Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2013, 18. september, var haldinn 45. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Gufunesbæ í Reykjavík og hófst kl. 10:10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Ragnar Hansson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum, Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Íris Björk Pétursdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 26. ágúst sl., þar sem tillögu að forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar 2013 – 2017 er vísað til umsagnar skóla- og frístundaráðs. Auk þess lögð fram drög að Forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar 2013 – 2017. Eygló Rúnarsdóttir og Sigríður Marteinsdóttir, verkefnastjórar á skóla- og frístundasviði, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2013080028
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð fagnar nýrri Forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar 2013-2017 vegna barna og unglinga og foreldra þeirra sem leysa mun af hólmi fyrri stefnu sem samþykkt var í borgarráði í desember 2005. Áherslur og leiðarljós styðja við framtíðarsýn stefnunnar um Reykjavíkurborg sem fjölskylduvænt og heilsueflandi samfélag fyrir börn, unglinga og ungmenni. Ákvæði um framkvæmd stefnunnar með heildstæðum hætti í hverfum borgarinnar undir forystu þjónustumiðstöðva er í þeim anda þverfaglegs samstarfs sem skóla- og frístundasvið hefur að markmiði. Markmið stefnunnar, bæði almenn og sértæk, ættu að nýtast vel í þeirri vinnu. Stefnan kallar einnig að borðinu aðra þá sem starfa með börnum og unglingum í borginni og hvetur til áframhaldandi góðra verka, hvort sem um er að ræða félagasamtök eða einkaaðila. Mikilvægt er jafnframt að fylgjast með stöðu barna og unglinga í borginni, vægi verndandi þátta í daglega lífi þeirra og umhverfi sem og áhættuþátta svo bregðast megi við ef þurfa þykir. Skóla- og frístundaráð óskar Reykvíkingum til hamingju með nýja forvarnarstefnu og gerir ekki efnislegar athugasemdir við hana. Jafnframt er starfsfólki borgarinnar óskað velfarnaðar í þeirri vinnu sem nú er framundan við innleiðingu hennar og gerð sameiginlegra aðgerðaáætlana í hverfum borgarinnar.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sátu hjá.
2. Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna Námsflokka Reykjavíkur og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um Námskraft og Starfskraft. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. september 2013. SFS2013080045
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra í grunnskólum í skóla- og frístundaráði, sem frestað var á fundi ráðsins 4. september 2013:
Lagt er til að á Foreldravef Reykjavíkurborgar verði kynnt með áberandi hætti við hverja skal hafa samband ef foreldrar hafa áhyggjur eða vilja koma með ábendingar varðandi starfsemi leik- og/eða grunnskóla. Á sama stað mætti benda foreldrum á að þeir geti einnig haft samband við samtök foreldra.
Samþykkt.
4. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2014, trúnaðarmál. Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Kristján Gunnarsson fjármálastjóri og Íris Björk Pétursdóttir deildarstjóri, skóla- og frístundasviði, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2013040318
Drögum að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2014 vísað til borgarráðs.
- Kl. 12:40 tóku Jakob Frímann Þorsteinsson og Jóhanna Einarsdóttir sæti á fundinum.
5. Framtíðarsýn frístundamiðstöðva. Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 13:05 tók Atli Steinn Árnason sæti á fundinum.
6. Hverjir eru samstarfsfletir höfuðborgarinnar og Háskólans þegar kemur að þróun skóla- og frístundastarfs. Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
7. Útivist í Gufunesbæ. Atli Steinn Árnason, forstöðumaður í Gufunesbæ, ásamt starfsfólki frístundamiðstöðvarinnar í Gufunesbæ, kynnti starfsemi útivistarsvæðisins í Gufunesi og þá möguleika og tækifæri sem svæðið býður upp á fyrir starfsstaði skóla- og frístundasviðs.
- Kl. 14:15 vék Eva Einarsdóttir af fundi.
- Kl. 14:35 viku Hildur Skarphéðinsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundi.
8. Reynslunám og óformlegt nám. Jakob Frímann Þorsteinsson, formaður námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
9. Lið 9. í útsendri dagskrá frestað.
10. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundafulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir áliti borgarlögmanns á því hvort heimilt sé að aðgreina börn á grundvelli kyns í skólastarfi með hliðsjón af ákvæðum jafnstöðulaga. Sérstaklega er óskað eftir því að borgarlögmaður veiti álit sitt á því hvort heimilt sé að skipta börnunum í hópa á grundvelli kyns t.a.m. í textilmennt eða smíði.
- Kl. 15:35 vék Líf Magneudóttir af fundi.
11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð beinir því til borgarráðs að styrkur til íþróttafélaga vegna aksturs frístundastrætós verði hækkaður í samræmi við vísitölu frá árinu 2010. Styrkurinn hefur ekki verið vísitölubættur frá upphafi verkefnisins 2010 og er því óbreyttur að krónutölu. Það hefur leitt til þess að íþróttafélögin í Reykjavík hafa þurft að taka á sig sífellt meiri kostnað vegna umræddrar þjónustu því bæði laun og eldsneyti hafa hækkað verulega á þessu tímabili.
Frestað.
12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Í því skyni að auðvelda starfsmönnum leikskóla að auka við menntun sína samþykkir skóla- og frístundaráð að slíkir starfsmenn, sem eru í námsleyfi og hyggjast snúa aftur til starfa við leikskóla, haldi starfsmannaafslætti af leikskólagjöldum meðan á námi stendur enda sé námsframvinda eðlileg.
Frestað.
13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Í því skyni að fjölga fagfólki í leikskólum samþykkir skóla- og frístundaráð að sviðið rýni m.t.t. kostnaðar, fýsileika og forgangsröðunar eftirfarandi tillögur sem sumar eru ítarlega útlistaðar í skýrslu leikskólaráðs um fjölgun fagfólks í leikskólum frá 2007.
1. Að afleysing sé aukin svo að þeir starfsmenn sem eru í fjarnámi geti mætt í staðbundnar lotur í námi sínu.
2. Að styðja við og innleiða diplómanám í samstarfi við háskóla líkt og áður var gert svo að starfsmenn með starfsreynslu geti brúað bilið og náð hærra menntunarstigi og tengt saman leikskólaliðanám og háskólanám.
3. Kynna með markpósti leiðir í námi fyrir kennara sem berst til starfsmanna leikskóla Reykjavíkurborgar sem eru með stúdentspróf/sambærilega menntun.
4. Að árlega sé haldin kynning á vegum háskóla fyrir starfsmenn leikskóla borgarinnar á vegum sviðsins.
5. Að starfsmenn sem hafa starfað í leikskólum borgarinnar í eitt ár eða lengur geti sótt um að stunda fjarnám í leikskólafræðum með starfi án skerðingar launa meðan á fjarnámslotum stendur.
6. Að annað starfsfólk með háskólagráðu fái námstilboð í meistarafræðum til að fá aukin réttindi.
7. Styrktarsjóður til náms verði stofnaður hjá borginni sem úthlutað er úr einu sinni á ári.
8. Að einingar verði veittar fyrir nám innan leikskóla, m.a. í samhengi við handleiðslu sérfræðinga frá þjónustumiðstöð.
9. Hvort möguleiki sé á að bjóða upp á stöðupróf í Háskóla Íslands sem að gætu gefið reynslumiklum starfsmönnum nokkurs konar raunfærnimat og færi á að stytta nám sitt til að fá réttindi sem leikskólakennarar.
14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Ábendingar hafa borist um að í Breiðholtsskóla sé töluvert um að nemendur þurfi að nota húsgögn, sem eru ekki við hæfi. Hávaxnir unglingar þurfi þannig t.d. að sitja tímunum saman á stólum og við borð, sem eru ekki í samræmi við hæð þeirra. Óskað er eftir upplýsingum um þetta mál og almennum upplýsingum um ásigkomulag borða og stóla í grunnskólum borgarinnar. Mikilvægt er að nemendur og starfsmenn í skólum borgarinnar hafi vinnuaðstöðu við hæfi.
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir greinargerð um nýbyggingu Norðlingaskóla og þau vandamál, sem við er að eiga í tengslum við hana. Þar komi fram upplýsingar um frágang og viðskilnað byggingaraðila og hvernig húsið henti fyrir skóla- og frístundastarf. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hljóðvist í leikskólahluta byggingarinnar og hvaða úrbætur séu fyrirhugaðar. Þá er óskað eftir skýringum á miklum dragsúg af völdum undirliggjandi þrýstings og hvort um sé að ræða slysahættu af þeim sökum.
Fundi slitið kl. 15.50
Oddný Sturludóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Ragnar Hansson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir