Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð



Ár 2008, 16. desember var haldinn 88. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 12.06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Einar Örn Ævarsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Laufey Ólafsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 9. des. sl. um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.

2. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að veita Safamýrarskóla 500 þúsund króna framlag vegna opnunar skynörvunarstofu. Ætlunin er að framlagið nýtist til kaupa á búnaði fyrir stofuna og að hann verði grunnur að gagnabanka hennar.

- Kl.12.12 tóku Oddný Sturludóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir sæti á fundinum.

3. Drög að starfs- og fjárhagsáætlun menntasviðs 2009 og fjárfestingaráætlun framkvæmda- og eignasviðs sem snertir menntasvið lögð fram.
Áheyrnarfulltrúi F-lista lagði fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að frá og með haustinu 2009 hefjist kennsla í grunnskólum Reykjavíkur kl. 8.50 að morgni.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1. Í drögum að fjárhagsáætlun eru tillögur borgarstjóra um lækkun launakostnaðar sem fela í sér kröfu um meðaltalslækkun yfirvinnugreiðslna. Það er gríðarlega mikilvægt að stíga hér varlega til jarðar enda yfirvinna kennara að mestu leyti töflusett dagvinna.
- Hvernig hefur þessi ákvörðun verið kynnt og samráði verið háttað, við t.d. fagfélög kennara, skólastjóra og annars starfsfólks?
- Leiðir þessi ákvörðun til launajöfnunar eða aukins ójafnaðar í launum?
- Liggur eitthvað fyrir um áhrif á starfsemi grunnskólanna? Mun koma til kennsluskerðingar í trássi við grunnskólalög?
- Hvað sparast mikið í ramma menntasviðs gangi þessar tillögur eftir?
- Hvernig verður framkvæmdin og hvenær kemur þetta til framkvæmda?
2. Í nýjustu drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á öll sviðin, sem er viðbót við þær sparnaðartillögur sem þegar höfðu verið kynntar.
- Hefur verið haft samráð við starfsfólk menntasviðs, starfsfólk grunnskóla, tónlistarskóla og annarra starfsmanna sem fjárhagsáætlun menntasviðs snertir?
- Á hvaða þætti starfseminnar hefur niðurskurðurinn mest áhrif?
- Hverjar eru tillögur borgarstjóra og meirihlutans um hvar þessi flati niðurskurður komi niður?
- Hvernig metur meirihlutinn raunhæfni þessara krafna án þess að skerða þá grunnþjónustu sem grunnskólar í Reykjavík sinna?
Fulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Samfylkingin hefur lýst sig reiðubúna frá upphafi fjárhagsáætlunarvinnunnar að sýna fyllstu ábyrgð við þessar erfiðu aðstæður og tekið þátt í að endurskoða hvern þátt starfseminnar með það fyrir augum að yfirvofandi niðurskurður komi sem minnst niður á mikilvægri starfsemi menntasviðs. Því olli það miklum vonbrigðum að örfáum dögum áður en frumvarpið átti að leggja fram í borgarráði komu fram tillögur borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð, sem skipta átti á sviðin, og mikla lækkun yfirvinnugreiðslna. Þessi sparnaður, leggst ofan á þær niðurskurðartillögur sem sviðin höfðu áður lagt fram. Ekkert samráð var haft við starfsfólk, stéttarfélög, samtök foreldra né borgarfulltrúa minnihlutans vegna þessara tillagna borgarstjóra og Samfylkingin gerir alla fyrirvara á raunhæfni þeirra. Aðgerðarhópur borgarstjóra mun eiga eftir að taka endanlega afstöðu til fjárhagsáætlunarinnar og vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í menntaráði koma eftirfarandi ábendingum til hópsins sem nauðsynlegt er að horfa til við lokafrágang áætlunarinnar.
Nauðsynlegt er að aðgerðarhópur:
a) standi vörð um faglegt skólastarf og forgangsraði fjármunum borgarsjóðs í þá veru. Sérstaklega skal horft til þess að verja sérkennslu og hagsmuni þeirra barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hafa verður hugföst þau ,,prinsipp” aðgerðarhóps að verja störf, verja grunnþjónustu og hækka ekki gjaldskrár.
b) fjalli um hagræn áhrif þess að samþætta betur frístunda- og skólastarf. Jákvæð fagleg áhrif samþættingar eru augljós en að mati fulltrúa Samfylkingarinnar eru hin hagrænu áhrif ekki síður athyglisverð.
c) skoði gaumgæfilega hvað niðurskurður til tónlistarskóla hefur raunverulega í för með sér. Enn og aftur ítreka fulltrúar Samfylkingarinnar mikilvægi samráðs við þá sem þekkja best til. Enn og aftur harma fulltrúar Samfylkingarinnar að frumvarp til laga um tónlistarskóla skuli ekki hafa verið lagt fram af menntamálaráðherra svo binda megi enda á áratugalanga deilu milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarhlutdeild framhaldsnáms í tónlist.
d) skoði hvort jafnræðis sé gætt milli borgarrekinna skóla og sjálfstætt rekinna skóla. Styrkir til sjálfstætt rekinna skóla hafa hækkað til muna milli ára en stíf hagræðingarkrafa sett á borgarrekna skóla. Skoða þarf hvort beina eigi því til ríkisvaldsins að endurskoða lög sem kveða á um að framlög sveitarfélaga til sjálfstætt rekinna skóla skuli fylgja vísitölubreytingum – og hvort það stangist á við jafnræðisreglu.
e) kanni kostnaðaráhrif þess að hjúskaparstaða og systkinafjöldi komi til lækkunar fæðisgjalda vegna barna í grunnskólum.
f) taki afstöðu til þess að allir þættir sem snerta atvinnumál ungs fólks, m.a. Nýsköpunarsjóður námsmanna, verði varðir og fluttir á sérstakan lið sem stýrt verður miðlægt. Fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýna harðlega að Nýsköpunarsjóður námsmanna sé skorinn niður þegar blasir við mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks í Reykjavík.
Að lokum vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í menntaráði vara við því að fjárhagsáætlun verði samþykkt án þess að fyrir liggi hvernig mæta eigi hagræðingarkröfu á menntasviði og hvort hægt verði að uppfylla lagaforsendur miðað við forsendur fjárhagsáætlunar.
Áheyrnarfulltrúar Skólastjórafélags Reykjavíkur og Kennarafélags Reykjavíkur óskuðu bókað:
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í menntaráði Reykjavíkur vara alvarlega við hugmyndum um niðurskurð á yfirvinnu í grunnskólum borgarinnar eins og þær birtast í fundargögnum yfirstandandi fundar. Gangi þessar áætlanir eftir er hætt við að lögbundinni kennslu og stoðþjónusta í skólum borgarinnar verði ógnað – auk þess sem markmiðum borgarráðs um að verja grunnþjónustu borgarinnar verði þar með kastað fyrir róða.
Fulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óskuðu bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista í menntaráði geta ekki fallist á þær forsendur sem gengið hefur verið út frá við gerð fjárhagsáætlunar. Tvennt skiptir þar mestu máli; óbreytt útsvarsprósenta og sú ákvörðun að skila rekstri borgarinnar hallalausum. Vinstri græn og F-listi leggja þunga áherslu á að skattar verði notaðir sem það jöfnunartæki sem þeim er ætlað að vera, auk þess sem borgin verður að afla sér nauðsynlegra tekna til að standa undir grunnþjónustu. Því er með öllu óásættanlegt að í frumvarpi um fjárhagsáætlun sé ekki gert ráð fyrir 0,25#PR hækkun á útsvari eins og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 gerir ráð fyrir og gæti skapað borginni 680 milljónir króna í tekjur. Jafnframt er ljóst að miðað við þær aðstæður sem sveitarfélög búa við í yfirstandandi samdrætti verður ekki komið til móts við tekjuskerðingu án þess að gengið sé á grunnþjónustu umfram það sem ásættanlegt gæti talist. Sú óskilgreinda hagræðingarkrafa sem gerð er í fyrirliggjandi frumvarpi er í raun og veru ekkert nema halli sem meirihlutinn treystir sér ekki til að horfast í augu við og útfæra nánar, enda myndu allar tilraunir til slíks enda með því að meginreglur aðgerðaráætlunar borgarstjórnar, um að standa vörð um störfin og grunnþjónustuna og halda gjaldskrám óbreyttum, yrðu brotnar. Fulltrúar Vinstri grænna og F-lista leggja þunga áherslu á að hvergi verði hvikað frá metnaðarfullu skólastarfi enda sé það hornsteinn að farsæld og hamingjuríku lífi skólabarna í borginni og fjölskyldna þeirra. Mikilvægt er að gera sér ljóst að allar ákvarðanir sem teknar eru í þessum málaflokki munu hafa áhrif á stöðu mála í framtíðinni. Verði skólinn starfræktur á metnaðarfullan hátt á meðan mestu umbrotatímarnir í samfélaginu ganga yfir mun það skila sér í styrkari einstaklingum til framtíðar. Á sama hátt mun metnaðarlítið starf og niðurskurður frá því sem nú er, skila sér með verr undirbúnum einstaklingum til að takast á við lífið. Fulltrúar Vinstri grænna og F-lista leggja þunga áherslu á að mikilvægt er að standa vörð um skólastarf með líðan barna og öryggi að leiðarljósi. Á tímum þegar heimilin eiga í vök að verjast er nauðsynlegt að skólinn sé það skjól sem honum ber að vera. Skólamáltíðir eru þar lykilatriði og verður erfitt fyrir Vinstri græn að standa að lokaafgreiðslu fjárhagsáætlunar án þess að þar sé gert ráð fyrir frekari niðurgreiðslum.
Kennarastarfið er flókið starf þar sem reynir bæði á faglega og persónulega þætti. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að styðja sem best við kennarastéttina og annað starfsfólk grunnskóla þegar búast má við að aukið álag verði á það vegna aðstæðna barna og unglinga heima fyrir. Því er öllum hugmyndum um niðurskurð í kennslu mótmælt. Engar breytingar verði gerðar á vinnutíma, þ.m.t. yfirvinnu. Allar breytingar á innra starfi grunnskóla verði í nánu samráði við Kennarasamband Íslands og önnur stéttarfélög sem hlut eiga að máli. Fulltrúar Vinstri grænna og F-lista gera athugasemd við niðurskurð í almennum grunnskólum þegar sjálfstætt reknir skólar virðast halda sínum styrkjum verðbættum. Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna og F-lista við frumvarp að starfs- og fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og áskilja fulltrúarnir sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun í menntamálum borgarinnar á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.
Fulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu hátt hlutfall af yfirvinnu kennara við grunnskóla Reykjavíkur er vegna lögboðinnar kennslu grunnskólabarna? Hvernig verður komið til móts við lögboðna kennslu komi til fyrirhugaðs niðurskurðar á yfirvinnu kennara?
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykki að fela fræðslustjóra að leita lausna svo skólahald geti hafist næsta haust í Úlfarsárdal, í nánu samráði við foreldra barna í hverfinu. Nýsamþykkt skólastefna fyrir grunnskóla Úlfarsárdals byggir á sköpun og óhefðbundnum leiðum í skólastarfi, miklu foreldrasamstarfi, nýrri nálgun í samþættingu skóla- og frístundastarfs og miklu vægi umhverfismenntar og lýðheilsu. Skólinn gæti verið í bráðabirgðarhúsnæði til að byrja með og skoða ætti kosti samvinnu með leikskóla hverfisins sem og samvinnu við aðra skóla í nágrenninu.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Undanfarna mánuði hefur þverpólitískur aðgerðarhópur vegna stöðu efnahagsmála farið yfir áætlanir allra sviða og fyrirtækja borgarinnar undir dyggri forystu formanns borgarráðs. Undir kringumstæðum eins og þeim sem nú ríkja í þjóðfélaginu er mikilvægt að borgarfulltrúar allir hugi að hag Reykvíkinga og tryggi, eins og borgarstjórn er sammála um, grunngildi til að vinna með í gegnum þessa erfiðu tíma. Samstaða er um að verja grunnþjónustuna, verja störf borgarstarfsmanna og hækka ekki gjöld fyrir grunnþjónustu að svo stöddu. Drög að fjárhagsáætlun fyrir hvert svið liggja fyrir borgarráði nk. laugardag og sýna í fyrsta sinn hvernig tekist er á við afleiðingar lækkandi tekna borgarinnar. Fagna ber að náðst hafi að leggja fram hallalausri áætlun. Komið er að erfiðum ákvörðunum um hagræðingu og segja má að nú reyni fyrst á það pólitíska samráð sem áður var nefnt þegar hagræðingaraðgerðir koma til framkvæmda sem snerta beina þjónustu við borgarbúa. Meirihluti menntaráðs vill þakka sérstaklega menntasviði og öllum þeim sem hafa komið að þessari miklu vinnu sem liggur til grundvallar fjárhagsáætlun og þakkar fyrir faglega og skýra starfsáætlun sem liggur til grundvallar vinnu næsta árs.

Formaður boðaði til aukafundar í menntaráði föstudaginn 19. des. kl. 14.00 til áframhaldandi umræðu um drög að starfs- og fjárhagsáætlun menntasviðs 2009.

Fundi slitið kl. 14.05

Kjartan Magnússon
Einar Örn Ævarsson Lilja D. Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir