Skóla- og frístundaráð
118. fundur
Fræðsluráð
Ár 2000, miðvikudaginn 2. ágúst, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 118. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Helgi Pétursson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Bryndís Þórðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn Erna Sveinbjarnardóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs og Jón Ingvar Valdimarsson, verkefnisstjóri tölvumála á Fræðslumiðstöð. Gerður G. Óskarsdóttir ritaði fundargerð.
1. Í síðustu fundargerð féll niður nafn Hannesar K. Þorsteinssonar, fulltrúa Kennarafélags Reykajvíkur, en hann sat fundinn. Það er leiðrétt hér með.
2. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 28. júlí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 6 mál.
3. Lagt fram erindi frá stjórn veitustofnana frá 5. júlí sl. um skipun tveggja fulltrúa frá fræðsluráði í nefnd vegna 70 ára afmælis Hitaveitu Reykjavíkur og Austurbæjarskóla, en skólinn var fyrsta húsið sem tengt var hitaveitunni. Samþykkt að Sigrún Magnúsdóttir og Bryndís Þórðardóttir verði fulltrúar fræðsluráðs í nefndinni.
4. Kynnt ráðning Bjargar Evu Erlendsdóttur, fréttamanns, sem upplýsingafulltrúa á Fræðslumiðstöð frá og með 1. október n.k. Steinunni Stefánsdóttur voru þökkuð góð störf sem upplýsingasfulltrúi, en hún lét af störfum nú í sumar.
5. Lagt fram erindi frá SAMFOKi þar sem bornar eru fram þakkir fyrir fjárstuðning árið 2000 og upplýsingar gefnar um nýja stjórnarskipan.
6. Samþykkt að vinnudagur fræðsluráðs vegna starfsáætlunar 2001 verði 21. ágúst, n.k. kl. 08:30-13:00.
7. Lögð fram drög að samningi við Línu.Net um ljósleiðaratengingu skólanna, sbr. samþykkt frá 117. fundi fræðsluráðs. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti innihald samningsins. Drögin samþykkt með þremur atkvæðum og vísað til afgreiðslu borgarráðs. Fulltrúar minnihluta sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðismanna fagna því að grunnskólar borgarinnar skuli tengdir saman með ljósleiðarakerfi. Slíkt býður upp á mikla möguleika. Undirritaðir gera hinsvegar athugasemdir við að ekki skuli leitað eftir formlegum tilboðum hjá öðrum aðilum en Línu.Neti. Fram hefur komið að aðrir aðilar hafa áhuga á því að bjóða í þetta verkefni og það er ekki rétt sem komið hefur fram í stjórn Innkaupastofnunar og fræðsluráði að eini aðilinn sem getur framkvæmt verkið sé Lína.Net.
Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Meirihluti fræðsluráðs er að samþykkja stórkostlegt framfaraspor í skólamálum borgarinnar með samningi við Línu.Net um ljósleiðaratengingu allra grunnskóla borgarinnar. Innkaupastofnun Reykjavíkur fjallaði um þennan samning við Línu.Net á fundi sínum sl. mánudag og var stjórnin sammála um að gera samning við Línu.Net. Innkaupastofnun Reykjavíkur er sú fagstofnun borgarinnar sem fjallar um innkaup og útboð fyrir hönd borgarstofnana. Meirihluti fræðsluráðs fagnar mjög þessum samningi og telur hann marka ákveðin tímamót í skólastarfi borgarinnar.
8. Lögð fram til kynningar drög að samkomulagi milli ÍTR, Fræðslumiðstöðvar, Félagsþjónustunnar og Leikskóla Reykjavíkur um samstarf í Vesturbænum. Forstöðumaður þjónustusviðs kynnti efni draganna.
Fundi slitið kl. 13.20
Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðlaugur Þór Þórðason
Helgi Pétursson Bryndís Þórðardóttir