Stjórnkerfis- og lýðræðisráð - Fundur nr. 17

Stjórnkerfis- og lýðræðisráð

Ár 2015, 4. maí, var haldinn 17. fundur stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi og hófst kl. 13.30. Fundinn sátu Halldór Auðar Svansson, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Björn Gíslason, Hildur Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúinn Eyrún Eyþórsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Óskar J. Sandholt, Sonja Wiium og Hreinn Hreinsson. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á áfangaskýrslu starfshóps um nýju Reykjavíkurhúsin.

    Auðun Freyr Ingvarsson, Ebba Schram, Ásgeir Westergren, Ellý Alda Þorsteinsdóttir og Eyþóra Kristín Geirsdóttir taka sæti undir þessum lið.

    - Kl. 13:40 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.
    Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi tillögu:

    Stjórnkerfis og lýðræðisráð beinir því til borgarráðs að leggja fyrir ráðið lögfræðilega álitsgerð um lagalega stöðu þeirra tveggja leiða, einkablands og blokkarblands, með sérstakri áherslu á samkeppnissjónarmið, jafnréttissjónarmið, skaðabótaáhættu og skyldu sveitarfélags skv. 12. Kafla laga um félagsþjónustu sveitafélaga nr. 40/1991.

    Frestað.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynningin: „Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2014: Innsýn í reynslu fólks af erlendum uppruna af þeim“. Guðrún Magnúsdóttir kynnir mastersverkefni sitt.

    Stjórnkerfis- og lýðræðisráð þakkar Guðrúnu Magnúsdóttur fyrir kynningu á meistaraverkefni sínu um innsýn fólks af erlendum uppruna í borgarstjórnarkosningarnar 2014. Mikilvægt er að huga að reynsluheimi þessa hóps og hvaða leiðir standa til boða til að hvetja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Upplýsingagjöf um réttindi og stjórnmál almennt sem fólk skilur er mikilvæg í þessu samhengi sem og efling íslenskukunnáttu. Sterkt félagslegt net og menntun styðja einnig við að fólk taki þátt í samfélaginu. Einnig er þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði til að fá skýrari mynd af því.

  3. Fram fer umræða um drög að skjalastefnu Reykjavíkurborgar. Drögin eru til umsagnar hjá ráðinu skv. tölvubréfi frá skrifstofu þjónustu og reksturs dags. 16. mars 2015.
    Samþykkt að veita svohljóðandi umsögn:

    Stjórnkerfis- og lýðræðisráð fagnar því að fyrir liggi drög að skjalastefnu Reykjavíkurborgar. Markviss meðferð skjala er grunnforsenda þess að hægt sé að opna á stjórnkerfi borgarinnar og tryggja gagnsæi í stjórnsýslu hennar. Aðgengi bæði borgarstarfsmanna og almennings stendur og fellur með stefnu borgarinnar í skjalamálum og því að eftir henni sé farið. Upplýsingastefna Reykjavíkurborgar, sem stjórnkerfis- og lýðræðisráð hefur nú til meðferðar, tengist og byggist að miklu leyti á markvissri meðferð skjala og því er mikilvægt að til sé skýr skjalastefna og eftir henni sé farið. Stjórnkerfis- og lýðræðisráð saknar þess þó að sjá ekki meira minnst á aðgengi almennings í t.d. 4. tölulið kaflans um markmið. Auk þess mætti benda á að samræmd skráning, varðveisla og meðferð skjala sbr. 3. tölulið sama kafla bætir aðgengi að upplýsingum auk þeirra atriða sem þar koma fram.

    Fylgigögn

  4. Lögð eru fram til kynningar drög að nýrri upplýsingastefnu. Drögin eru afrakstur vinnu stýrihóps um gerð upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar. Drögunum er vísað til umræðu í borgarstjórn. Að því loknu mun stjórnkerfis- og lýðræðisráð skila lokadrögum til borgarráðs.

    Fylgigögn

  5. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi tillögu:

    Framsókn og flugvallarvinir setja fram þá tillögu að stjórnkerfis- og lýðræðisráð óski eftir skriflegum svörum frá öllum fagráðum borgarinnar um hversu langur tími líður frá því að a)tillaga er sett fram í fagráði og þar til hún er afgreidd, b) fyrirspurn er sett fram í fagráði og þar til að svar liggur fyrir. Ásamt því að fá sundurliðun á hverri og einni fyrirspurn og tillögu þá er óskað eftir upplýsingum um skemmsta tíma, lengsta tíma, meðaltíma á hverju sviði fyrir sig. Tímabilið sem óskað er upplýsinga um er annarsvegar frá 16.06.2014 til dagsins í dag og hins vegar 16.06.2013-15.06.2014.

    Frestað.

  6. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:

    MMR kannaði hug Íslendinga til þess að loka flugbraut 06/24 (oft nefnd neyðarbraut) á Reykjavíkurflugvelli. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að 78% Íslendinga eru andvíg því að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á íbúa höfuðborgarsvæðisins vilja 74% ekki að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á Reykjavík þá eru 68% íbúa andvíg lokun brautarinnar. Könnunin var unnin af MMR dagana 16.-21. apríl 2015 og spurt var: „Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, oft nefnd neyðarbraut, verði lokað?“ Úrtakið voru Íslendingar á aldrinum 18 ára og eldri. Svarfjöldi: 1.001 einstaklingur. Niðurstaða könnunar MMR sýnir að meirihluti þeirra sem tók þátt vill ekki láta loka brautinni. Því óska Framsókn og flugvallarvinir eftir upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti stjórnkerfis- og lýðræðisráð ætlar að bregðast við þessari könnun.

    Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi tillögu:

    Í ljósi niðurstöðu könnunar MMR er lagt til að stjórnkerfis- og lýðræðisráð samþykki að óska eftir því að borgarstjórn fari í almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa Reykjavíkur, skv. 107. gr., sbr. 108. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011, um það hvort loka eigi flugbraut 06/24.

    Frestað.

Fundi slitið kl. 15:10

Heiða Björg Hilmisdóttir