Skóla- og frístundaráð
Fræðsluráð
Ár 2004, 19. nóvember kl. 15:30, hélt fræðsluráð Reykjavíkur aukafund á Fræðslumiðstöð og var þetta 222. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, Katrín Jakobsdóttir, Vigdís Hauksdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Gísli Helgason áheyrnarfulltrúi F-lista, Daníel Gunnarsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Ólafur Loftsson og Sigrún Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Arthur Morthens forstöðumaður þjónustusviðs, Runólfur Birgir Leifsson forstöðumaður fjármálasviðs, Ingunn Gísladóttir starfsmannastjóri og Guðmundur Þór Ásmundsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar LN við FG, kynnti nýgerðan kjarasamning og bókanir við hann.
2. Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Fræðsluráð felur Fræðslumiðstöð að undirbúa úttekt á kjarasamningaferlinu sem leiddi til þess ófremdarástands að skólar voru lokaðir vikum saman vegna verkfalls kennara.
Skipaður verði hópur sérfræðinga sem greini form kjaraviðræðna, kosti og galla; fjalli sérstaklega um framsal valds sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa til launanefndar og greini störf hennar. Leitað verði til talsmanna deilenda um upplýsingar og álit á samningsferlinu og hvers vegna svo hafi tekist til sem raun ber vitni. Hópurinn skili áliti um vænleg vinnubrögð í framtíðinni. Niðurstaða úttektar verði birt í skýrsluformi. Fræðslumiðstöð kynni drög að skipunarbréfi eða samningi vegna þessa þegar á næsta fundi fræðsluráðs, 1. des nk.
Samþykkt einróma.
3. Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Fræðsluráð samþykkir að stofna starfshóp sem í eigi sæti annar áheyrnafulltrúa kennara í fræðsluráði, áheyrnarfulltrúar foreldra og skólastjóra ásamt einum fulltrúa frá meirihluta og einum frá minnihluta fræðsluráðs. Starfshópurinn skili tillögum til fræðsluráðs um:
a) Hvernig staðið verði að námsframboði til nemenda sem vilja bæta sér upp tapaðan námstíma vegna nýafstaðins verkfalls
b) Hvernig stutt verði við það uppbyggingarstarf sem hafið er í skólunum til þess að lágmarka neikvæð áhrif verkfallsins á skólastarf.
Hópurinn skili tillögum sínum á fundi fræðsluráðs í desember nk.
Ritari fræðsluráðs starfi með hópnum.
Samþykkt einróma
4. Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Fræðsluráð felur fræðslustjóra að láta meta gildi og möguleika bókunar nr. 5 í kjarasamningi um aukinn sveigjanleika í skólastarfi með breyttum vinnutímaskilgreiningum.
Samþykkt einróma.
5. Fræðslustjóri gerði grein fyrir því helsta sem fram kom á fundi skólastjóra sem haldinn var í gær, 18. nóvember.
6. Áheyrnarfulltrúi F- listans og fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt upplýsingum sem nú liggja fyrir hefur Tónskóli Hörpunnar lagt fram stjórnsýslukæru á hendur Reykjavíkurborg til félagsmálaráðuneytisins. Kæran var lögð fram 17. nóvember sl. Þess skal getið að tónskóli Hörpunnar fær úthlutað til kennslu 58 nemenda, en í skólanum eru 134 börn. Flestir tónlistarskólar í Reykjavík, þ.á.m. þeir tveir aðrir skólar sem eru í Grafarvogi, fá að fullu greitt með nemendum sínum. Því er spurt:
Hvernig stendur á þessari mismunun?
Fundi slitið kl. 16:30
Stefán Jón Hafstein
Katrín Jakobsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Vigdís Hauksdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir