Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð mánudaginn 12. janúar 2026 nr. 305

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 12. janúar, var haldinn 305. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.17.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Magnús Davíð Norðdahl (P), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Ragnheiður Andrésdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um verkefnið Frístundalæsi, eflingu máls og læsis á frístundaheimilum. SFS25120083

    Tinna Björk Helgadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.30 tekur Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góða kynningu á verkefninu Frístundalæsi. Verkefnið Frístundalæsi miðar að því að efla mál og læsi barna í gegnum leik og skapandi starf á frístundaheimilum. Það er byggt á rannsóknum og þróað í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Verkefninu fylgir hugmyndabanki þar sem finna má hugmyndir að að verkefnum. Starfsfólk frístundaheimila getur sótt hugmyndir að verkefnum og lagað þær að sínum þörfum. Með þessu eykst fjölbreytileikinn í stuðningi við börn og starfsfólk í þessum málaflokki sem er afar jákvætt.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi þakkar fyrir góða kynningu á frístundalæsi. Frístundalæsi er verkefni sem að hefur vaxið og dafnað í daglegu frístundastarfi síðustu ár. Frístundalæsið hefur haft jákvæð áhrif á umhverfi frístundaheimila. Hægt er að greina framfarir barna meðal annars í tjáningu og samskiptum. Frístundalæsi er gott verkfæri til að þjálfa hæfniþætti menntastefnunnar. Starfsfólk frístundaheimila er ánægt með að hafa frístundalæsið í verkfærakistu sinni til að vinna faglega með börnum.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. desember 2025, þar sem tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna nr. 1.1, 1.2, 1.3B, 1.3C, 1.3D, 1.4, 1.7, 1.8, 2.1, 2.3, 2.4 er vísað til skóla- og frístundaráðs til frekari meðferðar. Jafnframt lögð fram skýrslan Tillögur stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna, dags. 17. nóvember 2025. MSS25020124

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að setja fram áætlun þar sem tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna verði forgangsraðað og aðgerðir tímasettar. Þær tillögur sem vísað var til skóla- og frístundaráðs til frekari meðferðar eru tillögur nr. 1.1, 1.2, 1.3B, 1.3C, 1.3D, 1.4, 1.7, 1.8, 2.1, 2.3, 2.4. Jafnframt er lagt til að vísa tillögu 1.3D til velferðarráðs en að tillagan verði unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið.

    Samþykkt.

    Guðrún Halla Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ofbeldi meðal og gagnvart börnum og ungmennum er ein af alvarlegustu áskorunum samtímans og kallar á skýr, samræmd og markviss viðbrögð. Í borgarstjórn þann 16. desember var lögð fram skýrsla stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna, sem byggir á ítarlegri greiningu, víðtæku samráði og mati á stöðu mála. Með tillögunum er lögð áhersla á heildstæða nálgun í forvörnum, snemmtæka íhlutun og viðbrögð þegar vandi er kominn upp, ásamt úrræðum fyrir flókin og alvarleg mál. Sérstök áhersla er lögð á börn og ungmenni í áhættuhópum, með barnvænni og áfallamiðaðri nálgun, samþættri þjónustu og auknu samstarfi milli kerfa. Það er mikilvægt að forgangsraða þessum tillögum og að þeim sé fylgt eftir af festu. Þess vegna er lagt til að sviðstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að setja fram áætlun þar sem tillögum stýrihóps verði forgangsraðað og aðgerðir tímasettar.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi þakkar fyrir góða kynningu á tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna. Um er að ræða tillögur sem eru til þess fallnar að setja af stað aðgerðir gegn ofbeldi. Mikilvægt er að horfa til þeirrar góðu vinnu sem að unnin hefur verið og innleiða þær tillögur sem fram eru settar í samráði við vettvang. Tillögurnar eru unnar í víðtæku samráði við vettvang sem er alveg til fyrirmyndar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember 2025:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði viðeigandi sérfræðingar á umhverfis- og skipulagssviði fengnir til að kynna hver sé staða húsnæðismála Ölduselsskóla og hver sé líkleg framvinda um framtíð húsnæðismála skólans.

    Samþykkt. SFS25110109

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. desember 2025:

    Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna leggur til að skóla- og frístundaráð fái fljótlega kynningu frá UNICEF á Íslandi um barnvæn sveitarfélög, réttindaskóla og annað skóla- og frístundastarf á þeirra vegum.

    Samþykkt. SFS25120041

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. janúar 2026, um breytingu á 12. grein reglna um styrkveitingar B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur Látum draumana rætast ásamt reglunum með merktum breytingum.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25120086 

    Fylgigögn

  6. Lagður fram samstarfs- og styrktarsamningur skóla- og frístundasviðs og RÚV um UngRÚV 2026-2028 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. desember 2025, um samninginn og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktum í borgarráði 25. maí 2017.

    Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vísað til borgarráðs. SFS22120075

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmiðlalæsi er ein af meginstoðum lýðræðislegrar þátttöku en markmið samningsins er einmitt að styðja við unglingalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi í samræmi við Menntastefnu Reykjavíkurborgar. Að gefa unglingum tækifæri og vettvang til að láta raddir sínar heyrast og læra á fjölmiðlaumhverfi er í samræmi við nýja menntastefnu, m.a. með námskeiðum í tækni- og dagskrárgerð fyrir nemendur á unglingastigi grunnskóla, auk þess sem það er ómetanleg reynsla fyrir unglingana sjálfa. Hjarta þessa samstarfs er ekki síst samstarf um Skrekk - hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar og gerir þetta samstarf mögulegt að öll börn geta fylgst með úrslitakvöldi í þessu fyrirmyndarverkefni. Borgarlögmaður hefur áður staðfest að samningurinn samræmist innkaupareglum Reykjavíkurborgar og samningurinn falli undir þá starfsemi sem tilgreind er í 13. gr. innkaupareglna borgarinnar og fjárhæð samningsins sé undir viðmiðunarfjárhæðum VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þar til bærum þjónustusamningi stofnunarinnar við íslenska ríkið. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja. Vert er hér að hafa í huga víðtækt viðskiptasamband sem Reykjavíkurborg hefur haft við RÚV, samanber svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lagt fram á fundi borgarráðs 24. júlí 2025 (MSS24050002). Það er því þörf á að rýna með gagnrýnum hætti viðskiptatengsl borgarinnar við RÚV og gæta varhug við áframhaldandi samningsgerð af þessum toga. Þetta á ekki síst við þegar aðrir valkostir halda áfram að vera ókannaðir, það er, gætu ekki aðrir fjölmiðlar sinnt þessu verkefni sem Reykjavíkurborg hyggst hér fjármagna?

    Kl. 14.25 víkur Hjörtur Ágústsson af fundinum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram samkomulag UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund UNICEF og Réttindaskóli UNICEF á leikskólastigi ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. janúar 2026, um samkomulagið.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22020013

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. desember 2025, um afgreiðslu borgarráðs á tillögu um verklag um meðferð umsókna og framlag vegna skólavistar reykvískra nemenda í Ásgarðsskóla og ákvörðun um viðmið um hámarksfjölda, gerð þjónustusamnings. SFS25040010

    Fylgigögn

  9. Lögð fram og kynnt fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2026 og greinargerð með fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2026, sem lögð var fram í borgarráði 30. október 2025 og samþykkt í borgarstjórn 2. desember 2025. SFS25090109

    Fylgigögn

  10. Lögð fram og kynnt greinargerð skóla- og frístundasviðs varðandi fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs janúar – september 2025, dags. 4. desember 2025. SFS24080105

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstur Reykjavíkurborgar á skóla- og frístundasviði á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 hélt áfram að taka framförum og skiptir þar miklu að reiknilíkan fyrir leikskólastarfsemi, Snorri, sé raunhæft. Afgangur var 0,3% miðað við fjárhagsáætlun á nefndu tímabili en á sama tímabili árið 2024 var hallinn umfram fjárhagsáætlun 3,7%. Sem fyrr er ástæða til að verja meira fé til kjarnastarfsemi skóla- og frístundasviðs, svo sem að húsnæði sviðsins sé vel viðhaldið og dregið verði úr manneklu eins og kostur er. Forgangsröðun í rekstri Reykjavíkurborgar þarf að vera skýr.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs júlí-september 2025, dags. 29. desember 2025. SFS24080107

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. janúar 2026, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 7. janúar 2026. SFS25080281

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mannekla í leikskólum hefur verið viðvarandi í leikskólum borgarinnar allt frá upphafi kjörtímabilsins og nú í lok þess er ljóst að ekki hefur tekist að leysa vandann. Samkvæmt svarinu eru rúmlega fimmtungur leikskólanna ekki fullmannaðir, það vantar 45,8 stöðugildi á deildum, 10 stöðugildi í eldhús og 18,5 stöðugildi vegna starfsmanna sem eru að hætta eða fara í frí. Samtals vantar því 74,3 stöðugildi í leikskólum borgarinnar. Sú alvarlega staða mun því enn blasa við að leikskólar þurfi að skerða þjónustu sína næstu vikur og mánuði með þeim afleiðingum að foreldar þurfi að sækja börnin sín fyrr eða vera heima með börnin sín heilu og hálfu dagana. Það er því ljóst að reykvískir foreldrar geta ekki reitt sig á þjónustu leikskóla borgarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar um að öll börn frá 12 mánaða aldri fái leikskólavist og því ítrekað lofað á kjörtímabilinu að ráðist verði í aðgerðir til að leysa leikskólavandann.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. desember 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009 

    Fylgigögn

  14. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Mannekla í leikskólanum í Funaborg hefur staðið yfir í nokkur misseri með þeim afleiðingum að skerða hefur þurft þjónustuna verulega þannig að foreldrar þurfa nú að vera heima einn og hálfan dag í viku. Mikilvægt er að brugðist verði við þessari alvarlegu stöðu. Til hvaða ráðstafana hyggst skóla- og frístundasvið grípa til svo hægt verði sem fyrst að tryggja óskerta þjónustu á leikskólanum?

    SFS26010049

Fundi slitið kl. 15:34

Helga Þórðardóttir Ásta Björg Björgvinsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Magnús Davíð Norðdahl

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2026