Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2008, 26. nóv. var haldinn 86. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Háteigsskóla í Reykjavík og hófst kl. 09:04. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjóra-félags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Guðrún Edda Bentsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir. Fundarritarar voru Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Ásgeir Beinteinsson skólastjóri Háteigsskóla kynnti skólann og svaraði fyrirspurnum. Í framhaldi veittu Ásgeir og Þórður Óskarsson aðstoðarskólastjóri fundarmönnum leiðsögn um skólann og kynntu starfið.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir góðar móttökur og kynningu á starfi Háteigsskóla. Greinilegt er að í skólanum er unnið af miklum metnaði á öllum sviðum.
2. Lögð fram auglýsing um viðbragðs- og samhæfingarteymið Börnin í borginni og fyrsta fréttabréf teymisins. Fræðslustjóri sem stýrir teyminu kynnti vefsvæði verkefnisins og starf teymisins.
-Kl.10:06 tók Lilja Dögg Alfreðsdóttir sæti á fundinum.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Aðalfundur Skólastjórafélags Reykjavíkur haldinn á Grand Hótel 7. nóvember 2008 lýsir ánægju sinni með stofnun samráðshópsins „Börnin í borginni“ vegna hins mikla efnahagsvanda sem nú steðjar að borgarbúum sem og öðrum landsmönnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð lýsir yfir ánægju sinni með það kröftuga framtak sem verkefnið „Börnin í borginni“ er.
3. Lagt fram minnisblað, skólaselið í Keilufelli - úttekt á starfsemi. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs gerði grein fyrir úttektinni og svaraði fyrirspurnum.
- Kl.10:52 vék Sigríður Pétursdóttir af fundi og Friðrik Dagur Arnarsson tók þar sæti.
4. Lagt fram minnisblað, fylgni á milli niðurstaðna lesskimunar í 2. bekk og niðurstaðna í samræmdum könnunarprófum í íslensku í 4. bekk. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra að fylgja eftir við skólastjóra niðurstöðum á fylgni milli lesskimunar í 2. bekk og niðurstaðna í samræmdum könnunar prófum í íslensku í 4. bekk. Menntaráð telur mikilvægt að skólarnir vinni markvisst með þessar niðurstöður.
-Kl.11:50 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Elínbjörg Magnúsdóttir tók þar sæti.
5. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrétar Sverrisdóttur og áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokks frá 14. apríl sl. varðandi grunnskólanemendur sem ljúka samræmdum prófum í 8. og 9. bekk. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu gerðu grein fyrir málinu og svöruðu fyrirspurnum.
6. Lagt fram minnisblað, Íslenskuverðlaun menntaráðs. Oddný Sturludóttir fulltrúi í nefndinni sagði frá verðlaunaafhendingunni.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Fulltrúinn lýsir yfir ánægju sinni með íslenskuverðlaun menntaráðs og óskar því til hamingju með framkvæmd þeirra. Til að efla íslenska tungu ennfrekar er skorað á menntaráð Reykjavíkur að beita sér fyrir því að hugbúnaður sá sem notaður er í grunnskólum borgarinnar verði á íslensku frá og með haustinu 2009.
7. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 21. nóv. sl. um móðurmálskennslu fyrir íslensk börn eftir langvarandi dvöl erlendis, farið verði í gerð kostnaðaráætlunar vegna reksturs Íslenskuskólans og viðræður við menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um hugsanlegt samstarf.
Samþykkt.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra fagnar því að skoðaður verði kostnaður vegna reksturs Íslenskuskólans. Börn af íslenskum uppruna sem lengi hafa verið búsett erlendis hafa ekki notið nauðsynlegs stuðnings í íslensku þegar þau hafa snúið heim. Námsframboð Íslenskuskólans mun án efa styrkja og örva móðurmálið og flýta fyrir aðlögun þeirra og framförum þegar heim er komið.
8. Fjárhagsáætlun Menntasviðs 2009. Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs sagði frá stöðu mála við gerð hennar og tímasetningum varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunar borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Aðalfundur Skólastjórafélags Reykjavíkur haldinn á Grand Hótel 7. nóvember 2008 lýsir þungum áhyggjum af fyrirsjáanlegum samdrætti í tekjum Reykjavíkurborgar. Mjög stór hluti útgjalda borgarinnar ár hvert fer til rekstrar grunnskólanna í borginni. Verkefni grunnskólanna lúta að lögvörðum rétti barna til menntunar og þeirri stefnu að veita börnum og unglingum í borginni bestu mögulegu menntun á hverjum tíma og því afar óhægt um vik við niðurskurð verkefna á vegum skólanna. Fundurinn telur mikilvæga þá yfirlýsingu borgarstjórnar að grunnþjónusta skólanna verði tryggð.
Á tímum efnahagslegra þrenginga er mikilvægara en nokkru sinni að sjálfstæði skólanna sé tryggt og að leikreglur í samskiptum borgaryfirvalda og skóla séu skýrar og gagnsæjar. Skólastjórar í Reykjavík óska eindregið eftir að borgaryfirvöld hafi við þá náið samráð um hvaðeina er snertir starfsemi grunnskólanna á þeim tímum sem í hönd fara.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
Grunnskólinn er ein af undirstöðunum sem við byggjum íslenskt samfélag á og snertir líf fjölmargra fjölskyldna á einn eða annan hátt. Fulltrúi foreldra í menntaráði leggur áherslu á að borgaryfirvöld taki höndum saman og standi vörð um grunnskólann nú þegar erfitt efnahagsástand ógnar allri starfsemi hans. Nú ríður á að treysta, en ekki veikja, menntun ungu kynslóðarinnar því hún er lykillinn að uppbyggingu og þróun lífvænlegs samfélags á Íslandi.
Fundi slitið kl. 12:55
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Friðrik D. Arnarsson Lilja D. Alfreðsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigrún Elsa Smáradóttir