Stjórnkerfis- og lýðræðisráð - Fundur nr. 14

Stjórnkerfis- og lýðræðisráð

Ár 2015, 16. mars, var haldinn 14. fundur stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í borgarráðsherbergi Ráðhúss og hófst kl. 13.30. Fundinn sátu Halldór Auðar Svansson, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Björn Gíslason, Hildur Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúinn Auður Alfífa Ketilsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Hreinn Hreinsson.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á rannsóknaráætlun vegna úttektar stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála á verkefnunum Betri Reykjavík og Betri hverfi. Gestur Páll Reynisson og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir taka sæti undir þessum lið.

    - kl. 13:42 tekur Stefán Þór Björnsson sæti.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Skýrslan er til umsagnar hjá ráðinu skv. bréfi borgarráðs dags. 24. febrúar 2015.
    Samþykkt að veita svohljóðandi umsögn:

    Stjórnkerfis- og lýðræðisráð fagnar því að fyrir liggi tillögur að aðgerðum gegn heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Eins og fram kemur í skýrslunni eru meiri líkur til þess að fatlaðar konur verði fyrir ofbeldi en aðrir hópar samfélagsins. Því hlýtur það að vera forgangsmál að Reykjavíkurborg, sem treyst er af samfélaginu fyrir fötluðu fólki, bregðist við þessari auknu áhættu.

    Ráðið tekur undir tillögur þær sem fram koma í skýrslu starfshópsins og fagnar sérstaklega áherslunni sem er á að tryggt sé að ekki sé reynt að fela í kerfinu það ofbeldi sem fatlað fólk verður fyrir á heimilum þar sem það fær þjónustu frá Reykjavíkurborg. Bæði skiptir það máli varðandi einstök mál og ekki síður til þess að hægt sé að greina vandann og finna lausnir til að koma í veg fyrir heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Því er brýnt að í verklagsreglum sem fjallað er um í tillögu nr. 1 sé tryggt að upplýsingar um mál sem upp koma séu skráðar með skipulegum hætti og á þann hátt að nýta megi upplýsingarnar til umbóta í stjórnkerfi borgarinnar.

    Einnig er umhugsunarvert að í skýrslunni er bent á að margt fólk upplifir valdaleysi yfir sínu eigin lífi, lágt sjálfsmat og félagslega einangrun, sem veldur því að það á stundum erfitt með að þekkja mörkin milli heilbrigðra samskipta og ofbeldisfullra sem og að brjótast út úr ofbeldissamböndum. Er þetta að hluta til rakið til þess að fötluðu fólki er kennt að vera þakklátt fyrir alla þjónustu og að skoðun þess og valfrelsi skipti litlu máli. Mikilvægt er að huga að þessu vandamáli með markvissri valdeflingu fatlaðs fólks; að rekja þá kerfisbundnu þætti sem halda fötluðu fólki undirskipuðu og sporna við þeim. Þar skiptir til að mynda andi þeirrar þjónustu sem fötluðu fólki býðst miklu máli. Valdeflandi hugmyndafræði gildandi laga og sáttmála þarf að skila sér alla leið til allra stiga stjórnsýslunnar.

    Stjórnkerfis- og lýðræðisráð mælir með því við borgarráð að skýrslan verði samþykkt og ráðist verði í þær aðgerðir sem þar eru lagðar til.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 2. mars 2015, um endurskoðun Betri hverfa:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Stjórnskipunar- og lýðræðisráði fagna því að nú þegar sé búið að taka saman gögn um þátttöku í nýafstaðinni kosningaþátttöku í Betri hverfum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að það hljóti að valda vonbrigðum að þátttakan hafi einungis verið um 7%. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áður bent á að til að beint lýðræði eigi að vera réttlætanlegt á þennan hátt, með allri þeirri kynningarstarfsemi og kostnaði að öðru leyti, verði að vera hlutfallslega næg þátttaka. Einnig er vert að velta upp hvort að meirihlutakosning um hagsmuni svo fárra geti á þennan hátt haft áhrif á nærumhverfi yfir 90% Reykvíkinga sem kusu að taka ekki þátt, án þess að nokkur kjörinn fulltrúi beri pólitíska ábyrgð á þeim ákvörðunum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til í ljósi þessa að hverfiskosningin Betri hverfi verði endurskoðuð áður en haldið verði í fleiri slíkar kosningar.

    Tillagan er borin undir atkvæði og er hún felld með fjórum atkvæðum gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við afgreiðslu málsins.

  4. Kynning á starfsemi fjármálaskrifstofu. Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og Halldóra Káradóttir taka sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Framsóknar og flugvallarvina, dags. 16. febrúar 2015 um „Stop doing lista“:

    Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur til að stjórnkerfis- og lýðræðisráð beini því til borgarstjórnar Reykjavíkurborgar að fela Innri endurskoðanda borgarinnar að fara einu sinni á ári yfir verkefni borgarinnar og gera tillögu til borgarráðs um hvaða verkefni megi skera niður sem teljist orðin óvirk eða óþörf.

    Frestað.

  6. Lagt er fram bréf Gunnlaugs M. Sigmundssyni dags. 9. mars 2015 varðandi beiðni um upplýsingar frá Borgarbókasafni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  7. Umræða um starfsáætlun stjórnkerfis- og lýðræðisráðs fyrir árið 2015.
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:36

Heiða Björg Hilmisdóttir