Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Menntaráð

Ár 2008, 24. september kl. 10.00 var haldinn 82. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Fundinn sátu Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður menntaráðs, Marta Guðjónsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Eva Kamilla Einarsdóttir, Felix Bergsson og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 22. sept. sl. um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.

2. Lagt fram yfirlit yfir fundi menntaráðs veturinn 2008 - 2009 með fyrirvara um breytingar.

3. Verkefnastjóri á skrifstofu fræðslustjóra kynnti áætlun heildarmats á skólastarfi skólaársins 2008-2009 og niðurstöður mats sem fór fram á vorönn síðasta skólaárs. Hann gaf jafnframt yfirlit yfir framkvæmd menntastefnu borgarinnar samkvæmt því mati sem farið hefur fram.

-Kl. 11.00 vék Ásta Þorleifsdóttir af fundi og Kjartan Eggertsson tók þar sæti.

4. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð samþykkir að framlengja til áramóta 2008-2009 samning sem gerður var í sept. 2005 við Mími – símenntun ehf. um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Jafnframt samþykkir menntaráð að frá 1. janúar 2009 til loka kjörtímabils verði gefin út námskort til útlendinga, með lögheimili í Reykjavík, sem hyggja á íslenskunám.
Greinargerð fylgir.
Vísað til borgarráðs.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar tilkomu námskorta fyrir einstaklinga af erlendum uppruna sem fela í sér að hver nemandi geti valið á milli mismunandi námskosta í íslenskunámi. Námskort fyrir nemendur auka val nemenda um námsframboð og ýta undir fjölbreytileika í kennslu. Með tilkomu námskortanna er gert ráð fyrir auknum sveigjanleika þannig að áhugasamir nemendur eiga kost á framhaldsnámskeiðum sem gæti orðið hvatning fyrir foreldra ungra barna sérstaklega til íslenskunáms sem hefur ótvírætt gildi fyrir nemendur og börn þeirra.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í menntaráði styðja tillögu meirihlutans um niðurgreiðslu til útlendinga í Reykjavík vegna íslenskunáms. Hins vegar átelja fulltrúar Samfylkingar seinaganginn í málinu sem sett hefur íslenskunám fjölda Reykvíkinga af erlendum uppruna í uppnám og gert stofnunum sem skipuleggja íslenskukennslu erfitt fyrir.
Samfylkingin hvetur til þess að menntasvið vinni náið með mannréttindastjóra borgarinnar og mannréttindaráði í aðdraganda framkvæmdar á tungumálakortum.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks benda á að ríkið greiðir 75#PR af kostnaði við íslenskukennslu fyrir útlendinga auk þess sem stéttarfélög styðja sína félaga til þessa náms. Reykjavíkurborg er ekki skylt að styðja við þessa kennslu og því hæpið af fulltrúum Samfylkingar að tala um seinagang og að námið í íslensku hafi verið í uppnámi. Meirihluti menntaráðs hefur verið í góðu sambandi við þá aðila sem bjóða upp á þessa kennslu og þeim átti að vera vel kunnugt um vilja hans til að styðja við áframhaldandi kennslu.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Þar sem Reykjavíkurborg stendur vel að íslenskukennslu fyrir það erlenda starfsfólk sem vinnur á vegum borgarinnar er mikilvægt að gefa fólkinu tækifæri til að sækja íslenskunámið í vinnutíma sínum og skipuleggja það þannig að námið sé ekki íþyngjandi fyrir fólk sem fyrir býr við erfiðar aðstæður í ókunnu landi. Mikilvægt er að kennslan miðist til að byrja með við þann starfsvettvang sem erlendu starfsmennirnir eru að fóta sig á og að lögð sé áhersla á að kenna fólkinu þann orðaforða sem við á hverju sinni og nýtist í þeirri starfsgrein sem það stundar. Þannig verður til grunnur sem hægt er að byggja á frekara nám og kennslu í tungumáli og menningu hins nýja heimalands.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks benda á að á vegum borgarinnar hefur verið að störfum starfshópur sem átti að skila tillögum um starfstengda íslenskukennslu fyrir starfsmenn borgarinnar. Þá hefur til langs tíma verið skipulögð starfstengd kennsla á vegum menntasviðs. Meirihlutinn leggur til að starfstengt íslenskunám á vegum borgarinnar verði kynnt sérstaklega á næstunni í ráðinu.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúi F-lista lýsir yfir ánægju með útgáfu námskorta í íslenskunámi fyrir útlendinga með lögheimili í Reykjavík.

5. Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 3. sept. sl. þar sem tilkynntar eru breytingar við framkvæmd samræmdra könnunarprófa í kjölfar nýrra laga um grunnskóla nr. 91/2008. Breytingarnar varða undanþágur frá próftöku og tímasetningu könnunarprófs í 10. bekk.

6. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í starfshópi vegna samningagerðar við sjálfstætt starfandi grunnskóla: Guðrún Pálína Ólafsdóttir, Gestur Guðjónsson, Ragnhildur B. Guðjónsdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Friðrik Dagur Arnarsson, Ásta Þorleifsdóttir, Ragnar Þorsteinsson, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Sigríður Thorlacius. Guðrún Pálína verði formaður.

7. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í starfshópi um um tónmennta- og listfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur: Anna Margrét Ólafsdóttir, Katrín Helga Hallgrímsdóttir, Ingunn Vilhjálmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sóley Tómasdóttir, Kristín Þorleifsdóttir, Harpa Björnsdóttir, Laufey Ólafsdóttir og Hildur Björk Svavarsdóttir. Anna Margrét verði formaður.

8. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í aðgerðahópi PISA: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir, Ásta Þorleifsdóttir, Árný Inga Pálsdóttir, Ólafur Örn Pálmarsson, Bergþóra Valsdóttir, Ragnar Þorsteinsson, Auður Á. Stefánsdóttir, Hildur Björk Svavarsdóttir og Steinunn Ármannsdóttir. Lilja Dögg verði formaður.

9. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í eftirfylgnihópi um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Stefán Þór Björnsson, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir, Ásta Þorleifsdóttir, Þorgerður L. Diðriksdóttir, Þorsteinn Hjartarson, Jónína Emilsdóttir, Bergþóra Valsdóttir og Nanna K. Christiansen. Lilja Dögg verði formaður.

10. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í starfshópi um heimanám nemenda í grunnskólum borgarinnar: Anna Margrét Ólafsdóttir, Guðrún Pálína Ólafsdóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir og Nanna K. Christiansen. Anna Margrét verði formaður.

11. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í valnefnd vegna barnabókaverðlauna menntaráðs: Guðrún Pálína Ólafsdóttir, Felix Bergsson og Lilja Margrét Möller. Guðrún Pálína verði formaður.

12. Menntaráð samþykkti að eftirtaldir aðilar taki sæti í valnefnd vegna hvatningaverðlauna menntaráðs: Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigurður Lyngdal Reynisson, Sigrún Gunnarsdóttir og Auður Árný Stefánsdóttir. Sigríður Ragna verði formaður.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar nýrri nálgun í skipan starfshópa á vegum ráðsins þar sem öllum flokkum er boðið að tilnefna fulltrúa. Þessi nýbreytni undirstrikar enn frekar áherslu meirihlutans á opna lýðræðislega stjórnunarhætti.

13. DA VINCI Í DAG – Uppfinningar Leonardo Da Vinci, sýning í Gallerí 100°, húsi Orkuveitunnar, 3. okt. til 28. nóv. nk. Verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu lagði fram bækling og kynnti fyrirhugaða sýningu.

Fundi slitið kl. 12.57

Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Eva Kamilla Einarsdóttir
Felix Bergsson Sigríður Pétursdóttir