Stafrænt ráð - Fundur nr. 12

Stafrænt ráð

Ár 2023, miðvikudaginn 8. febrúar, var haldinn 12. fundur stafræns ráðs. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 13:30. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Kristinn Jón Ólafsson, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson, Rannveig Ernudóttir og Skúli Helgason. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Karen María Jónsdóttir og Óskar Sandholt. Fundarritari var Eva Pandora Baldursdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á Hverfinu mínu og samráðsgátt stjórnvalda. ÞON22010024.

    Eiríkur Búi Halldórsson, Salvör Gyða Lúðvíksdóttir, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir og Sæþór Fannberg Sæþórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Stafrænt ráð leggur fam svohljóðandi bókun:

    Stafrænt ráð þakkar fyrir kynninguna á stöðu verkefnanna Hverfið mitt og samráðsgátt stjórnvalda. Á næsta fundi ráðsins er stefnt að því að leggja fram drög að erindisbréfi til að endurskoða heildrænt fyrirkomulag verkefnisins Hverfið mitt til framtíðar. Í ljósi þess, leggur ráðið ríka áherslu á að við næstu skref verkefnisins Hverfið mitt verði sérstaklega haft í huga fjárhagsleg hagkvæmni aðgerða í ljósi mögulegra breytinga á verkefninu, tryggt eignarhald Reykjavíkurborgar á hugbúnaðarlausninni og gögnum því tengdu, og áframhaldandi virkni verkefnisins Hverfið mitt, m.a. að það sé aðgengilegt og gagnsætt. Auk þess lýsir ráðið yfir fullum stuðningi við tillögu verkefnaráðs þjónustu- og nýsköpunarsviðs um að Reykjavíkurborg nýti sér, endurgjaldslaust boð ríkisins, Samráðsgátt stjórnvalda, til að tryggja aðgengi starfsfólks og íbúa að samráðsvettvangi, mæta kröfum um hagkvæmni og á sama tíma efla samstarf ríkis og sveitarfélaga. Að lokum kallar ráðið eftir kynningu á niðurstöðu verðfyrirspurnar vegna Hverfið mitt þegar hún liggur fyrir, sem og eftirfylgni á framvindu beggja verkefna, þ.e. Hverfið mitt og samráðsgátt stjórnvalda, innan tveggja mánaða.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á stöðu innleiðingar á lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021 - 2030. MSS21110030.

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum fyrir kynningu á stöðu aðgerða tengdum lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Það er full ástæða til að endurskoða og skerpa á forgangsröðun þeirra aðgerða sem fylgdu samþykktri lýðræðisstefnu borgarinnar með það að markmiði að auka þátttöku borgarbúa. Góð dæmi um það eru yfirstandandi vinna tengd ábendingargátt og samstarfið við Stafrænt Ísland um aðkomu borgarinnar að samráðsgátt stjórnvalda. Ráðið óskar eftir því að núverandi aðgerðarlista lýðræðisstefnunnar verði forgangsraðað fyrir 2023 með sundurliðuðu kostnaðarmati, umfang verkefna (lítið, mið eða stórt), mögulegar hindranir, tímalínu og samfélagslegt virði í stuttu máli. Óskum við svo í framhaldinu eftir kynningu á þeirri tillögu á forgangslista að aðgerðum inn í stafræna ráðið innan mánaðar.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu fyrir Borgarskjalasafn Reykjavíkur. ÞON23010028.

    Bryndís Gunnlaugsdóttir, Helena Óladóttir, Hjálmur Hjálmsson og Svanhildur Bogadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  4. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sameiginlegt starf að stafrænni umbreytingu sveitarfélaga og ábendingavef Reykjavíkurborgar, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023. MSS22110210.

    Vísað til þjónustu- og nýsköpunarsviðs til umsagnar.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 1. febrúar 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mælaborð uppbyggingar húsnæðis á vefsíðu Reykjavíkurborgar sbr. 7. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 14. desember 2022. ÞON22120030.

    Fylgigögn

  6. Stafrænt ráð samþykkir að skipa Kristin Jón Ólafsson, Söru Björg Sigurðardóttur og Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur í stýrihóp um mótun stafrænnar stefnu Reykjavíkurborgar ásamt Aðalsteini Hauki Sverrissyni, Andreu Jóhönnu Helgadóttur og Söndru Hlíf Ocares til vara. ÞON23010021.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:50

Kristinn Jón Ólafsson Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Andrea Helgadóttir Björn Gíslason

Friðjón R. Friðjónsson Rannveig Ernudóttir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Stafrænt ráð fundargerð nr. 12