No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2008, 9. apríl kl. 13:30 var haldinn 33. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Áslaug Friðriksdóttir, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, Ragnar Sær Ragnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sóley Tómasdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Fanný Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Ingunn Gísladóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Samþykkt að halda vinnudag leikskólaráðs miðvikudaginn 21. maí kl. 13:00 – 17:00.
Fyrirhugaður fundur leikskólaráðs 28. maí fellur niður.
2. Ráðning leikskólastjóra við leikskólann Heiðarborg.
Tveir umsækjendur voru um stöðuna.
Lagt fram álit skrifstofustjóra leikskólaskrifstofu vegna ráðningarinnar.
Lagt til að Arndís Árnadóttir verði ráðin í stöðu leikskólastjóra Heiðarborgar.
Samþykkt.
Leikskólaráð þakkar fráfarandi leikskólastjóra Heiðarborgar farsæl störf og óskar nýjum leikskólastjóra velfarnaðar í starfi.
3. Ólík úrræði í dagvistunarmálum. Umfjöllun var frestað á síðasta fundi ráðsins.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks átelja harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli. Endanlegar tillögur og forsendur þeirra bárust minnihlutanum seint í gærkvöldi sem gerir það að verkum að ekki hefur gefist nægur tími til að taka efnislega afstöðu til tillagnanna. Þó hugmyndir meirihlutans hafi verið reifaðar munnlega og í trúnaði á síðasta fundi leikskólaráðs, lágu útfærðar tillögur ekki fyrir.
Það er kaldhæðið að þessi málsmeðferð skuli viðhöfð í leikskólaráði á sama fundi og lokaskýrsla stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitu Reykjavíkur er lögð fram til kynningar. Vinnubrögðin eru enda í fullu samræmi við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið af hálfu Sjálfstæðismanna fram til þessa. Mikill asi, samráðsleysi og leynd gera það að verkum að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fá hvorki ráðrúm né upplýsingar til að taka afstöðu til mikilvægra mála, hvort heldur sem þau varða menntun, umhverfi, orku eða forgangsröðun fjármuna.
Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fyrir lágu allar hugmyndir og upplýsingar um efnislegar ákvarðanir fyrir tveimur vikum. Málið á eftir að fá pólitíska umfjöllun og umræðu í borgarráði og í borgarstjórn.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram svohljóðandi tillögu um Borgarbörn – tímasetta aðgerðaráætlun í uppbyggingu á þjónustu fyrir reykvísk börn:
Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks. Höfuðmarkmið leikskólaráðs Reykjavíkurborgar er að tryggja börnunum framúrskarandi nám og umönnun í leikskólum. Til að ná því marki þarf að huga að mörgu. Byggja þarf skóla í takt við fjölgun barna í borginni og mæta auknum kröfum foreldra um lengri dvalartíma. Fjölga þarf rýmum fyrir yngri börn í leikskólum og tryggja að fagmenntuðu starfsfólki fjölgi. Þá þarf að setja skýr markmið og fylgja eftir kröfum um gæði í skólastarfi. Samfara þessari uppbyggingu er það markmið leikskólaráðs að tryggja foreldrum aðgengi að öðrum umönnunarúrræðum, s.s. dagforeldrum. Brýnt er að setja tímasett markmið til að foreldrum sé ljóst að unnið er samkvæmt metnaðarfullri aðgerðaráætlun.
Aðgerðaráætlunin heitir Borgarbörn og endurspeglar skref Reykjavíkurborgar á næstu 4 árum að því framtíðarmarkmiði borgarstjórnar að tryggja foreldrum val um dagvistarþjónustu frá því að fæðingarorlofi lýkur. Aðgerðaráætlunin Borgarbörn hefur það markmið að fjölga leikskólaplássum og kynna ný og ólík úrræði fyrir börn í Reykjavík með það að markmiði að bæta þjónustu við foreldra og börn. Í áætluninni kemur fram að á næstu þremur árum verði leikskólaplássum fjölgað í nýjum leikskólum og nýjum deildum bætt við rótgróna leikskóla. Einnig verða í henni tímasetningar á nýjungum eins og nýjum úrræðum í þjónustu dagforeldra, samningar við dagforeldra, þjónustutrygging, ungbarnaskólar, jöfnun niðurgreiðslna til sjálfstætt rekinna leikskóla, rafræn innritun í leikskóla samhliða nýjum upplýsingavef um dagvistunarmöguleika.
Greinargerð fylgir.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að foreldrar í Reykjavík sem hafa fullnýtt fæðingarorlof sitt, sótt um í leikskóla fyrir barn sitt og eru á biðlista eftir plássi, geti fengið þjónustutryggingu. Þjónustutrygging er jafn há greiðsla og Reykjavíkurborg greiðir með barni sem er í vistun hjá dagforeldri. Þjónustutrygging stendur til boða eftir að fæðingarorlofi lýkur, við 6 mánaða aldur hjá einstæðum foreldrum og við 9 mánaða aldur hjá giftum foreldum og þeim sem eru í sambúð. Þjónustutrygging gildir þar til barn fær boð um vistun í leikskóla eða gefst kostur á dagforeldri að ósk foreldra (allt þar til barnið verður 2 ára). Þjónustutrygging borgarinnar stendur til boða frá 1. september 2008 og verða umsóknir á rafrænu formi.
Þjónustutrygging er tímabundin greiðsla til foreldra á meðan þeir brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær þjónustu dagforeldra eða leikskóla, s.s. til að greiða þriðja aðila, skyldmenni eða öðrum, fyrir aðstoð. Foreldrar sem þiggja þjónustutryggingu en ráðstafa henni ekki til þriðja aðila skipta á milli sín greiðslutímabilinu á sambærilegan hátt og lög um fæðingarorlof gera ráð fyrir. Markmiðið með skiptingu á milli foreldra er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Greinargerð fylgir.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að sett verði á laggir rannsóknarverkefni í samstarfi við Rannsóknarstofu í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands. Í því verði skoðað hvernig reykvískir foreldrar haga umönnun barna sinna frá því að fæðingarorlofi sleppir, ástæður fyrir ólíku vali foreldra á þjónustu fyrir börn sín og hvernig foreldrar nýta og upplifa tímabundna þjónustutryggingu. Rannsóknin dragi fram tölulegar staðreyndir (megindleg rannsókn) og varpi ljósi á skoðanir foreldra með ólíkan bakgrunn, m.a. með viðtölum (eigindleg rannsókn). Nánari rannsóknaráætlun verði kynnt leikskólaráði í vor og er miðað við að rannsókn ljúki í ágúst 2009.
Greinargerð fylgir.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Þar sem fulltrúar minnihlutans hafa ekki haft nægilegt svigrúm til að kynna sér efnislega tillögur meirihlutans sitja þeir hjá við afgreiðslu málsins.
Í þeim gögnum sem hér hafa verið lögð fram kemur ekki fram hvernig umsýsla og eftirlit með „þjónustutryggingunni” verði háttað né heldur hver kostnaður við slíkt verði. Ekki hafa heldur fengist svör við ráðstöfunum vegna mögulegra stétt- og kynbundinna áhrifa í kjölfar ákvörðunarinnar. Niðurgreiðslur til einkarekinna leikskóla orka mjög tvímælis á grundvelli samkeppnissjónarmiða með tilliti til starfsemi dagforeldra. Forsendur gjaldskrár og innritunar eru ekki ljósar og því hætta á að jafnræðissjónarmiða verði ekki gætt. Faglegt mat hefur auk þess ekki verið lagt á gildi ungbarnaleikskóla umfram inntöku yngri barna í hefðbundna leikskóla.
Afgreiðsla tillagnanna án svara við þeim spurningum sem hér að framan hafa verið raktar getur varla talist vel ígrunduð. Auk þeirra höfðu fulltrúar minnihlutans fjölda annarra spurninga, sem ekki var veittur tími til að afgreiða. Boðaður blaðamannafundur meirihlutans var framar í forgangsröð formanns en lýðræðisleg umræða á vettvangi fjölskipaðs stjórnvalds. Heillavænlegra hefði verið fyrir borgarbúa ef kjörnir fulltrúar færu sér hægar og leituðu svara við þeim óvissuþáttum sem enn eru til staðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fyrir lágu allar hugmyndir og upplýsingar um efnislegar ákvarðanir fyrir tveimur vikum. Málið á eftir að fá pólitíska umfjöllun og umræðu í borgarráði og í borgarstjórn.
4. Lögð fram eftirfarandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og F-lista sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 18. mars sl. að vísa til leikskólaráðs:
Lagt er til að Reykjavíkurborg geri áætlun um hvernig höfuðborgin verði í fremstu röð sveitarfélaga varðandi kynningu fyrir börn og unglinga á starfs- og iðnnámi. Það verði gert m.a. með skipulagðri starfs- og námsfræðslu í öllum skólum og færanlegum vinnustofum fyrir námskeið í iðnnámi í samstarfi við atvinnulífið og iðnskóla borgarinnar.
Greinargerð fylgir.
Afgreiðslu frestað.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingar:
Leikskólaráð samþykkir að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að mynda starfshóp sem hefur það hlutverk að útfæra tillögur um hvernig flutningur barna milli leik- og grunnskóla geti orðið sem ánægjulegastur og árangursríkastur fyrir börn með fatlanir og sérþarfir. Starfshópurinn gæti safnað saman hugmyndum og verkefnum sem nú þegar eru í gangi í Reykjavík og í öðrum sveitafélögum. Nauðsynlegt er að starfshópurinn verði skipaður starfsmönnum af Leikskólasviði sem og Menntasviði. Tillögurnar verði kynntar fulltrúum leikskólaráðs.
Greinargerð fylgir.
Afgreiðslu frestað.
6. Skipan starfshóps um framtíð gæsluleikvalla.
Frestað.
7. Lokaskýrsla stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitu Reykjavíkur lögð fram til kynningar.
8. Sumarbréf leikskólaráðs til foreldra/starfsfólks.
Frestað.
9. Lögð fram skýrsla um námsferð leikskólastjóra til Prag haustið 2007.
Umfjöllun frestað.
10. Formaður þakkaði Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur hennar störf, en hún sat nú sinn síðasta fund sem áheyrnarfulltrúi starfmanna leikskóla í ráðinu.
Fundi slitið kl. 15:15
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Ragnar Sær Ragnarsson
Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sóley Tómasdóttir