Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 12. mars, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 136. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Kristján Guðmundsson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Haraldur Finnsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar, og Guðmundur Þór Ásmundsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram leiðrétt fundargerð 135. fundar.

2. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 9. mars sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 3 mál (fskj 136, 1.1).

3. Lögð fram til kynningar skýrslan Fjölmenningarlegt samfélag - Stefna Reykjavíkurborgar 2001 - 2004 (fskj 136, 2.1)

4. Tillögur starfshóps um ráðningamál kennara sem lagðar voru fram á 134. fundi ráðsins teknar til afgreiðslu (fskj 134, 5.1).

Fyrir lá eftirfarandi bókun formanns frá 134. fundi:

Fræðsluráð fagnar tillögum starfshóps undir forystu fræðslustjóra um aðgerðir til að styrkja nýliðun grunnskólakennara í Reykjavík. Fræðsluráð trúir því og treystir að með þessum markvissu aðgerðum og nýsamþykktum kjarasamningi við grunnskólakennara verði unnt að manna skólana með reisn næsta haust. Hinsvegar er rétt að ítreka þá staðreynd að ef spá um nemendafjölda næsta hausts gengur eftir þurfum við 25 nýja kennara í Reykjavík og þá erum við einnig að fjölga stöðugildum inni í grunnskólunum um 25 á þessi ári óháð nemendaaukningu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Sjálfstæðismenn fagna þeirri áherslu sem hér er lögð á mikilvægi þess að laða kennara til starfa, og sjálfstæðismenn taka undir þær óskir að þessar aðferðir beri góðan árangur. Það vekur hins vega athygli að engar aðgerðir eru áformaðar um hvernig ná megi til kennara sem horfið hafa til annarra starfa. Full þörf er á að finna leiðir til að ná til þessa hóps, kanna ástæður fyrir starfsvali og möguleika á að þeir kunni að fást aftur til kennslu.

Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Í tillögum starfshópsins er fyrst og fremst verið að fjalla um almennar aðgerðir, en sjálfsagt er að leita annarra leið.

5. Fjárhagslegt sjálfstæði skóla. Teknar fyrir tillögur forstöðumanns fjármálasviðs um reiknilíkan vegna skiptingar fjármagns milli skóla, sem frestað var frá síðasta fundi (fskj 135, 3.1).

Hannes Þorsteinsson, Guðmundur Þór Ásmundsson og Haraldur Finnsson hurfu af fundi kl 12:45. Runólfur Birgir Leifsson tók við fundarritun.

Í máli forstöðumanns fjármálasviðs kom fram að haldinn hafi verið kynningarfundur með skólastjórum um nýja reiknilíkanið frá síðasta fræðsluráðsfundi, auk þess sem tillögurnar ásamt greinargerð voru sendar foreldraráðum til kynningar.

Fræðsluráð samþykkti tillögurnar og eftirfarandi bókun:

Fræðsluráð fagnar mjög þessu nýja reikniviðmiði sem tekur mið af nemendafjölda í stað fjölda bekkjardeilda. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða á útdeilingu fjármagns og enn eitt skref stigið til fjárhagslegs sjálfstæðis skóla. Fræðsluráð beinir því til forstöðumanns fjármálasviðs að heildstæðir skólar (með 1.- 10. bekk) með undir 150 nemendur verði þó skoðaðir sérstaklega hverju sinni. Þegar fjárhagsáætlun skóla tekur mið af nemendafjölda í stað bekkjardeilda, bæði hvað varðar kennslu og annan rekstur, hlýtur það að auðvelda mjög gerð skólasamninga.

Fulltrúi foreldra óskar eftir að fá upplýsingar um forsendur útreiknings á félagslegum stuðli sem notaður er við úthlutun stjórnunarkvóta til skólanna. Honum var bent á að þetta tengist ekki nýja reiknilíkaninu.

6. Deildarstjóri kennsludeildar kynnti drög að viðmiðum um skólabyggingar (fskj 136, 6.1). Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

7. Fræðslustjóri sagði frá för sinni á árlega ráðstefnu fræðslustjóra í Bandaríkjunum sem haldin var í Orlandó á Flórída, 16.-18. febrúar sl.

8. Formaður lagði til að Húsaskóli fái 150.000 kr. í styrk af styrkjum fræðsluráðs í tilefni af 10 ára afmæli skólans. Samþykkt.

Fundi slitið kl. 14.00

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Kristján Guðmundsson
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir