Skóla- og frístundaráð
Menntaráð
Ár 2008, 22. okt. kl. 10:05 var haldinn 84. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Marta Guðjónsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Ingvar Jónsson, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson. Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Ingvar Jónsson velkominn til fyrsta fundar í menntaráði.
1. Olweusarverkefnið gegn einelti í grunnskólum Reykjavíkur - Þorlákur H. Helgason framkvæmdastjóri kynnti verkefnið. Lagður fram bæklingur og kort Dan Olweus: Einelti meðal barna og unglinga, ráðleggingar til foreldrar og Eineltishringurinn, viðbragðsmynstur í eineltisaðstæðum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Þorláki H. Helgasyni fyrir góða kynningu á Olweusarverkefninu. Tuttugu og tveir skólar í borginni hafa tekið upp Olweusaráætlunina og hefur þetta metnaðarfulla verkefni farið vel af stað. Olweusarverkefnið er mikilvægt hjálpartæki fyrir starfsfólk skólanna til að efla hæfni þess til að taka á eineltismálum. Markmiðið með verkefninu er að veita nemendum öryggi og að þeim líði vel í skólanum. Í ljósi óvissu í þjóðfélaginu vegna efnahagserfiðleika hvetur menntaráð skóla borgarinnar til að efla enn frekar starf gegn einelti meðal nemenda og starfsmanna skólanna.
2. Lagt fram minnisblað - upplýsingar um nemenda- og deildafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2008 - 2009. Deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu, sem sat fundinn undir þessum lið, gerði grein fyrir málinu og kynnti spá um nemendaþróun í Reykjavík næstu ár.
- Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnisstjóri, frá skrifstofu tómstundamála á Íþrótta-og tómstundasviði sat fundinn undir liðum 3, 4 og 5.
3. Lagt fram bréf frá borgarráði, dags. 6. maí sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 22. apríl sl., eftirfarandi tillögu varðandi bætta tungumálakennslu fyrir innflytjendur:
Bætt tungumálakennsla fyrir innflytjendur. Mikilvægt er að þessi þjónusta sé frí eða nánast frí fyrir fólk sem sest hér að svo það hafi efni á að læra tungumál í framandi landi.
Á fundinn kom Eva Brá Axelsdóttir, Ungmennaráði Breiðholts, sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Evu Brá Axelsdóttur fyrir góða tillögu. Reykjavíkurborg hefur styrkt þessa kennslu til þessa auk þess sem ríkið greiðir 75#PR af kostnaði vegna hennar. Nýverið samþykkti menntaráð að gefin yrði út námskort fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga sem felur í sér að þeir geti valið hvar þeir stunda hana. Borgarráð hefur vísað þessari tillögu til fjárhagsáætlunargerðar. Reykjavíkurborg er auk þess með starfstengda íslenskukennslu fyrir sína starfsmenn. Menntaráð felur fræðslustjóra að hvetja foreldrafélög í skólum borgarinnar til að efla samskipti við börn og foreldra af erlendum uppruna.
4. Lagt fram bréf frá borgarráði, dags. 6. maí sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 22. apríl sl., eftirfarandi tillögu varðandi endurnýjun forvarnarfræðslu grunn- og framhaldsskóla:
Nýjar hættur herja á þjóðfélagið og það þarf að grípa inn í fyrr. Forvarnarfræðslu grunn- og framhaldsskóla þarf nú virkilega að endurnýja. Það sem við viljum sjá nýtt koma fram í forvarnarfræðslu skólanna eru forvarnir varðandi t.d. tölvuleikjafíkn, betri sjálfsímynd, spilafíkn og varðandi kynþáttafordóma innanlands. þetta er nútíminn í dag og við verðum bara að opna augun fyrir þessu nýja.
Á fundinn kom Jóhann Einarsson, Ungmennaráði Kringluhverfis sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Jóhanni Einarssyni í Ungmennaráði Kringluhverfis fyrir góða tillögu. Í öllum skólum borgarinnar á að vera til forvarnaráætlun og er fræðslustjóra falið að ítreka við skólana að hafa stefnuna sýnilega, að hún sé kynnt reglulega og að benda á þær áherslur sem fram koma í umræddri tillögu.
5. Lagt fram bréf frá borgarráði, dags. 6. maí sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 22. apríl sl., eftirfarandi tillögu varðandi að efla og bæta lífsleiknikennslu í grunn- og framhaldsskólum:
Að efla og bæta lífsleiknikennslu í grunn- og framhaldsskólum. Þessi tillaga snýst um það að lífsleiknikennsla í grunn- og framhaldsskólum sé betur nýtt. Sé vel búið að kennslunni hjálpar þetta fag nemendum mjög á leið út í lífið. Við vinnslu tillögurnnar var talað við nemendur og kennara frá ýmsum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá virtust allir vera á sama máli um það að sá tími sem lífsleikni fær á stundatöflu nemenda sé hvorki nógu vel nýttur né efnið samræmt á milli skóla. Því eru nemendur mis vel upplýstir á þessu sviði þegar þeir útskrifast sem er ekki í samræmi við kröfur í öðrum fögum.
Á fundinn kom Hildur Inga Sveinsdóttir, Ungmennaráði Laugardals sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Hildi Ingu Sveinsdóttur fyrir góða tillögu. Allir skólar eiga að kenna lífsleikni samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla. Þar eru skýr og mentnaðarfull markmið um kennsluna og felur því menntaráð fræðslustjóra að ítreka við skólana mikilvægi þessarar kennslu. Þá samþykkir menntaráð að óska eftir sameiginlegum Brúarfundi með leikskólaráði um lífsleikninám.
6. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrétar Sverrisdóttur og áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokks frá 26. maí sl. varðandi fræðslu til foreldra barna með sérþarfir.
7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar frá 8. okt. sl. varðandi framkvæmd tillagna um bætta þjónustu við nemendur með lestrarerfiðleika.
8. Gerð starfs- og fjárhagsáætlunar Menntasviðs 2009 kynnt. Fjármálastjóri Menntasviðs fór yfir forsendur fjárhagsáætlunargerðarinnar. Lögð fram drög að menntastefnu.
- Kl. 12.53 vék Oddný Sturludóttir af fundi.
- Kl. 13.01 vék Sigríður Pétursdóttir af fundi.
9. Lögð fram dagskrá málþings VELKOMIN Í SKÓLANN - Móttaka og vinna með börnum og foreldrum af erlendum uppruna í leikskólum og grunnskólum sem haldið verður 12. nóv. nk. kl. 9-16 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v. Stakkahlíð.
Fundi slitið kl. 13:10
Kjartan Magnússon
Jóhanna Hreiðarsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Ingvar Jónsson Bryndís Í. Hlöðversdóttir