Stafrænt ráð - Fundur nr. 60

Stafrænt ráð

Ár 2025, 8. október, var haldinn 60. fundur stafræns ráðs. Fundurinn hófst á Höfðatorgi kl. 13:30. Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Friðjón R. Friðjónsson og Kristinn Jón Ólafsson. Jafnframt eftirtalið starfsfólk þjónustu- og nýsköpunarsviðs: Óskar Jörgen Sandholt og Eva Pandora Baldursdóttir. Sólveig Skaftadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning frá umhverfis- og skipulagssviði á stöðu verkefnis um sorptunnur í borgarlandi. ÞON25090029.

    Stafrænt ráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stafrænt ráð lýsir ánægju með framgang snjalllausna í úrgangsmálum, en í dag eru um 230 skynjarar virkir í tunnum borgarlandsins. Verkefnið hefur skilað framúrskarandi árangri þar sem stefnt er að tæma tunnur áður en þær ná 80% fyllingu og líftími búnaðar hefur staðist allar væntingar. Gagnagreiningar sýna tækifæri til að hagræða verulega í þjónustunni, en talið er að hægt sé að fækka staðsetningum um allt að 50% án þess að skerða þjónustustig. Stafræna ráðið styður framtíðarsýnina um aukna flokkun á borgarlandi, hagkvæmari hirðuaðferðir, pokalausar tunnur og útbreiðslu snjalllausna.

    Karl Eðvaldsson tekur sæti undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning um staðlaða birtingu gagna Reykjavíkurborgar. ÞON25100017.

    Inga Rós Gunnarsdóttir tekur sæti undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram aðgerðaráætlun þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. ÞON21070032.

    Fulltrúar Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þjónustustefna Reykjavíkurborgar hefur verið mikilvægt leiðarljós í umbreytingu þjónustu borgarinnar. Farið hefur verið í töluverðar breytingar á verkferlum í samhengi við stafræna umbreytingu. Áhersla á notendamiðaða þjónustu hefur verið lögð til grundvallar og nú liggur fyrir aðgerðaáætlun fyrir árin 2025-2027. Það er nauðsynlegt að fylgja eftir þeim góða árangri sem náðst hefur og halda áfram að efla þjónustu borgarinnar. Til þess er mikilvægt að mæla þjónustuna og upplifun notenda.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er sammála mikilvægi eftirfylgni góðrar þjónustustefnu. Reykjavíkurborg hefur lagt mikinn metnað í þetta eins og fram kemur í kynningu og unnið gott starf. Fulltrúinn vill þó taka það fram að hann telur líka mikilvægt að fyrir liggi nákvæmari greining á því hvar nákvæmlega þarf að skerpa betur á þjónustu borgarinnar umfram það sem gert hefur verið. Fram hefur komið að þjónustunámskeið - fyrst undir merkjum “Gróðurhússins” og svo núna undir nafninu “Afleggjarinn”,  hafi verið haldin undanfarin ár og þeim eigi að halda áfram inn í framtíðina. Fulltrúinn er þessu ekki sammála og ítrekar að hann vilji að hægt verði að sjá fyrir endann á því fyrirkomulagi námskeiða sem kynnt hefur verið og leitað verði meiri sjálfbærni hvað þetta varðar hjá þeim sem sjá um framlínuþjónustu Reykjavíkurborgar - samkvæmt þeirri þjónustustefnu sem nú liggur fyrir.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar minnihlutans þakka fyrir kynningu á aðgerðaáætlun þjónustustefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027. Hér var farið skýrt yfir þau skref sem þarf að taka til að gera þjónustubreytingu til að bæta þjónustu. Mikilvægt er að hlúa vel að fræðslu til stjórnenda og starfsmanna þar sem þar verður oft rof á milli stefnu og þjónustu. Þjónustustefna er lykill að því að borgarar fái sem allra bestu þjónustu sem völ er á. Fulltrúarnir styðja að þessu verkefni verði áfram sinnt að fagmennsku og fyrirsjá.

    Arna Ýr Sævarsdóttir tekur sæti undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram 6 mánaða uppgjör þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2025. ÞON22080032.

    María Björk Hermannsdóttir tekur sæti undir þessum lið

    Fylgigögn

  5. Lögð fram heimildarbeiðni um að hefja þróun á verkefninu Þjónusta SFS 0-6 ára. Lagt er til að stafrænt ráð samþykki verkefnið og að það sé skilgreint í fyrsta forgangi. ÞON25050015.

    Samþykkt og vísað til meðferðar borgarráðs.

  6. Lögð fram heimildarbeiðni um að hefja útboðsferli og innleiðingu á verkefnastjórnkerfi fyrir umhverfis- og skipulagssvið. Lagt er til að stafrænt ráð samþykki verkefnið og að það sé skilgreint í fyrsta forgangi. ÞON25040027.

    Samþykkt og vísað til meðferðar borgarráðs.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram heimildarbeiðni til að hefja verkefnið  „Viðverukerfi - útboð“. Lagt er til að stafrænt ráð samþykki verkefnið og að það sé skilgreint í fyrsta forgangi. ÞON25090058.

    Samþykkt og vísað til meðferðar borgarráðs.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning um stöðu á vinnu stýrihóps um eflingu net- og upplýsingaöryggis. ÞON25060019.

    Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns tekur sæti undir þessum lið.

  9. Við birtingu fundargerðar stafræns ráðs frá 10. september 2025 misfórst að tilgreina mótatkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og hjásetu fulltrúa Framsóknarflokksins við afgreiðslu á lið 4. Í framhaldinu, þ.e. þegar þetta varð ljóst, voru mistökin leiðrétt og fundargerðin uppfærð. Jafnframt var uppfært og leiðrétt afgreiðslubréf sent til borgarráðs. Dagsetning fundargerðarinnar var einnig leiðrétt.

Fundi slitið kl. 15:58

Alexandra Briem Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Björn Gíslason

Einar Sveinbjörn Guðmundsson Friðjón R. Friðjónsson

Kristinn Jón Ólafsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð stafræns ráðs frá 8. október 2025