Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

132. fundur

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 15. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 132. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Haraldur Finnsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs og Guðmundur Þór Ásmundsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. jan. sl., þar sem fram kemur að Eyþór Arnalds hefur óskað eftir að vera leystur frá störfum í fræðsluráði frá og með 1. janúar 2001. Jafnframt kemur fram að borgarstjórn samþykkti að Guðlaugur Þór Þórðarson tæki sæti Eyþórs Arnalds í fræðsluráði frá og með 1. janúar 2001. (fskj 132, 1.1). Formaður bauð Guðrúnu Pétursdóttur velkomna til starfa aftur að loknu leyfi.

2. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 12. jan. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 2 mál (fskj 132, 2.1).

3. Forstöðumaður þróunarsviðs lagði fram og kynnti minnisblað með niðurstöðum samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk sem borist hafa frá RUM og greinast eftir skólum í Reykjavík. Jafnframt voru kynntar upplýsingar um niðurstöður sömu prófa í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur í framhaldi af ósk sem sett var fram á 130. fundi fræðsluráðs. (fskj 132, 3.1). Fulltrúar minnihluta lögðu fram eftirfarandi tillögu: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðsluráði leggja til að Fræðslumiðstöð verði falið í samráði við viðkomandi skólastjórnendur að greina helstu ástæður góðs árangurs á samræmdum prófum. Markmiðið er að reyna að nýta það sem skilað hefur góðum árangri í fleiri skólum. Tillögunni fylgir greinargerð. Samþykkt samhljóða.

4. Kynnt voru helstu atriði úr nýgerðum kjarasamningi sem nú er til kynningar hjá kennurum og skólastjórnendum. Meirihluti lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð lýsir sérstakri ánægju sinni með nýgerða kjarasamninga grunnskólakennara og sveitarfélaganna. Með samningunum eru stigin fjölmörg skref sem auðvelda þá vinnu sem framundan er til að grunnskólar Reykjavíkur verði meðal bestu skóla innan lands sem utan. Fræðsluráð lýsir einnig mikilli ánægju með þau vinnubrögð sem samningsaðilar viðhöfðu í samningagerðinni og þann jákvæða anda sem í því samstarfi ríkti.

5. Fræðsluráð samþykkir að fela Fræðslumiðstöð að koma með tillögu að útfærslu á Hvatningarverðlaunum, sem veitt verði árlega einum eða fleiri grunnskólum í Reykjavík fyrir góðan árangur í einhverjum þætti innra starfs skólans.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Guðrún Pétursdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðlaugur Þór Þórðarson