Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 7. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Myndveri Réttarholtsskóla og var þetta 140. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Árni Þór Sigurðsson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Haraldur Finnsson, fulltrúi skólastjóra, Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri nýs skóla í Grafarholti, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs og Birgir Björn Sigurjónsson, forstöðumaður kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir deildarstjóri kennsludeildar og Guðmundur Þór Ásmundsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Skólastjóri Réttarholtsskóla bauð fundarmenn velkomna og kynnti tónlistaratriði þar sem tveir nemendur úr Allegro Suzukitónlistarskólanum léku fyrir fundarmenn.

2. Óskar Ísfeld Sigurðsson gerði athugasemd við síðustu fundargerð, lið 7 og óskaði að bókuð yrði upphaflega tillagan sem formaður lagði fram á fundinum. Upphaflega tillagan var svohljóðandi: Fræðsluráð beinir því til skólastjóra að þegar skóladagatal hefur fengið tilskylda umfjöllun og verið samþykkt í kennararáði, á almennum kennarafundi og hjá foreldraráði viðkomandi skóla, sé það sent til Fræðslumiðstöðvar ásamt bréfi þar sem gerð er grein fyrir því hvernig viðbótarkennsludögunum tíu er ráðstafað, og hvort og þá hve margir kennsludagar nemenda verða skertir. Mikilvægt er að skapa samstöðu í samfélagi hvers skóla um að nýta vel það viðbótarkennslumagn sem samið hefur verið um. Fræðsluráð telur brýnt að allir 180 kennsludagarnir séu vel nýttir og gerir kröfu um að sem flestir umræddra tíu viðbótardaga séu heilir nemendadagar. Ráðið telur eðlilegt að skóli geti gert undantekningu þar á sem nemur allt að 5 dögum t.d. vegna skólasetningar, skólaslita eða foreldraviðtalsdaga, ef samstaða er um það í skólasamfélaginu.

Formaður óskaði eftir að sú tillaga sem samþykkt var á 139. fundi verði bókuð inn aftur. Fræðsluráð beinir því til skólastjóra að þegar skóladagatal hefur fengið tilskylda umfjöllun í kennararáði, á almennum kennarafundi og hjá foreldraráði viðkomandi skóla, sé það sent til Fræðslumiðstöðvar ásamt bréfi þar sem gerð er grein fyrir því hvernig hinum 180 skóladögum nemenda sé ráðstafað.

Fulltrúar kennara lögðu fram eftirfarandi bókun varðandi sama atriði: Á fundi fræðsluráðs Reykjavíkur 23. apríl 2001 var lögð fram tillaga að bókun um skóladagatöl skólaársins 2001-2002. Miklar umræður urðu um tillöguna og voru gerðar athugasemdir við mörg atriði í henni. Niðurstaða umræðna var ásættanleg fyrir alla aðila og virtist um hana einhugur. Í framhaldi af þeirri afgreiðslu voru ágreiningsefnin sem í tillögunni voru sett í greinargerð og tillagan ásamt greinargerðinni send skólastjórum. Viðbrögð frá nokkrum skólum hafa verið í samræmi við það sem varað var við í umræðunum. Þessi vinnubrögð vekja upp þá spurningu hvort þörf sé á umræðum um tillögur í fræðsluráði þegar breytingar sem ráðið gerir á þeim eru nánast að engu hafðar í úrvinnslu fundargagna.

3. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags 4. maí s.l. um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 4 mál (fskj 140. 1.1).

4. Lögð var fram umsögn fræðslustjóra til fræðsluráðs um erindi Waldorfskólans Sólstafa til borgarráðs um fjárframlag til byggingar skólahúss ásamt fyrirspurn Waldorfskólans til borgarráðs og erindi borgarstjóra um umsögn. (fskj 140, 2.1, 2.2 og 2.3). Fræðsluráð samþykkir umsögnina og vísar henni til borgarráðs.

5. Tekin var til afgreiðslu tillaga sjálftæðismanna frá 138. fundi fræðsluráðs um starfshóp til að vinna að hugmyndum um árangurstengingar launa kennara. Formaður lagði fram eftirfarandi frávísunartillögu: Laun kennara verða ekki árangurstengd nema að ákvæði í kjarasamningi mæli fyrir um slíkt. Við gerð síðustu kjarasamninga við kennara var stigið mikilvægt skref í átt til árangurstengingar launa kennara (grein 1.3.2), en þar er í raun verið að ákvarða laun eftir verkaskiptingu og frammistöðu. Starfshópur á vegum fræðsluráðs getur ekki tekið ákvörðun um árangurstengingu launa kennara, enda ber Reykjavíkurborg að fylgja í öllu ákvæðum gildandi kjarasamnings milli Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Nýsamþykktur kjarasamningur gildir til mars 2004. Fulltrúum í fræðsluráði er fullkunnugt um að fagnefndir borgarinnar hafa ekkert með launa- og/eða kjaramál að gera. Tillagan hæfir því hvorki stund né stað og er því vísað frá. Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2. Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun: Tillaga sjálfstæðismanna gekk ekki út á það að fræðsluráð taki ákvörðun um árangurstengingu launa kennara, heldur er ætlunin að styðja við þá þróun sem hafin er með grein 1.3.2. í kjarasamningnum. Sjálfstæðismenn fagna undirtektum formanns samninganefndar sveitarfélaga um að tillögunni verði vísað til samningsaðila, þ.e. Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga og leggjum við til að svo verði gert. Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð leggur til við borgarráð að það vísi tillögu sjálfstæðismanna um árangurslaun kennara til samningsaðila, þ.e. launanefndar sveitarfélaga og kennara. Afgreiðslu frestað.

6. Lagt fram minnisblað frá forstöðumanni þróunarsviðs um skóladagatöl 5 skóla (fskj 140, 4.1). Fræðsluráð staðfesti dagatölin.

7. Ráðningarmál a) Lagðar fram upplýsingar um umsóknir um auglýsta stöðu skólastjóra Fellaskóla. Einn umsækjandi var um stöðuna (fskj 140, 5.1). Fræðsluráð samþykkir að beina því til borgarráðs að ráða Þorstein Hjartarson til starfsins. b) Lagðar fram upplýsingar um umsóknir um auglýsta stöðu aðstoðarskóla-stjóra Hamraskóla. Einn umsækjandi var um stöðuna (fskj 140, 5.2). Fræðsluráð samþykkir að ráða Auði Hrólfsdóttur til starfans. c) Lagðar fram upplýsingar um umsóknir um auglýsta stöðu aðstoðarskóla-stjóra nýs skóla í Grafarholti ásamt útdrætti úr umsóknum. Tveir umsækjendur voru um stöðuna (fskj 140, 5.3). Lagt var fram álit fræðslustjóra vegna ráðningarinnar (fskj 140, 5.4) og tillaga skólastjóra skólans um ráðningu (fskj 140, 5.5). Fræðsluráð samþykkir að ráða Þuríði Guðrúnu Sigurjónsdóttur til starfans. d) Lagðar fram upplýsingar um umsóknir um auglýsta stöðu skólastjóra Laugarnesskóla ásamt útdrætti úr umsóknum. Fimm umsækjendur voru um stöðuna (fskj 140, 5.6). Afgreiðslu frestað. e) Lögð fram viðmið um val á milli umsækjenda um skólastjórastöður frá 1996 (fskj 140, 5.7) og ferilslýsing Fræðslumiðstöðvar um ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra (fskj 140, 5.8).

Tekin var til afgreiðslu tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem hann lagði fram á 131. fundi ráðsins þann 18. desember 2000 um breytingar á ráðningarferli skólastjóra. Formaður lagði fram eftirfarandi frávísunartillögu: Í samþykkt fyrir fræðsluráð frá 1996 segir: "Borgarráð ræður skólastjóra að fenginni tillögu fræðsluráðs. Fræðsluráð ræður aðstoðarskólastjóra að fenginni tillögu skólastjóra. Fræðsluráð kallar eftir áliti kennararáðs viðkomandi skóla og fræðslustjóra vegna ráðningar skólastjóra og aðstoðarskólastjóra." Fræðslustjóri hefur lagt fram ferilslýsingu vegna ráðninga svo og viðmið um ráðningar sem hún vinnur eftir. Fræðsluráð telur ekki ástæðu til að breyta þessu ferli, en bendir á að fulltrúar í ráðinu geta auðveldlega boðað umsækjendur til funda við sig til að auðvelda ákvörðun um ráðningu. Tillögu sjálfstæðismanna er því vísað frá. Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2.

8. Lögð fram greinargerð um stöðu starfs- og fjárhagsáætlunar eftir fyrsta ársfjórðung 2001 ( fskj 140, 6.1). Umfjöllun frestað til næsta fundar.

9. Forstöðumaður Myndvers í Réttarholtsskóla kynnti starfsemi versins.

10. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu um stofnun tungumálavers: Fræðsluráð samþykkir að setja á laggirnar tungumálaver í Laugalækjarskóla, þar sem fari fram m.a. þróun og framkvæmd fjarkennslu í tungumálum auk kennsluráðgjafar í norsku og sænsku. Tillögunni fylgdi greinargerð. Samþykkt samhljóða.

11. Lagt fram minnisblað frá deildarstjóra kennsludeildar og forstöðumanni þróunarsviðs um ráðgjöf um þróun kennsluhátta og upplýsinga- og samskiptatækni í skólastarfi (fskj 140, 9.1). Umfjöllun frestað.

Fundi slitið kl. 14.30

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Þór Sigurðsson Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðrún Pétursdóttir