Stafrænt ráð - Fundur nr. 8

Stafrænt ráð

Ár 2022, miðvikudaginn 23. nóvember, var haldinn 8. fundur stafræns ráðs. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 13:32. Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Kristinn Jón Ólafsson, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson og Skúli Helgason. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Óskar J. Sandholt. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með rafrænum hætti: Karen María Jónsdóttir. Fundarritari var Eva Pandora Baldursdóttir. 

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 7. nóvember 2022, um samstarf sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu á árinu 2023. ÞON22110010

  Fjóla María Ágústsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samstarf sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu er mjög mikilvægt til að efla þekkingaruppbyggingu og tryggja heildræna þróun samfélagsins í þessum málaflokki. Reykjavíkurborg hefur nú þegar lokið eða er langt komin með þau verkefni sem sveitarfélögin áforma hér að ráðast í sameiginlega á árinu 2023 og greiðir því ekki beint fjárframlag, en leggur til vinnu stafrænna sérfræðinga, þekkingu við uppbyggingu tæknilegra innviða og tilbúnar lausnir.

  Fylgigögn

 2. Fram fer kynning á sambandi Íslenskra sveitarfélaga. ÞON22110010.

  Fjóla María Ágústsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -     kl. 13:36 tekur Andrea Jóhanna Helgadóttir sæti á fundinum.

  Stafrænt ráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Stafrænt ráð þakkar fyrir kynninguna á samstarfsverkefni sveitarfélaganna um stafræna umbreytingu. Ljóst er að um nauðsynlegt samstarf er að ræða sem mun uppfæra tæknilega innviði sveitarfélaga, auka samfellu í þjónustu, spara tíma starfsfólks, auðvelda samvinnu sveitarfélaga og ríkis og skila sér í hagkvæmari rekstri.

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á Stafrænu Íslandi. ÞON22110029.

  Andri Heiðar Kristinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -     kl. 14:25 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundi og Ásta Björg Björgvinsdóttir tekur sæti á fundinum í hans stað með rafrænum hætti. 

  Stafrænt ráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Stafrænt ráð þakkar Stafrænu Íslandi fyrir kynninguna. Mikið hefur áunnist í stafrænni þróun innviða landsins en enn er verk að vinna. Við fögnum samstarfinu við sveitarfélög landsins og þróunina í átt að því að notendur geti nálgast réttindi sín og gögn á miðlægu svæði með aðgengilegum hætti. Þessi þróun einfaldar notendum lífið, eykur aðgengi fólks að stjórnsýslunni og fyrirbyggir að hver stofnun sé að finna upp og þróa sömu lausnina hver á sínum eigin vef.

  Fylgigögn

 4. Fram fer kynning á stafrænni vörustýringu. ÞON20060042.

  Ólafur Óskar Egilsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 14. nóvember 2022, um ofbeldi meðal ungmenna. MSS22100253.

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Sjálfstæðisflokks taka undir áhyggjur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs varðandi aukna tíðni ofbeldisverka á meðal ungmenna. Samkvæmt samþykktum fer stafræna ráðið með mótun stefnu í gagnsæis-, lýðræðis-, stafrænum- og þjónustumálum, ásamt innri og samfélagslegri nýsköpun. Fögnum við þeirri vinnu sem er í gangi hjá félagsmiðstöðvunum í samvinnu við háskólana um slæma orðræðu og ofbeldi líkt og kom fram á fundi skóla- og frístundaráðs þann 21. nóvember 2022. Innan félagsmiðstöðvanna liggur mikil fagleg þekking og góð tengsl við ungmennin og þar stendur til að rýna í aðferðir og leiðir til þess að bregðast við stafrænu ofbeldi í samráði við ungmenni og foreldra.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands tekur undir áhyggjur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og stafræns ráðs um að það sé mikilvægt að leita til þeirra sem eru fyrsti snertiflötur við ungt fólk og þau séu höfð með í ráðum. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur hins vegar mikla áherslu á það að allar þær opinberu stofnanir og aðilar sem sinna rannsóknum og könnunum á ofbeldishegðun í samfélaginu taki örugglega inn þau vel þekktu umhverfisáhrif sem misskipting og tekju- og eignaójöfnuður hafa á birtingu ofbeldis í bæði nærsamfélagi og á landsvísu. Það heyrist ekki mikið um þessi áhrif í umræðu um ofbeldismál, þrátt fyrir að þau séu vel þekkt í félagsvísindum og virðist fljótu bragði ekki vera gagnasafn sem tekið er með þegar vandinn er greindur. Misskipting á Íslandi eykst, ævilengd láglaunafólks á Íslandi lækkar og þau ríkustu í samfélaginu taka til sín æ stærri skerf af eignum landsmanna.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram svar þjónustu og nýsköpunarsviðs, dags. 10. nóvember 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við umbreytingarverkefni fyrir leikskólainnritun, sbr. 18. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 14. september 2022. ÞON22090039.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 11. nóvember 2022, um bókun samráðs- og aðgengisnefndar um rafræn skilríki og aðgengi, sbr. 2. lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. október 2022. MSS22090069.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stafræna umbreytingu á skráningu máltíða starfsmanna, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september 2022. Einnig lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 14. nóvember 2022. MSS22090057.

  Tillagan er felld með 5 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við fögnum áhuga Sjálfstæðisflokksins á stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar og þökkum fyrir tillöguna. Fram kemur í umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs að tímasparnaður við innleiðingu nýrrar stafrænnar lausnar við skráningu á máltíð starfsmanna yrði mjög takmarkaður þar sem helsti flöskuhálsinn í ferlinu er röðin sem myndast þegar matvælin eru sett á diska. Þá er áætlað að ábati verkefnisins myndi tæplega svara kostnaði þar sem að um litla hagræðingu og bætingu á þjónustu væri að ræða þar sem hún hefði mjög takmörkuð á áhrif á þjónustu við íbúa og starfsfólk. Tillagan er því felld.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stafrænar lausnir við umsóknir tengdum leikskólum, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080171.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 10. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verkefni I-teymis, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september 2022. MSS22090055.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. nóvember 2022, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gagnaleka, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október 2022. MSS22080059.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:03

Kristinn Jón Ólafsson Andrea Helgadóttir

Ásta Björg Björgvinsdóttir Björn Gíslason

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir Friðjón R. Friðjónsson

Skúli Helgason