Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

109. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 20. mars, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 109. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi foreldra. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi á Fræðslumiðstöð, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 16. mars sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, eitt mál.

2. Lagt fram álit fræðsluslustjóra, dags. 19. mars sl., vegna ráðningar í stöðu aðstoðarskólastjóra Selásskóla til afleysingar í eitt ár. Einnig lagt fram bréf Hafsteins Karlssonar, skólastjóra Selásskóla, ódagsett, um sama efni. Fræðslustjóri kynnti álitið. Samþykkt samhljóða að ráða Hrefnu Björk Karlsdóttur í starf aðstoðarskólastjóra Selásskóla til afleysingar í eitt ár.

3. Lagt fram eftirfarandi svar fræðslustjóra við fyrirspurn frá 108. fundi fræðsluráðs um eftirlit á vegum Fræðslumiðstöðvar: 1a) Fræðslumiðstöð hefur sinnt eftirliti með skólastarfi með margvíslegum hætti og er þetta verkefni einkum í höndum þróunarsviðs. Sviðið hefur það verkefni að safna margs konar upplýsingum frá skólum um starfsemi þeirra. Niðurstöður hafa verið lagðar fyrir fræðsluráð ýmist í formi skýrslna eða minnisblaða. Þessar niðurstöður nýtast fræðsluráði bæði við eftirlit og ákvarðanatöku. Fjármálasvið hefur með höndum eftirlit með fjármálum og hefur gert fræðsluráði grein fyrir fjármálastöðunni með reglubundnum hætti. Kennsludeild fer yfir skólanámskrár og hefur gátlista sem viðmið við þá vinnu. Niðurstöður síðasta árs voru lagðar fyrir fræðsluráð. Ráðgjöf fylgir í kjölfar yfirferðar. Fræðslustjóri átti starfsmannasamtöl við alla skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur á sl. ári. Hvert samtal stóð í 1,5 klst. Í þessum samtölum er farið yfir málefni skólans, sterkar og veikar hliðar o.s.frv. Þetta eru trúnaðarsamtöl. Fræðslustjóri heimsótti alla skóla á sl. ári og átti einnar klst. fundi með kennurum í skólunum (sjá bækling með niðurstöðum). Auk þess á fræðslustjóri reglulega fundi með svonefndu Samráði skólastjóra og mánaðarlega fundi með öllum skólastjórum. Þetta er m.a. liður í því að fylgjast með reglubundnum hætti með skólastarfi í Reykjavík. 1b) Þróunarsvið hefur farið yfir skóladagatöl skóla fyrir yfirstandandi skólaár og hyggst gera það árlega, sbr. starfsáætlun 2000. Bréf frá fræðslustjóra um fjölda kennsludaga o.fl. voru send skólastjórum 26. og 29. ág. 1996, 5. 5. 1997 og 19. 5. 1999. Menntamálaráðuneyti var sent bréf um fjölda kennsludaga í Reykjavík 9. 6. 1998. Þróunarsvið hefur einnig farið yfir stundatöflur þessa skólaárs frá öllum skólum og kannað heildarfjölda kennslustunda á viku og tímafjölda í einstökum greinum (mikil vinna felst í slíkri yfirferð og verður hún vart gerð árlega). 2) Ekki hafa komið fram hugmyndir um breytingar á upplýsingaöflun Fræðslumiðstöðvar. Fræðslumiðstöð hyggst því sinna eftirlitsskyldu sinni með svipuðum hætti áfram, en með hverju árinu sem líður aukast fyrirliggjandi upplýsingar og gagnabanki byggist upp. Í þessu sambandi má minna á að á fundi fræðsluráðs, 7. febr. 2000, var tillaga Fræðslumiðstöðvar um árlega efnisöflun frá skólum til umræðu. Einn liður á framlögðum lista fjallar um kennsludaga. Svarinu fylgir greinargerð Fræðslustjóri kynnti svar sitt. Fulltrúi foreldra óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Svar fræðslustjóra staðfestir það sem áður hefur komið fram að fræðsluráð hefur brugðist í eftirlitshlutverki sínu hvað varðar að staðfesta starfstíma nemenda ár hvert.

4. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 17. mars sl., um 170 kennsludaga skólaársins – málsmeðferð, ásamt bréfi fræðslustjóra til skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur, dags. sama dag, um skóladagatöl og skólanámskrár fyrir skólaárið 2000–2001.

Eyþór Arnalds hvarf af fundi kl. 12.50 og Kjartan Magnússon tók sæti í hans stað.

5. Lagt fram minnisblað forstöðumanns þróunarsviðs, dags. 16 mars sl., um umsóknir um styrki úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2000-2001 ásamt auglýsingu um styrkveitingar úr sjóðnum og yfirliti yfir umsóknir sem borist hafa. Forstöðumaður þróunarsviðs gerði grein fyrir minnisblaðinu.

6. Viðbótarhúsnæði við Austurbæjarskóla. Formaður bar fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð samþykkir að beina því til byggingadeildar borgarverkfræðings að kanna möguleika á byggingu skólahúsnæðis ofan á gömlu spennustöðinni sunnan við Austurbæjarskóla. Jafnframt verði teknar upp viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um byggingaáformin. Þá verði borgarlögmanni falið að semja við ríkið um kostnaðarhlutdeild þeirra í viðbyggingunni. Tillögunni fylgir greinargerð. Samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til skoðunar byggingadeildar borgarverkfræðings.

7. Kynning á niðurstöðu könnunar á sérkennslu. Forstöðumaður þjónustusviðs kynnti niðurstöður tveggja kannanna sem unnar hafa verið á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

8. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. í dag, með tillögu um stofnun tvíburaskóla fyrir táknmálstalandi og heyrandi börn. Guðrún Pétursdóttir óskaði eftir að bókað væri að áætlanir um stofnun tvíburaskóla yrðu vel kynntar nemendum, foreldrum, kennurum og starfsfólki bæði Vesturhlíðarskóla og Hlíðaskóla. Formaður fræðsluráðs óskaði eftir að bókað væri að unnið hefði verið að undirbúningi stofnunar tvíburaskóla í heilt ár á Fræðslumiðstöð og vel hefði verið að þeim undirbúningi staðið. Einnig benti hún á að samstarf um skóladagvist skólanna hefði hafist sl. haust.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir Kjartan Magnússon