Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

122. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 11. september, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 122. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Helgi Hjörvar, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Erna Sveinbjarnardóttir fulltrúi skólastjóra, Elín Vigdís Ólafsdóttir og Hannes Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir deildarstjóri kennsludeildar og Guðmundur Þór Ásmundsson verkefnisstjóri sem ritaði fundargerð. Varaformaður stýrði fundi í fjarveru formanns.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 7. sept. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 3 mál (fskj 122, 1.1).

2. Lagt fram bréf frá Kennarafélagi Reykjavíkur þar sem tilkynnt er að Elín Vigdís Ólafsdóttir hafi verið tilnefnd sem áheyrnarfulltrúi félagsins á fundum fræðsluráðs í stað Guðrúnar Sturlaugsdóttur (fskj 122, 2.1). Var Elín boðin velkomin.

3. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti stöðu mála varðandi nemendur í Reykjavík úr öðrum sveitarfélögum (fskj 122, 3.1)

4. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti stöðu varðandi innheimtu skóladagatala fyrir skólaárið 2000 – 2001 (fskj 122, 4.1)

5. Fræðslustjóri kynnti stöðuna varðandi hádegisstund í skólum (fskj 122, 5.1).

6. Kynntar voru tillögur að samkomulagi milli Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Félagsþjónustunnar í Reykjavík og Miðgarðs varðandi niðurgreiðslu kostnaðar og meðferð vanskilamála við lengda viðveru barna í skólum (fskj 122, 6.1). Fræðsluráð gerir ekki athugasemdir við samkomulagið.

7. Lögð voru fram drög að áætlun um fundi fræðsluráðs á haustönn 2000 og tillögur um efni funda (fskj 122, 7.1).

8. Forstöðumaður þróunarsviðs lagði fram og kynnti drög að samningi við Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri um kaup á sjálfsmatslíkaninu Skólarýnir (fskj 122, 8.1). Fræðsluráð samþykkir að heimila Fræðslumiðstöð að ganga frá samningnum.

Anna Kristín Sigurðardóttir hvarf af fundi kl 13.15

9. Önnur mál: a) Rætt var um stöðuna í mannaráðningum til skólanna. Fram kom ósk um að staðan yrði kynnt með minnisblaði á næsta fundi fræðsluráðs. Fulltrúar kennara lögðu fram eftirfarandi bókun: Fulltrúar kennara í fræðsluráði lýsa furðu sinni á þeim ummælum fræðslustjóra í sjónvarpsfréttum þ. 29. ágúst sl. þar sem fræðslustjóri segir að skólar verði ekki verri við það að leiðbeinendur séu ráðnir í stað grunnskólakennara. Með þessu er ekki einungis gert lítið úr kennaramenntuninni heldur einnig áhyggjum og vandræðum þeirra kennara sem á hverju hausti þurfa að leiðbeina fólki sem ekki kann til verka. Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Fræðslustjóri hefur ítrekað sýnt bæði með orðum sínum og gerðuum að mikilvægi kennaramenntunarinnar er henni mikils virði. Ummæli hennar sem fulltrúar kennara kjósa að gera að bókunarefni eru slitin úr samhengi og því ómaklegt að nýta þau til árása á fræðslustjóra. b) Fulltrúi SAMFOKs spurði um útgáfu Upplýsingarits fyrir foreldra og hvað hefði tafið útgáfu þess. Fræðslustjóri svaraði. c) Spurt var um gangbrautvörslu við skólana og skyldur varðandi hana. d) Fulltrúar minnihluta lögðu fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð samþykkir að setja á stofn starfshóp sem hefur það markmið að: Marka stefnu fyrir Grunnskólana í tölvu- og upplýsingamálum. Starfshópurinn samanstandi af tveim pólitískum fulltrúum úr fræðsluráði og þeim starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar og skólanna sem að málið helst varðar. Starfshópurinn skal leitast við að kalla til hæfustu menn þjóðarinnar á þessu sviði til að sækja frá þeim hugmyndir sem að nýtast geta í þessu starfi. Starfshópurinn skal skila áliti fyrir áramót. Afgreiðslu frestað.

10. Fræðslustjóri rifjaði upp helstu skref sem hafa verið stigin til framfara í málefnum grunnskólans frá yfirfærslu málflokksins frá ríki til sveitarfélaganna og hvers má vænta á næstu árum.

Erna Sveinbjarnardóttir hvarf af fundi kl 14.14

Fundi slitið kl. 14.20

Hrannar Björn Arnarsson
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson
Helgi Hjörvar Eyþór Arnalds