Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2013, 4. september, var haldinn 44. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Eva Einarsdóttir, varaformaður (Æ), Hilmar Sigurðsson (S), Kristín Erna Arnardóttir (S), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Ragnar Hansson (Æ) og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum og Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að frá og með áramótum 2013-2014 verði starfrækt safnfrístund fyrir börn í 3. og 4. bekk í Laugarnesskóla og Langholtsskóla í húsnæði Reykjavíkurborgar í Laugardalnum. Frístundamiðstöðin Kringlumýri mun bera ábyrgð á starfseminni sem byggir á góðri reynslu Frostheima í Vesturbænum og Hraunheima í Breiðholti. Lögð verði áhersla á að koma til móts við getu og þarfir átta og níu ára gamalla barna með fjölbreyttu, skemmtilegu og þroskandi frístundastarfi. Lagt er til að sett verði á laggirnar sérstakt foreldraráð sem taki virkan þátt í að móta starfið.
Greinargerð fylgdi. SFS2013080259
Auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. ágúst 2013, varðandi Bólstaðahlíð 47, Háteigsskóla, breyting á deiliskipulagi.
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu um safnfrístund fyrir nemendur í 3. og 4.bekk í Laugarnesskóla og Langholtsskóla til umfjöllunar skólaráða og stjórna foreldrafélaga nefndra skóla.

2. Lögð fram skýrsla starfshóps um aðkomu foreldra að ráðningum skólastjórnenda í leikskólum og grunnskólum Reykjavíkurborgar, dags í júní 2013. SFS2012040185
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir tillögur starfshóps um frekari aðkomu foreldra að ráðningarferli skólastjórnenda og felur sviðsstjóra að koma þeim í framkvæmd.
Samþykkt með 4 atkvæðum, Líf Magneudóttir, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfús-dóttir sátu hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna telur að meirihlutinn byrji á öfugum enda varðandi aðkomu foreldra að skólastjórnendaráðningum. Ef raunverulegur vilji er fyrir hendi að innleiða aðkomu þeirra, skólaráðs og starfsmanna skólans og nemenda að ráðningu skólastjóra myndi hann beita sér fyrir breytingum á borgarstjórnarsamþykktum. Þann vilja virðist vanta. Fulltrúi Vinstri grænna situr því hjá til að lýsa óánægju sinni á verklagi sem er hvorki fugl né fiskur og frekar þunnur þrettándi. Því skal hins vegar haldið til haga að fulltrúinn styður af heilum hug aukið íbúalýðræði og aðkomu foreldra, starfsfólks, nemenda og skólaráðs, ásamt skrifstofu skóla- og frístundasviðs og pólitískt kjörinna fulltrúa, að ráðningu skólastjóra. Fulltrúinn kallar eftir raunverulegum aðgerðum og minna sýndarlýðræði.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Upphaf málsins má rekja til tillöguflutnings fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði 18. apríl og 15. ágúst 2012. Markmið upphaflegrar tillögu er að stuðla að því að tekið verði upp virkt samráð við foreldrafélög í borginni við ráðningar skólastjóra en eftir sem áður annist skóla- og frístundaráð umræddar ráðningar og beri ábyrgð á þeim eins og kveðið er á um í samþykktum ráðsins. Ljóst er að fyrirliggjandi tillaga meirihlutans gengur allt of skammt og felur ekki í sér raunverulegt samráð við foreldra vegna ráðningar skólastjóra og sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins því hjá við afgreiðslu hennar. Eina breytingin frá því sem nú er, felst í því að áður en skjólastjórastaða sé auglýst, fái fulltrúar í skólaráði/foreldraráði tækifæri til að koma með tillögur um hæfniskröfur og einstaka áhersluþætti fyrirhugaðrar auglýsingar til viðbótar því sem lög gera kröfur um. Slík umsögn einstakra skólaráðsfulltrúa um kröfur í auglýsingu verður einungis ráðgefandi og tillögur þar að lútandi þurfa því að hljóta náð fyrir augum embættismanna á hinu miðstýrða skóla- og frístundasviði til að verða að veruleika. Um afar litla breytingu er því að ræða og þótt hún kunni að vera jákvæð í sjálfu sér, er engin trygging fyrir því að samráð aukist við foreldra í raun og veru. Vilji borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins stendur til þess að koma á raunverulegu samráði við foreldra vegna skólastjóraráðninga enda eru slíkar ráðningar meðal hinna mikilvægustu, sem teknar eru í þágu hvers skóla og viðkomandi íbúahverfis. Mikilvægt skref í þá átt væri að gefa foreldrum kost á að hitta umsækjendur um stöðu skólastjóra, heyra viðhorf þeirra til skólastarfs og gefa foreldrunum kost á að koma ábendingum um ráðninguna á framfæri við kjörna fulltrúa áður en ákvörðun um ráðningu er tekin. Slíkt samráð tíðkast víða erlendis og hefur þar gefið góða raun. Í tillögu meirihlutans er ekki með neinum hætti gert ráð fyrir slíku samráði við foreldra. Afgreiðsla þessarar tillögu Sjálfstæðisflokksins er enn ein staðfesting þess að Samfylkingin og Besti flokkurinn hafa ekki raunverulegan áhuga á því að auka samstarf við foreldra í skólamálum og styðja við aðkomu þeirra að lykilákvörðunum þrátt fyrir að því hafi verið lofað í samstarfsyfirlýsingu þessara flokka.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar þakka starfsfólki skóla- og frístundasviðs, fulltrúum skólastjórnenda í leikskólum og grunnskólum sem og fulltrúum Samfok og Barnanna okkar fyrir góðar og vandaðar tillögur að aukinni aðkomu foreldra að ráðningum stjórnenda í leik- og grunnskólum í gegnum foreldra- og skólaráð. Tillögunum er fagnað enda stígur Reykjavíkurborg jákvætt skref í lýðræðisátt og skapa frábært tækifæri fyrir foreldra í leikskólum og grunnskólum til að koma sinni sýn á þróun skóla barna sinna á framfæri. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar undrast að upphaflegir tillöguflytjendur, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, samþykki ekki þetta jákvæða skref sem jafn vandlega var undirbúið af fulltrúum foreldra, stjórnenda og starfsfólki sem best þekkir til.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 21. ágúst 2013:
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að undirbúningur verði hafinn við endurbætur á skólalóð Ölduselsskóla með það að markmiði að framkvæmdir geti farið fram á árinu 2014. Þá þarf sem fyrst að bæta aðkomu að skólanum fyrir bíla og fólksflutningabifreiðar í þágu umferðaröryggis barna.

Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina tillögu Sjálfstæðisflokksins um endurbætur á skólalóð Ölduselsskóla til umhverfis- og skipulagsviðs. Þó er ekki tekin afstaða til þess hvar í forgangsröðun Ölduselsskóli eigi að vera og er því treyst að faglegt mat með yfirsýn að leiðarljósi ráði því hvar í röðinni skólar og skólalóðir eru settar þegar kemur að viðhaldi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi málsmeðferðartillögu í trausti þess að slík skoðun leiði til að sem fyrst verði ráðist í viðeigandi úrbætur á skólalóð Ölduselsskóla með það að markmiði að framkvæmdir geti farið fram á árinu 2014. Þá þarf sem fyrst að bæta aðkomu að skólanum fyrir bíla og fólksflutningabifreiðar í þágu umferðaröryggis barna. Við lýsum hins vegar yfir furðu okkar með að fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins skuli ekki treysta sér til að taka afstöðu til þess hvaða viðhalds- og endurbótaverkefni eigi að vera í forgangi í skólum borgarinnar. Bágborið ástand skólalóða í Breiðholti hefur verið til umræðu árum saman og hafa borgarfulltrúar fengið mörg tækifæri og nægan tíma til að kynna sér málin. Flestum borgarfulltrúum ætti því að vera kunnugt um réttmæti þess að endurbætur á skólalóðum Ölduselsskóla og Breiðholtsskóla verði settar í forgang. Á sama tíma og viðhald þessara skólalóða hefur setið á hakanum hefur borgarstjórnarmeirihlutinn sett mörg önnur minna brýn verkefni í forgang fyrir hundruð milljóna króna; viðbótarframlög í Hörpuna, breytingar á gatnakerfi í miðborginni, kaup á BSÍ-húsinu og framkvæmdir á Hofsvallagötu svo nokkur dæmi séu nefnd.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins árétta að viðhaldsmál og framkvæmdir tengdar skólum og frístundastarfi eru undir stöðugu eftirliti og í vinnslu hjá umhverfis- og skipulagssviði, í nánu samtali við skóla- og frístundasvið. Síðastliðið ár hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komið fram á hverjum fundi skóla- og frístundaráðs með tillögur að endurbótum ýmissa skólalóða og margvíslegs skólahúsnæðis í borginni og í hvert sinn er talað um að forgangs- og bráðamál sé að ræða. Það ætti því öllum að vera ljóst að hjá þeim borgarfulltrúum skortir alla yfirsýn, raunsæi og nef fyrir því hvar raunveruleg þörf er á endurbótum og viðhaldi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það eru hrein og bein ósannindi að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi komið fram á hverjum fundi skóla- og frístundaráðs undanfarið ár með tillögur að endurbótum skólalóða og skólahúsnæðis í borginni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kannast þó vel við að mestallt frumkvæði í þessum málaflokki hafi komið frá þeim á kjörtímabilinu og flutt ýmsar tillögur þar að lútandi. Málaflokkurinn hefur verið vanræktur þar sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur forgangsraðað í þágu annarra verkefna.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2013, varðandi breytingu á rekstrarleyfi og drög að breyttu rekstrarleyfi fyrir sjálfstætt starfandi leikskólann Ársól. SFS2013080228
Samþykkt.

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2013 og drög að breyttu rekstrarleyfi fyrir sjálfstætt starfandi leikskólann Lund. SFS2013080225
Samþykkt.

6. Lögð fram drög að tímabundnum viðauki við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskólans Ársólar, vegna vistunar reykvískar barna. Auk þess lagður fram samningur leikskólasviðs, nú skóla- og frístundasviðs, við leikskólann, dags. 2. júní 2010. SFS201308228
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

7. Lögð fram drög að tímabundnum viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskólans Lundar, vegna vistunar reykvískar barna. Auk þess lagður fram samningur leikskólasviðs, nú skóla- og frístundasviðs við leikskólann, dags. 19. maí 2010. SFS2013080225
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna styður þessi úrræði til bráðabirgða og aukið fjármagn borgarinnar í 12 mánuði vegna aðstæðna sem ekki eiga sér hliðstæðu í Reykjavík. Stefna Vinstri grænna í málefnum daggæslu ungra barna er hins vegar skýr. Telur fulltrúinn brýnt að endurskoða kerfið og að borgarreknir leikskólar eigi að bjóða ungbörnum pláss þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur. Reykjavíkurborg ætti að leggja metnað sinn í að fjölga plássum leikskólabarna og taka inn yngri börn en nú er gert. Enn er staðan sú í Reykjavík að einungis börnum tveggja ára og eldri er boðin viðvera á leikskólum borgarinnar. Þegar upp koma vandamál í ungbarnaleikskólum kemur í ljós mikill veikleiki í núverandi kerfi Reykjavíkur sem hefur ekki bolmagn til að sinna þörfum ungra barna og reka kerfi sem býður upp á samfélagslegar lausnir.

8. Eftirlit með sjálfstætt starfandi leikskólum. Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu, skóla- og frístundasviði, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013090015

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið sendi sem allra fyrst upplýsingar í formi plastaðs veggspjalds um handþvott starfsmanna og barna í alla leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili og sjálfstætt starfandi skóla í Reykjavík. Markmiðið er að fækka veikindadögum barna og starfsmanna. Samhliða dreifingu á spjöldunum verði sendur netpóstur sem skýrir mikilvægi handþvotta fyrir þá sem starfa í skólum og leiðbeiningar um bestu aðferðina við að þvo hendur. Verkefnið nýti sér mynd sem unnin er af WHO og nýtt af Vinnuvernd en með einfaldari texta sem minnir starfsmenn og börn á að þvo hendur reglulega, t.d. Muna að þvo hendur alltaf vel með sápu.
Greinargerð fylgdi. SFS2013090011
Samþykkt.

10. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða starfsáætlunar skóla- og frístundasviðs 2013 auk skorkorts skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2013. SFS2013090013

11. Lagðar fram niðurstöður heildarmats sjálfstætt starfandi grunnskóla. Birna Sigurjónsdóttir verkefnastjóri heildarmats og Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu, skóla- og frístundasviði, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2013090014

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Heildarmat grunnskóla er samstarfsverkefni grunnskóla og skóla- og frístundasviðs og hefur farið fram í nær öllum grunnskólum borgarinnar síðastliðin sex ár, nú einnig í sjálfstætt starfandi grunnskólum. Heildarmatið er mikilvægt umbótatæki til að auka gæði í skólastarfi og varpa ljósi á skólastarf, tækifæri og áskoranir. Nú er einnig í innleiðingarferli heildarmat á leikskólastarfi, sem og mótun viðmiða um gæði í frístundastarfi. Höfuðáhersla skóla- og frístundasviðs er á styðjandi leiðsagnarmat, til að búa sem best að börnum og unglingum í skóla- og frístundastarfi. Skóla- og frístundaráð vill árétta að skólar geri niðurstöðurstöður heildarmats aðgengilegar foreldrum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að heildarmat grunnskóla sé vistað á heimasíðu skóla- og frístundasviðs.
Frestað.

12. Lögð fram skýrsla vegna tilraunaverkefnis um hegðunarráðgjafa, samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs og þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Miðgarðs, dags. 17. apríl 2013. Elísabet H. Pálmadóttir verkefnastjóri sérkennslu skóla- og frístundasviði og Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri Þjónustumiðstöð Breiðholts, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2013090006

13. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 26. júní sl., varðandi framfarastuðla reykvískra skóla. SFS2013090005

14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2013, varðandi stöðu tillagna sem settar voru fram á grundvelli skýrslu starfshóps um námsárangur drengja. SFS2011090170

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Á haustmánuðum 2011 voru samþykktar 10 tillögur um umbætur vegna skýrslu um námsárangur drengja. Í ljós kemur að aðeins ein tillaga er komin að fullu til framkvæmda í formi aðgerða. Þetta er alveg óásættanlegt nú þegar tvö ár eru liðin frá afgreiðslu og þegar 25#PR drengja útskrifast á ári hverju ólæsir sér til gagns og gamans. Ljóst er að málið er alls ekki í forgangi hjá meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

15. Lagt fram bréf, dags. 26. ágúst 2013, þar sem tilkynnt er að nýr áheyrnarfulltrúi stjórnenda í leikskólum í skóla- og frístundaráði sé Guðrún Gunnarsdóttir og varamaður Lilja Eyþórsdóttir. SFS2011090132

- Kl. 14:00 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.

16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir greiningu á læsisskimun fyrir einstök ár og fyrir 5 ára meðaltal flokkað út frá skólum sem nota byrjendalæsi og þá sem notað hafa aðrar aðferðir.

17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir lista yfir skóla borgarinnar sem stunda samkennslu.

18. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi foreldra leggur til að á Foreldravef Reykjavíkurborgar verði kynnt með áberandi hætti við hverja skal hafa samband ef foreldrar hafa áhyggjur eða vilja koma með ábendingar varðandi starfsemi leik- og/eða grunnskóla. Á sama stað mætti benda foreldrum á að þeir geti einnig haft samband við samtök foreldra.
Frestað.

Fundi slitið kl. 14.30

Eva Einarsdóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Kristín Erna Arnardóttir Líf Magneudóttir
Ragnar Hansson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir