Skóla- og frístundaráð
Fræðsluráð
Ár 2001, þriðjudaginn 26. júní, kl. 10.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð og var þetta 145. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Pétursdóttir. Guðrún Erla Geirsdóttir mætti kl. 10.35. Auk þeirra sátu fundinn Haraldur Finnsson, fulltrúi skólastjóra, Elín Vigdís Ólafsdóttir og Finnbogi Sigurðsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, og Óskar Ísfeld Sigurðsson fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs og staðgengill fræðslustjóra, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri, og Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 21. júní sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 1 mál (fskj 145, 1.1).
2. Greinargerð um átak til bættrar umgengni í skólum lögð fram (fskj 3.1). Sjö skólum hafði verið úthlutað viðurkenningu fyrir góða umgengni veturinn 2000-2001.
3. Minnisblað um niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk 2001 kynnt (fskj 4.1). Rætt um nýtingu niðurstaðna og þörfina fyrir fleiri mælitæki til nota í skólastarfi.
4. Samræmd próf vorið 2002 (fskj 144, 5.1). Að ósk skólastjóra var rætt um frestun á samræmdu prófi í samfélagsgreinum. Fræðsluráð samþykkti einróma eftirfarandi bókun: Tilkynning um niðurfellingu samræmds prófs í 10. bekk í samfélagsgreinum vorið 2002 barst skólastjórum með bréfi dags. 16. maí sl. Þá höfðu nemendur 10. bekkjar og foreldrar þeirra þegar fengið upplýsingar um skólastarf næsta vetrar og nemendur valið námsáfanga, m.a. á grundvelli fyrri ákvörðunar um samræmd próf. Fræðsluráð hefur lagt áherslu á gott samstarf heimila og skóla og telur mikilvægt að nemendur og foreldrar hafi ætíð sem bestar upplýsingar um skólastarf. Því beinir fræðsluráð þeirri ósk til menntamálaráðuneytisins að svo veigamiklar ákvarðanir varðandi skipulag skólastarfs liggi fyrir í byrjun hvers skólaárs varðandi skipulag næsta skólaárs, þ.e. með a.m.k. árs fyrirvara.
5. Ráðning skólastjóra Langholtsskóla. Starfsmannastjóri kynnti umsóknir um stöðuna sem voru fjórar talsins (fskj 2.1) en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka (fskj 2.2). Starfsmannastjóri lagði fram álitsgerð vegna ráðningarinnar (fskj 2.3). Lagt var fram bréf frá kennararáði Langholtsskóla (fskj 2.4). Samþykkt einróma að mæla með við borgarráð að Hreiðar Sigtryggsson verði ráðinn til starfsins.
6. Minnisblað um skóladagatöl 2001-2 lagt fram af forstöðumanni þróunarsviðs (fskj 6.1). Fræðsluráð staðfesti einróma skóladagatöl 18 skóla.
7. Fjárhagsrammi 2002 (fskj 7.1). Formaður fræðsluráðs lagði fram rammann og fól fræðslustjóra að vinna að fjárhags- og starfsáætlun á grundvelli hans. Hækkun framlaga til fræðslumála frá fjárhagsáætlun fyrra árs nemur tæplega 1,8 milljarði króna eða sem samsvarar 28,2%.
8. Breyting borgarráðs dags. 29. fyrra mánaðar á fjárhagsáætlun 2001 vegna kjarasamninga var kynnt af formanni fræðsluráðs og nemur hækkun fjárframlags 775.699 þús. króna.
9. Hækkun á styrkjum til einkaskóla. Forstöðumaður fjármálasviðs kynnti tilllögu um hækkun í 218.500 kr. á nemanda skólaárið 2001-2002 m.v. 9,5 mánaða starfstíma, sem er 25,57% hækkun frá fyrra ári (fskj 9.1 og 9.2). Formaður lagði fram tilllöguna sem var samþykkt samhljóða. Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun: Sjálfstæðismenn ítreka enn þá afstöðu sína, að reykvísk börn eigi að sitja við sama borð hvað varðar greiðslur borgarinnar til grunnskóla hvort sem þau ganga í svokallaða einkaskóla eða almenna grunnskóla. Nú þegar reiknilíkan hefur verið sett fram til að áætla kostnað við kennslu hvers grunnskólanema, er eðlilegt að miða við þá fjárhæð og gera ekki upp á milli nemenda. Með tilliti til aukinnar áherslu á sjálfstæði skóla, skýtur skökku við að borgin refsi með lægri framlögum þeim skólum sem sýnt hafa sérstakt frumkvæði og áunnið sér traust borgarbúa um áratuga skeið. Ekki verður fallist á, að eðlilegt sé að miða framlögin við þær skertu greiðslur sem fylgja nemendum sem sækja skóla í öðrum sveitarfélögum. Hér er um að ræða reykvíska nemendur í reykvískum skólum og börnin og forráðamenn þeirra eiga rétt á sambærilegum greiðslum og önnur börn í sveitarfélaginu njóta, án tillits til þess hver rekstraraðili skólans er. Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð var að samþykkja mikla hækkun á framlögum til einkaskóla eða 25,57% frá síðasta skólaári. Framlög til einkaskóla hafa meira en tvöfaldast frá skólaárinu 1997-8. Þá er rétt að ítreka það enn einu sinni að fræðsluyfirvöld í Reykjavík greiða sömu upphæð með reykvískum nemendum hvort heldur þeir kjósa að stunda nám utan hverfisskóla á Seltjarnarnesi, Akureyri eða í Landakotsskóla.
Guðlaugur Þór Þórðarson fór af fundi kl. 11.45.
10. Bréf frá Borgarskipulagi um aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2001-2024 (fskj 10.1). Fræðsluráð samþykkti einróma eftirfarandi bókun: Fræðsluráði hefur borist bréf frá Borgarskipulagi með drögum og hugmyndum að Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001-2024. Mikilvægt er að hafa í huga þörf fyrir skólahúsnæði í þeim hverfum þar sem þétting byggðar er fyrirhuguð sem og í væntanlegum nýjum hverfum s.s. á Gufuneslóðinni. Þess vegna óskar fræðsluráð eftir kynningu á drögum og hugmyndum að Aðalskipulagi í ágúst n.k.
11. Úrskurður vegna brottvikningar nemanda úr Árbæjarskóla. Kristbjörg Stephensen, fulltrúi borgarstjórnar, kynnti kæru forráðamanns nemanda á hendur skólastjóra Árbæjarskóla vegna tímabundinnar brottvikningar nemanda úr skóla, og rakti meðferð málsins. Fræðsluráð samþykkti samhljóða eftirfarandi úrskurðarorð: Kröfu kæranda, um að ákvörðun skólastjóra Árbæjarskóla um að víkja viðkomandi nemanda úr skóla tímabundið í allt að eina kennsluviku verði úrskurðuð ólögmæt og felld úr gildi, er hafnað.
Fundi slitið kl. 12.10
Sigrún Magnúsdóttir
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir