Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 17

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2019, föstudaginn 15. mars, var haldinn 17. fundur Umhverfis- og heilbrigðisráð. Fundurinn var haldinn í Kerhólum og hófst klukkan 12:33. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Rannveig Ernudóttir, Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Rósa Magnúsdóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Örn Sigurðsson sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Grunnskólar Reykjavíkur, Rakaskemmdir í húsnæði grunnskóla Reykjavíkur og aðkoma heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að úttektum á skólahúsnæði. 

     

             Mál nr. US190092

    Rakaskemmdir í húsnæði grunnskóla Reykjavíkur og aðkoma heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að úttektum á skólahúsnæði. 

     

    Helgi Guðjónsson og Berglind Ósk Þ. Þórólfsdóttir heilbrigðisfulltrúar, Ámundi V. Brynjólfsson skrifstofustjóri og Agnar Guðlaugsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, fulltrúar Samfylkingar, Kristín Soffía Jónsdóttir og Sabine Leskopf, fulltrúi Pírata, Rannveig Ernudóttir, og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, Ólafur Jónsson, leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Samtaka atvinnulífsins í umhverfis- og heilbrigðisráði þakka fyrir kynningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á eftirliti með skólahúsnæði er varðar hollustuhætti þ.á m. raka og leka. Heilbrigðiseftirlitið gerir kröfur um úrbætur þar sem þess er þörf og fylgir leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og samræmdum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar þegar kemur að eftirliti skólahúsnæðis. Það er mikilvægt að skólahúsnæði uppfylli ítrustu kröfur sem heilnæmt umhverfi og er Heilbrigðiseftirlitinu falið að yfirfara sína verkferla og leggja til úrbætur á verkferlum varðandi skoðun og upplýsingaflæði til að tryggja að Heilbrigðiseftirlitið sé sannarlega upplýst um mögulega galla á húsnæðinu. Vert er benda á að tveimur milljörðum er varið í viðhald fasteigna leik- og grunnskóla á hverju ári og hefur þessi upphæð rúmlega þrefaldast á seinustu sex árum. Varðandi mál Fossvogsskóla er óskað eftir því að samráð verði haft við Heilbrigðiseftirlitið sem snúa að heilnæmi húsnæðisins og notkun á meðan viðgerðir fara fram.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason og fulltrúi Miðflokksins Vigdís Hauksdóttir leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru grafalvarleg tíðindi sem hafa borist í gegnum fréttir af heilsuspillandi rakaskemmdum í húsnæði sem heyrir undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkur. Það vekur einnig óhug að slíkum tilfellum hefur fjölgað nokkuð að undanförnu – rétt eins og einhvers konar myglufaraldur sé í uppsiglingu á þeim stöðum sem mygla ætti einna síst að fá að grassera. Enda er um að ræða a.m.k. fjóra grunnskóla, sem vitað er um og þrár til fjórar frístundamiðstöðvar. Því má segja að þetta ástand snerti á annað þúsund börn, fjölskyldur þeirra og alls þess starfsfólks sem vinnur á þessum starfsstöðvum. Langvarandi fjársvelti meirihlutans í Reykjavík hvað snýr að viðhaldi á húseignum borgarinnar er nú að birtast í þeirri myrku mynd sem nú blasir við. Þetta ástand er afleiðing af uppsöfnuðum viðhaldsskorti og rangri forgangsröðun í stjórn borgarinnar. Ljóst er að endurskoða þarf alla verklagsþætti og verkferla er varða úttektir á skólahúsnæði og setja fram raunhæfa áætlun um endurbætur og viðhald. Ljóst er að fara þarf í allsherjarúttekt á skólahúsnæði í borginni í ljósi þeirra tilvika sem komin eru upp. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú þegar lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði.

    Fylgigögn

  2. Fyrirspurnir frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, Vegna rakaskemmda í skólum Reykjavíkur         Mál nr. US190095

    Hvaða húsnæði sem heyrir undir skóla- og frístundasvið hefur verið skoðað með tilliti til rakaskemmda og myglu? a. Hversu oft er farið á ári í reglubundið eftirlit af heilbrigðiseftirlitinu? b. Hvað er nákvæmlega tekið út, þ.e. er t.d. skoðað hvort mygla sé í húsnæðinu? c. Hver eru viðbrögðin og eftirfylgni við athugasemdum og tillögum til úrbóta?

    Hefur Heilbrigðiseftirlitinu verið gert viðvart um hvort börn eða starfsmenn hafi borið heilsutjón vegna rakaskemmda og myglu? a. Ef svo er hvenær bárust þær athugasemdir og hver voru viðbrögðin við þeim? b. Hefur starfsmönnum einhverra starfstöðva SFS verið gert að gangast undir heilsufarsskoðun vegna myglu? c. Er haldin skráning yfir börn eða starfsfólk sem hefur veikst?

    Hafa ábendingar borist heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur varðandi stafsstaði SFS um rakaskemmdir og myglu? a. Ef svo er hvenær og hvar, þ.e. í hvaða húsnæði?

    Nú liggur fyrir að búið er að loka hluta Breiðholtskóla; hafa einhverjir nemendur eða starfsmenn orðið fyrir heilsutjóni þar vegna ástandsins?

    Hvenær var skóla- og frístundasvið upplýst um ástandið í Breiðholtsskóla? a.Er búið að yfirfara þann hluta húsnæðis Breiðholtsskóla sem enn er kennt í og er búið að ganga úr skugga um að þar fyrirfinnist ekki mygla? b.Hafa komið einhverjar ábendingar frá foreldrum og/eða starfsmönnum um grun um raka- og myglusvepp í Breiðholtsskóla? c. Hafa þessir aðilar tilkynnt um óeðlileg veikindi?

    Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið klukkan 14:05

Líf Magneudóttir Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir