Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

120. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 21. ágúst kl. 13:17 hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 120. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Guðrún Erla Geirsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarsons. Auk þeirra sátu fundinn Hannes Þorsteinsson og Finnbogi Sigurðsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar og Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, sem ritaði fundargerð.

Fulltrúi minnihlutans í fræðsluráði, Guðlaugur Þór Þórðarsson óskaði á vinnufundi fræðsluráðs eftir að formlegur fundur ráðsins yrði haldinn í kjölfar vinnufundar. Formaður varð við ósk fræðsluráðsfulltrúans en benti jafnframt á að n.k. mánudag væri reglulegur fundur fræðsluráðs.

1. Fræðsluráðsfulltrúinn spurðist fyrir hver væri staðan í ráðningarmálum kennara. Formaður svaraði að ráðningarmál kennara væru á dagskrá næsta fundar fræðsluráðs eins og ákveðið hafði verið á síðasta fundi ráðsins.

2. Þá bar fulltrúinn munnlega fram eftirfarandi: a) að hafinn verði undirbúningur að tíu mánaða skóla og b) að samkeppnisstaða á milli einkaskóla og opinberra skóla verði jöfnuð og þessi markmið verði gerð að 2ja ára markmiðum. Lagt fram. Flutningsmanni bent á að meginverkefni fimm tíma vinnufundar fræðsluráðs fyrr um daginn hafi verið að safna hugmyndum og tillögum um skólastarf.

3. Guðlaugur Þór lagði þessu næst fram skriflega fyrirspurn til borgarlögmanns varðandi hæfni stjórnarformanns Línu.Nets og Innkaupastofnunar, Alfreðs Þorsteinssonar, til að taka þátt í afgreiðslu á fundi hjá Innkaupastofnun 14. ágúst þegar tillaga um að bjóða út skólanetið var tekin fyrir. Formaður taldi fræðsluráð ekki rétta vettvanginn fyrir fyrirspurn af þessum toga og afstaða yrði tekin til fyrirspurnarinnar á næsta fundi.

4. Að lokum óskaði fulltrúinn eftir að fá afhentan samning við Línu.Net varðandi skólanet og einnig tilboð sem liggur fyrir frá Símanum skv. frétt í Morgunblaðinu frá því síðastliðinn laugardag. Forstöðumaður þróunarsviðs upplýsti á fundinum að hún kannast ekki við að umrætt tilboð Símans lægi fyrir, en mun kanna það fyrir næsta fund fræðsluráðs. Hún mun afhenda Guðlaugi Þór umbeðinn samning við Línu.Net á sama fundi.

Fundi slitið kl. 13:30

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Guðlaugur Þór Þórðarsson
Guðrún Erla Geirsdóttir