Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

131. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 18. desember, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 131. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Ellert Borgar Þorvaldsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs og Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 15. des. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 3 mál (fskj 131, 1.1).

2. Ráðning skólastjóra við Víkurskóla og nýjan skóla í Grafarholti. Fyrir fundinum lágu útdrættir úr umsóknum, auglýsingar um stöðurnar og viðmið um mat á umsóknum (fskj. 130, 2.1) ásamt álitsgerð fræðslustjóra (fskj 130, 2.2) en hvort tveggja var lagt fram á síðasta fundi. Í auglýsingu um stöðurnar sagði að þessir skólastjórar yrðu ráðnir í 1/3 starfs frá 1. janúar 2001 og fullt starf frá 1. júní. Alls bárust 13 umsóknir um þessar stöður.

Sigrún Elsa vék af fundi undir þessum lið vegna tengsla við einn umsækjenda.

Fræðslustjóri gerði grein fyrir matsferli umsókna; samanburði á umsækjendum varðandi menntun, símenntun, kennslureynslu, stjórnunarreynslu, faglegt frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum. Matið byggir á umsóknum og öðrum gögnum frá umsækjendum, umsögnum meðmælenda og viðtölum umsækjenda við fræðslustjóra, starfsmannastjóra Fræðslumiðstöðvar og utanaðkomandi ráðgjafa sem er fyrrv. skólastjóri. Matið er dregið saman í álitsgerð fræðslustjóra og þar er lagt til að Guðlaug Sturlaugsdóttir verði ráðin skólastjóri nýs skóla í Grafarholti og Árný Inga Pálsdóttir verði ráðin skólastjóri Víkurskóla. Að þeim frátöldum er mælt með Helga Grímssyni í hvora stöðuna sem er.

Formaður fræðsluráðs lagði til að því yrði beint til borgarráðs að Guðlaug Sturlaugsdóttir verði ráðin skólastjóri að nýjum skóla í Grafarholti og Árný Inga Pálsdóttir skólastjóri Víkurskóla. Tillagan hlaut 2 atkvæði.

Fulltrúar sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu: Margir hæfir einstaklingar sóttu um stöður skólastjóra og er það fagnaðarefni. Sjálfstæðismenn telja að vali þessu væri best komið með forvali þar sem fræðsluráði gæfist tækifæri til að hitta valda umsækjendur. Í umsögn fræðslustjóra er mælt með þremur hæfum einstaklingum, en miðað við þau viðmið sem notast var við er augljóst að t.d. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sturla Kristjánsson eru einnig hæf til að sinna þessum störfum. Miðað við þau gögn sem fyrir liggja mælum við með Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Árnýju Pálsdóttur. Þessi tillaga hlaut 2 atkvæði. Ennfremur var eftirfarandi tillaga lögð fram: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að ráðningaferli verði breytt og ráðningarstofu verði falið að forvinna umsóknir sem að hafa borist, í samræmi við þau viðmið sem ráðið samþykkir, og velji úr þá aðila sem að til greina koma í stöðurnar. Fræðsluráð fari síðan yfir það mat og fundi með þeim aðilum sem að til greina koma áður en að ráðið tekur afstöðu. Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

3. Spurningalisti um líðan nemenda (sjá fskj. frá 130. fundi). Fram kom að nokkrar ábendingar hefðu þegar borist frá fulltrúum í fræðsluráði til þróunarsviðs sem annast könnunina.

4. Málefni tónlistarskóla. Lögð var fram til upprifjunar skýrslan Stefnumörkun um rekstur tónlistarskóla og skólahljómsveita í Reykjavík (fskj 4.2.) sem kynnt var í fræðsluráði í apríl í fyrra. Ennfremur lagði fræðslustjóri fram minnisblað um tónlistarskóla (fskj 4.1.) og reifaði framkvæmd stefnunnar, fjárframlög og yfirlit yfir starfsemi tónlistarskóla.

5. Drög að staðardagskrá 21 fyrir Reykjavík lögð fram. Umræðu frestað.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir, Eyþór Arnalds
Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson