Stjórnkerfis- og lýðræðisráð - Fundur nr. 22

Stjórnkerfis- og lýðræðisráð

Ár 2015, 7. september, var haldinn 22. fundur stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi og hófst kl. 13.35. Fundinn sátu Halldór Auðar Svansson, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Stefán Þór Björnsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Óskar J. Sandholt.

Þetta gerðist:

  1. Kynnt er skýrsla starfshóps um gæðakerfi og rekstrarhandbók Reykjavíkur.
    Anna Rósa Böðvarsdóttir og Svavar Jósefsson taka sæti undir þessum lið. (R14020208)

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um drög að reglum um framkvæmd íbúakosninga sem forsætisnefnd sendi stjórnkerfis- og lýðræðisráði til umsagnar með bréfi dags. 19. júní 2015. (R14090207)

    Samþykkt að veita svohljóðandi umsögn:

    Stjórnkerfis- og lýðræðisráð fagnar því að forsætisnefnd sé að vinna að reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd íbúakosninga. Skýrar leikreglur tryggja að framkvæmd íbúakosninga sé gagnsæ, traust og samræmd. Slíkt verður að teljast vænlegt til þess að auka notkun á samráðsverkfæri á borð við íbúakosningar við ákvarðanatöku sveitarfélags. Núverandi drög gera ráð fyrir að reglurnar gildi bæði um íbúakosningar skv. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og aðrar íbúakosningar sem fram fara í Reykjavík. Skýra mætti gildissvið reglnanna betur með því að skilgreina hvað átt sé við með íbúakosningum, m.a. til að taka af vafa um hvort verkefni á borð við Betri hverfi falli undir þá skilgreiningu. Mögulega þyrfti að skilgreina hugtakið íbúakannanir til að hægt sé að greina á milli íbúakosninga og íbúakannana. Gerð er athugasemd við að reglurnar fjalli ekki um möguleikann á rafrænni kosningu en eingöngu er kveðið á um möguleikann á rafrænni talningu. Telja verður æskilegt að tengja reglurnar betur við reglugerð um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár nr. 467/2013. Fjalla mætti ítarlegar um hvernig ákvörðun um kosningu er tekin í borgarstjórn og aðdraganda hennar. Þannig mætti tengja reglurnar betur við reglugerð um undirskriftarsafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 155/2013. Þar er m.a. fjallað um mat á takmörkunum á því hvað bera megi upp í íbúakosningum og leiðbeiningarskyldu sveitarfélaga á fyrri stigum máls. Í drögunum er kveðið er á um „samþykkt borgarstjórnar“ sem mögulega gæti valdið þeim misskilningi að ákvæðið setji þær skyldur á borgarstjórn að hún setji sérstaka samþykkt um einstakar íbúakosningar. Ef það er ætlunin mætti kveða fastar að orði. Að auki er athygli vakin á því að ákvæði um tímafresti eru bæði í 1. og 4. grein reglnanna. Mögulega færi betur á því að hafa tímamörk aðeins í 4. grein meðan 1. grein fjalli um gildissvið reglnanna.

    Fylgigögn

  3. Lagt er fram til kynningar erindisbréf borgarritara um starfshóp um gerð verklagsreglna um meðferð persónuupplýsinga og trúnaðargagna. (R15090033)

    Fylgigögn

  4. Fulltrúar Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu dags. 2. september 2015:

    Lagt er til að í stað þess að næsta hugmyndasöfnun fyrir Betri hverfi fari fram að hausti 2015 verði miðað við að hún fari fram snemma árs 2016. Kosningar í Betri hverfum verði þá með haustinu 2016. Tíminn fram að því að hugmyndasöfnun fer af stað verði nýttur til að fara yfir niðurstöður úttektar Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála á Betri Reykjavík og Betri hverfum og tillögur að breyttu fyrirkomulagi á Betri hverfum mótaðar út frá henni.

    Greinargerð fylgir tillögunni. (R15090038):
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um drög að starfsáætlun í stjórnkerfis-, samráðs- og gagnsæismálum fyrir árið 2016. (R15090040)

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:10

Heiða Björg Hilmisdóttir