Skóla- og frístundaráð
Menntaráð
Ár 2008, 8. október kl. 10.04 var haldinn 83. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Stefán Þór Björnsson, Marta Guðjónsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Felix Bergsson. Auk þeirra sátu fundinn Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Stefán Þór Björnsson velkominn til fyrsta fundar í menntaráði.
1. Lagðar fram niðurstöður lesskimunar í 2. bekk vorið 2008. Sérfræðingur á tölfræði- og rannsóknaþjónustu fór yfir helstu niðurstöður prófsins og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 10.18 tók Sigríður Pétursdóttir sæti á fundinum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á niðurstöðum lesskimunar í 2. bekk 2008. Lestrarfærni ungra nemenda er grundvöllur þess að námsárangur til framtíðar geti orðið sem bestur. Niðurstöður lesskimunar í 2. bekk vorið 2008 sýna að tæplega 67#PR nemenda teljast geta lesið sér til gagns. Árangur að þessu sinni jafnar það sem best hefur verið áður. Menntaráð felur fræðslustjóra að beina þeim tilmælum til skólastjóra grunnskóla að skólarnir setji sér markmið og geri aðgerðaáætlun til þriggja ára varðandi málnotkun, málörvun, lestrarfærni og lestraráhuga og skilgreini viðmið um árangur. Markmiðssetningin sé hluti af endurmati á skólanámskrá og /eða umbótaáætlun skóla.
Fulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Því ber að fagna að mælingar á lesskilningi barna í öðrum bekk sé gerð með jafn áræðanlegum hætti og raun er. Ítrekað hafa fulltrúar Samfylkingarinnar lagt ríka áherslu á að börnum með lesröskun sé mætt með viðeigandi stuðningi. Þær tölur sem nú liggja fyrir benda til þess að mælanleg hækkun er á lesskilningi barna í öðrum bekk, sem er ánægjulegt. En hvergi má slá slöku við, því síðasta PISA könnun sýndi að lesskilningur íslenskra barna stefnir niður á við. Það gefst nú ennfremur tækifæri á að fylgja eftir árgangnum sem fór í gegnum PIRLS könnunina árið 2006 og mun fara í PISA 2012, með áframhaldandi reglulegum rannsóknum og stöðugri sókn í lestrarkennslu og eflingu lesskilnings í samstarfi við heimilin og foreldrana.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurn í framhaldi af tillögu sem menntaráð samþykkti á fundi sínum 26. maí sl. þar sem fræðslustjóra var falið að: a) Koma á fót starfshópi um lestrarstefnu. b) Koma á fót námskeiðum fyrir kennara skv. tillögu framkvæmdahóps um bætta þjónustu við nemendur með sértæka lestrarerfiðleika. c) Gera tillögu að samræmdum starfsreglum grunnskóla borgarinnar um hvernig greiðslum til foreldra vegna lestrarskimana skuli háttað. Spurt er hvernig staðan sé í þessum málum?
2. Lagt fram minnisblað, staða í starfsmannamálum í grunnskólum Reykjavíkur 1. október 2008. Starfsmannastjóri gerði grein fyrir málinu.
3. Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 23. sept. sl. þar sem svarað er ýmsum spurningum vegna framkvæmdar nýrra laga vegna samræmdra könnunarprófa í 10. bekk. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
4. Lagt fram bréf frá SAMFOK dags. 2. júlí sl. þar sem fram koma upplýsingar um nýja stjórnarskipan sambandsins og skýrsla stjórnar. Bergþóra Valsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOKs kynnti málið. Fræðslustjóri sagði frá þjónustusamningi á milli Menntasviðs Reykjavíkur og SAMFOK, dags. 7. okt. sl.
5. Bókun menntaráðs:
Í ljósi erfiðleika í íslensku atvinnulífi og vanda heimila, hvetur menntaráð skólastjóra grunnskóla að standa í auknum mæli vörð um velferð nemenda og styðja þá í skólastarfi sem frekast er unnt.
Fundi slitið kl. 11.27
Kjartan Magnússon
Stefán Þór Björnsson Marta Guðjónsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Bryndís Í. Hlöðversdóttir
Felix Bergsson Sigríður Pétursdóttir