fyrir þessa ósk hefur formaður ráðsins ekki séð ástæðu til að setja málið á dagskrá og gerðar eru alvarlegar athugsamdir við að sú ósk sé hundsuð. Þá verður að teljast undarlegt að formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs sá ekki ástæðu til að fagráðið fengi tillögur að úthlutunaráætlun lóða í Skerjafirði til umfjöllunar áður en málið var afgreitt úr borgarráði. Vel að merkja stýrði Líf Magneudóttir formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs umræddum fundi borgarráðs þegar ákvörðunin var tekin og var bent á þá staðreynd að umhverfis- og heilbrigðiráð hefði ekki fjallað um málið. Um er að ræða gríðarlega stórt umhverfismál sem varðar strandlengjuna í Skerjafirði þar sem fyrirhuguð er mikil landfylling og þau áhrif sem uppbygging á þessu svæði mun hafa á vatnsbúskapinn í Vatnsmýri. Þessi framganga sýnir svo ekki verður um villst metnaðar- og áhugaleysi meirihlutans í umhverfismálum

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Formaður ákveður dagskrá fundar í samvinnu við sviðsstjóra og starfsfólk sviðsins. Ákveðið var að hafa kynningu á uppbyggingu í Skerjafirði á fundi í maí.  Því verður orðið við bón Mörtu Guðjónsdóttur og Vigdísar Hauksdóttur, fulltrúa í umhverfis- og heilbrigðisráði.

  2. Umhverfis- og heilbrigðisráð 2018 - 2022, fundadagatal 2019         Mál nr. US190017
    Lagt fram fundadagatal umhverfis- og heilbrigðisráðs fyrir árið 2019, dags. 20. mars 2019.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Til stendur að fækka fundum í umhverfis- og heilbrigðisráði, úr tveimur í mánuði í einn sem vekur furðu þar sem ekkert samráð hefur verið haft við minnihluta flokkana um þá ákvörðun. Í ljósi þess að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald verður þessi einhliða ákvörðun að teljast afar óásættanleg. Þá sýnir þessi fækkun funda að áherslur meirihlutans á umhverfis- og heilbrigðismál eru litlar sem engar og opinberar með öllu og að ekki var þörf á að setja á laggirnar heilt nýtt ráð með ærnum tilkostnaði undir málaflokkinn. Hrossakaup er það fyrsta sem kemur upp í hugann og alveg í takti við það sem gerðist eftir borgarstjórnarkosningarnar 2014 þegar búið var til nýtt ráð til að halda meirihlutanum í borginni. Umhverfismálin eiga að vera áfram undir skipulags- og samgönguráði því nú hefur komið í ljós að einnig er verið að fækka fundum í skipulagsráði úr fjórum fundum á mánuði í þrjá. Málaflokkarnir eru enda svo skyldir að boðað er að ráðin haldi nokkra fundi sameiginlega. Bent er á að ekki verður fundur í umhverfis- og heilbrigðisráði í 70 daga í sumar, það eitt sýnir tilgangsleysi ráðsins.

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti umhverfis- og heilbrigðisráð leggur áherslu á skilvirka og öfluga stjórnsýslu. Hún fæst meðal annars fram með skipulögðum fundarhöldum. Fundir systurráðanna tveggja (UH-ráð og SS-ráð) fyrir allt árið 2019 eru hér með lagðir fram. Fundum UH-ráðs er fækkað og þeir lengdir. Fundir ráðanna eru samræmdir þannig að UH-ráð fundar eina viku og SS-ráð næstu þrjár. Þannig verður allur undirbúningur fyrir ráðsfundina skilvirkari og betri, bæði fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa. Þessar breytingar munu nýtast öllum málaflokkum sem falla undir bæði ráðin. Áréttað skal að ráðum í stjórnsýslu borgarinnar var ekki fjölgað síðastliðið vor heldur heyra umhverfismálin nú til sama ráðs og heilbrigðisnefnd.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það getur ekki talist skilvirk og öflug stjórnsýsla að takmarka lýðræðislega aðkomu kjörinna fulltrúa með einhliða ákvörðun meirihlutans í ráðinu að fækka fundum. Það skal áréttað að með stofnun nýs umhverfis- og heilbrigðisráðs var ráðum í 1. flokki fjölgað þar sem heilbrigðisnefnd var í 3. flokki áður.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. apríl 2019, varðandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi Héðinsreitar við Ánanaust.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnisstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagður fram tölvupóstur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 3. apríl 2019, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á efnalögum (breytt hugtakanotkun, einföldun á framkvæmd, EES-reglur um kvikasilfur), 759. mál. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. apríl 2019.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnisstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lagður fram tölvupóstur Saga Film dags. 4. apríl 2019, um undanþáguheimild heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar sbr. ákvæði 17. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012, vegna tímabundinnar heimildar til lausagöngu hunds á vissum svæðum í Reykjavík.
    Samþykkt. 

    Umhverfis- og heilbrigðisráð leggjur fram svohljóðandi bókun: 

    Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur veitir undanþágu vegna beiðni um lausagöngu hunds á tímabilinu 24. apríl 2019 til 25. júlí 2019 að því gefnu að lóðarhafar hafi heimilað umferð hundsins á viðkomandi svæðum, hann sé alltaf undir eftirliti ábyrgs aðila og umgengnisreglur virtar að öðru leyti. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er falið eftirlit og að grípa til viðeigandi aðgerða gerist þess þörf skv. ákvæðum samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram erindi Samtaka atvinnulífsins um birtingu niðurstaðna eftirlits á netinu, til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 18. desember 2018, bréf Umhverfistofnunar dags. 21. janúar 2019, bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags 12. febrúar 2019 og svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til Umhverfisstofnunar dags. 5. febrúar 2019 og 19. febrúar 2019 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  Lagður fram tölvupóstur fulltrúa Samtaka atvinnulífsins dags. 5. mars 2019 og svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 6. mars 2019.  

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að fá öll þau gögn sem snúa að málinu í dagskrárlið IV. Vísað er til lögfræðiálits sem nefndarmenn hafa ekki enn séð. Það er óásættanlegt fyrir nefndarstarfið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði þann 13. febrúar 2019 um opinbera birtingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á niðurstöðum eftirlitsskýrslna og svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði þann 15. mars 2019, vegna rakaskemmda í skólum Reykjavíkur og svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði þann 27. mars 2019, þar sem óskað er eftir stöðuskýrslu um ástand í leik- og grunnskóla og frístundaheimilum varðandi leka og raka.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að á undanförnum árum hafa komið upp allt of mörg dæmi um rakaskemmdir og hugsanlega myglu í leikskóla- og skólahúsnæði borgarinnar. Fara þarf í allsherjarúttekt á skólahúsnæði í borginni í ljósi þeirra tilvika sem komin eru upp. Að undanförnu hefur þessum tilfellum því miður farið fjölgandi. Ljóst er að endurskoða þarf alla verklagsþætti og verkferla er varða úttektir og ábendingar og kvartanir vegna skólahúsnæðis. Þá er brýnt að sett sé fram raunhæf áætlun um endurbætur og viðhald. Mikilvægt er að brugðist sé strax við þeim ábendingum sem berast um raka og mygluskemmdir til að tryggja að nemendum og starfsfólki sé ekki boðið upp á heilsuspillandi húsnæði sem getur valdið heilsutjóni.

    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsfólki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þakkað fyrir skilmerkilega og góða yfirferð við fyrirspurn um rakaskemmdir og loftgæði í leik- og grunnskólum og á samanburði milli ára. Það er mikilvægt að starfsfólk á hverjum stað sé meðvitað um þá eftirlitsþætti sem þurfa að vera í lagi í umhverfi barna og að það sé í virku samtali við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telji það að eitthvað þarfnist aðhlynningar eða viðhalds. Það þurfa allir að vera samtaka og viðbragðsgóðir í að gera úrbætur þegar eitthvað aflaga fer og því er góð upplýsingamiðlun og samtal milli stjórnenda, starfsfólks, Heilbrigðiseftirlitsins og sviða borgarinnar afar mikilvægt.

  10. Lagt fram svar við fyrirspurnir fulltrúa Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði með tölvupósti dags 1. apríl 2019 vegna framkvæmda við Landspítala Hringbraut og svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. 

    -    Kl. 11:21 víkur Ólafur Jónsson af fundi. 

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hlutverk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) er að fara með hollustuhátta-, matvæla- og mengunarvarnareftirlit í borginni, stuðla að öflugri umhverfisvöktun og fræðslu til almennings í Reykjavík. HER vísar ábyrgð eftirlits með byggingareit Landsspítalans til byggingafulltrúa Reykjavíkur. Loftgæðamælingar hafa farið fram og einungis er mælt CO2, hiti og raki. Það er forkastanlegt að ekki hafi verið mælt svifryk, brennisteinsdíoxíð, brennisteinsteinsvetni, koldíoxíð, kolmónoxíð og köfnunarefnisoxíð eins og alltaf er gert í loftgæðamælingum borgarinnar. Það er með ólíkindum að HER skuli vísa á stjórn Landsspítalans og/eða Landlækni varðandi mengun úr jarðvegi sbr. spurningu 6. Svalir og gluggar hafa verið festir aftur vegna „teórískar hættu“ á því að jarðvegsbakteríur og myglusveppir smiti spítalann. Hinn 26. febrúar s.l. barst svar frá umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnar Árnadóttur um sama efni. Í svarinu kemur fram að síðustu formlegu samskipti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna Landspítalans komi fram í umsögnum HER frá árunum 2011 og 2012. Segir jafnframt í svarinu að eftirlitið sé ekki hjá ráðuneytinu heldur er eftirlitið með framkvæmdinni á vegum Reykjavíkurborgar. Hér bendir hver á annan en ábyrgðin er skýr – ábyrgðin er hjá Reykjavíkurborg og formanni heilbrigðisnefndar að eftirliti hefur ekki  verið nægjanlega sinnt. Er það grafalvarlegt mál og óskiljanlegt að okkar veikasta fólk er látið gjalda fyrir. Starfsfólk Landsspítalans yfirgefur svæðið í vaktarlok en það gera sjúklingarnir ekki.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram listi dags. 24. apríl 2019 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

  12. Lagður fram listi dags. 24. apríl 2019 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

  13. Tillaga fulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks. 
    Erindi á næsta fund.         Mál nr. US190135

    Lögð fram tillaga fulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks. 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins og fulltrúa Sjálfstæðisflokks óska eftir sérstökum dagskrárlið á næsta fundi um stöðu vegna framkvæmda Landsspítala við Hringbraut og svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. 
    Óskað er eftir gestum frá HER, fulltrúa skipulags- og samgönguráðs sem er tengiliður vegna framkvæmdanna við Hringbraut auk fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem hefur með þessi mál að gera. 
    Einnig er óskað eftir fulltrúa frá Landslæknisembættinu og fulltrúa frá stjórn Spítalans okkar.

  14. Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks, opinn fundur og streymt almenningi         Mál nr. US190136
    Lögð fram tillaga fulltrúa Miðflokks og fulltrúa Sjálfstæðisflokks  að næsti fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs verði opinn og honum streymt almenningi til upplýsingar.
    Frestað

  15. Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks
    fækkun funda án samráðs. 
    Lögð fram tillaga fulltrúa Miðflokks og fulltrúar Sjálfstæðisflokks  
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins gera athugasemd við það að fundum umhverfis- og heilbrigðisráðs hefur verið fækkað án samráðs við ráðsmenn og án atkvæðagreiðslu i ráðinu.
    Óskað er eftir áliti borgarlögmanns á því hvort meirihlutanum í umhverfis- og heilbrigðisráði sé heimilt að taka einhliða ákvörðun um þetta mál?
    Frestað