Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

133. fundur

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 29. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 133. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ellert Borgar Þorvaldsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar og Guðmundur Þór Ásmundsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 25. jan. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 6 mál (fskj 133, 1.1).

2. Forstöðumaður fjármálasviðs lagði fram og kynnti niðurstöður rekstrarkostnaðar ársins 2000 (fskj 133, 2.2). Einnig var kynnt yfirlit yfir markmið í starfsáætlun ársins 2000 (fskj 133, 2.1). Fræðsluráð fagnar góðri fjármálastjórn árið 2000 hjá Fræðslumiðstöð og grunnskólum borgarinnar. Útkoman sýnir að fjárhagsáætlun ársins stenst fullkomlega.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð samþykkir að beina því til borgarráðs að fært verði milli ára hjá skólum og skyldum stofnunum fjárheimildir sem ekki voru nýttar á árinu sem og umframkostnað. Þannig verði skólum umbunað fyrir að sýna aðhald í rekstri.

Fulltrúar R lista lögðu fram eftirfarandi frávísunartillögu: Á undanförnum árum hefur á vegum borgarinnar verið unnið að mótun vinnureglna sem tryggja stofnunum borgarinnar umbun eða refsingu í samræmi við árangur þeirra við að standast fjárhagsramma. Fyrstu skrefin voru stigin þegar á síðasta ári og í undirbúningi eru frekari skref á þessu ári. Fulltrúar R lista eru því efnislega sammála tillögu Sjálfstæðismanna enda framkvæmdin þegar komin á gott skrið hjá Fræðslumiðstöð. Tillagan er hinsvegar full seint fram komin og henni því vísað frá. Frávísunartillagan samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Vinnubrögð R listans eru vægast sagt sérkennileg. Farið er fram á að orðalagi tillögunnar verði breytt þannig að þeir geti stutt hana en síðan er tillögunni vísað frá þrátt fyrir að fulltrúar R listans séu “efnislega samþykkir” efni hennar. Það hefur ýmislegt verið unnið á vegum borgarinnar en það liggur alveg fyrir að það hefur ekki verið samþykkt að færa á milli ára eins og tillagan gerir ráð fyrir. Embættismenn hafa staðfest hér á fundinum að engin ákvörðun liggur fyrir um slíkt og að innan borgarkerfisins eru skiptar skoðanir um málið. Frávísunartillaga R listans er því alveg furðuleg. Fulltrúar R listans lögðu fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð og Fræðslumiðstöð hafa unnið samkvæmt markvissri stefnu að efla fjárhagslegt sjálfstæði skóla borgarinnar. Starfsáætlanir undangenginna ára sýna það og sanna. Um 120 milj. krónum hefur verið veitt aukalega til skólanna til að styrkja stjórn þeirra. Fjármálastjóri situr í nefnd í Ráðhúsinu sem m.a. vinnur að því að finna leiðir til að flytja fjármagn milli ára, (bæði plúsa og mínusa). Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Bókun R listans staðfestir enn frekar sem áður hefur komið fram að engin ákvörðun liggur fyrir um málið og því ætti fræðsluráð að koma fram með sína skoðun. Fulltrúar Rlista lögðu fram eftirfarandi bókun: Það eina sem vekur furðu í máli þessu er vanþekking Sjálfstæðismanna á því starfi sem unnið er í borgarkerfinu og á vettvangi Fræðslumiðstöðvar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Eru fulltrúar R listans að halda því fram að embættismenn fræðsluráðs hafi farið með rangt mál á fundinum? Fulltrúar R lista lögðu fram eftirfarandi bókun: Þessi fyrirspurn er óskiljanleg og því ekki svara verð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Hér hefur verið staðfest hvað eftir annað á fundinum meðal annars af embættismönnum að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að færa á milli ára eins og tillagan gerir ráð fyrir. Þess vegna er tillagan borin fram. Ef að fulltrúar R listans eru með aðrar upplýsingar þá ættu þeir að upplýsa um slíkt en það hafa þeir ekki gert. Fulltrúar R lista lögðu fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð hefur haft þá skoðun í nokkur ár að nauðsynlegur liður í sjálfstæði skóla væri að flytja mætti fjármagn á milli ára og sem með sama hæti yrði tekið af þeim sem færu fram úr áætlunum. Það kom fram á þessum fundi að unnið er samkvæmt þessari yfirlýstu stefnu fræðsluráðs. Hins vegar er það rétt að einhverjar stofnanir hjá borginni gjalda varhug gagnvart þessari stefnu.

3. Deildarstjóri kennsludeildar lagði fram og kynnti yfirlit um skólavist barna utan lögheimilissveitarfélags (fskj 133, 6.1) bæði varðandi nemendur með lögfesti í Reykjavík í námi annarsstaðar og öfugt.

4. Fræðslustjóri kynnti skiptingu ábyrgðar á verkefnum í starfsáætlun 2001 (fskj 133, 3.1).

5. Fræðslustjóri kynnti upplýsingar úr drögum að frumvarpi að þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2002 – 2004, þ.e. þann hluta sem snýr að fræðslumálum og eignabreytingum fræðslumála (fskj 133, 4.1). Fram kom að drögin hafa verið send foreldraráðum og skólunum til kynningar.

6. Umsóknir um styrki fræðsluráðs 2001 kynntar (fskj 133, 5.1).

7. Áætlun um fundi fræðsluráðs á vorönn 2001 kynnt (fskj 133, 7.1).

Fundi slitið kl. 14.25

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Jóna Gróa Sigurðardóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðlaugur Þór Þórðarson