Skóla- og frístundaráð
Menntaráð
Ár 2008, 10. sept. kl. 10.00 var haldinn 81. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. sept. sl. þar sem tilkynnt er að Sigríður Pétursdóttir taki sæti Helgu Bjargar Ragnarsdóttur í menntaráði. Jafnframt lagt fram bréf dags. 29. ágúst sl. þar Kjartan Eggertsson er tilnefndur varaáheyrnarfulltrúi í menntaráði.
Formaður bauð Sigríði Pétursdóttur og Sesselju Ingibjörgu Jósefsdóttur, áheyrnarfulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur velkomnar til fyrsta fundar í menntaráði.
2. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 5. sept. sl. um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.
3. Lagt fram erindi frá Margréti Pálu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar ehf., dags. 28. ág. sl., þar sem hún óskar eftir starfsleyfi fyrir Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík svo og framlagi með nemendum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir umsókn Hjallastefnunnar um stofnun sjálfstæðs rekins skóla fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla. Starfsemin skal vera í samræmi við grunnskólalög og fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits og vinnuverndar.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna styður í grunninn uppeldisstefnu Hjallastefnunnar. Hæst ber þar sú þjálfun sem börn hljóta í að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk. Vinstri græn geta þó ekki fallist á að rekstrarform stuðli að fjölbreytileika. Rekstrarform er alls óskylt uppeldis- og menntastefnum. Innan borgarkerfisins á að vera til staðar svigrúm fyrir borgarrekna leik- og grunnskóla til að taka upp hugmyndafræði óhefðbundinna uppeldis- og menntastefna. Áhersla Hjallastefnunnar á sjálfstæðan rekstur stangast þannig á við hugmyndafræði Vinstri grænna. Í bréfi framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar ehf. til menntaráðs kemur fram að nú þegar hafi 10 börn sótt um tímabundna undanþágu frá skólasókn til skólastjóra hverfisskóla sinna. Það vekur furðu í ljósi þess að samningagerð er á frumstigi við borgina og skólavist hefur ekki verið auglýst opinberlega. Þetta vekur spurningar um hvaða nemendur eiga kost á að stunda nám við skólann.
Því situr fulltrúi Vinstri grænna hjá við afgeiðslu málsins.
Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Fulltrúi kennara í menntaráði vill benda á að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að koma að kjarasamningsgerð við kennara Barnaskóla Hjallastefnunnar hafa þær tilraunir ekki enn borið árangur.
Fulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Samfylkingin leggst ekki gegn umsókn Hjallastefnunnar um stofnun sjálfstæðs rekins skóla í Reykjavík fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla, að því gefnu að starfsleyfi frá ráðuneyti menntamála liggi fyrir, samanber 43. grein grunnskólalaga.
Hins vegar árétta fulltrúar Samfylkingarinnar þá sýn sína að:
1) sjálfstætt reknir skólar eigi ekki að innheimta skólagjöld. Öll börn eiga að sitja við sama borð, óháð efnahag.
2) þótt sjálfstætt reknir skólar auki á fjölbreytileika innan skólakerfisins koma þeir ekki í staðinn fyrir borgarrekna hverfisskóla.
3) stærstur hluti skóla eigi að vera í húsnæði í eigu borgarinnar, til að tryggja stöðugleika í rekstri og góða meðferð fjármuna.
Samfylkingin mun beita sér fyrir því að þessum sjónarmiðum verði mætt í yfirstandandi þjónustusamningagerð við sjálfstætt rekna skóla - og að þeirri vinnu verði flýtt sem unnt er.
Eins er rétt að benda á að grunnskólarekstur í húsnæði Laufásborgar getur eingöngu verið tímabundinn vegna skorts á leikskólaplássum.
Að gefnu tilefni skal það áréttað að ítrustu leikreglum og fagmennsku skal gætt þegar kemur að leyfisveitingu til sjálfstætt rekinna skóla í Reykjavík. Sá seinagangur sem viðhafður hefur verið í þessu máli er hvorki meirihluta menntaráðs né Hjallastefnunni til framdráttar.
Samfylkingin óskar börnum, starfsfólki og foreldrum á Laufásborg velfarnaðar í starfi og leik.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvað líður þjónustusamningagerð við sjálfstætt rekna skóla? Munu fulltrúar minnihlutans eiga aðkomu að þeirri vinnu?
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
F-listinn býður Barnaskóla Hjallastefnunnar velkominn í hóp sjálfstætt rekinna skóla í borginni. Það er jákvæð viðbót fyrir menntunarmöguleika barna að auka fjölbreytni og fjölga valkostum foreldra um skólastefnu. Þessi bókun er gerð með fyrirvara um að ekki verði innheimt skólagjöld af nemendum heldur njóti börnin jafnræðis til skólasetu óháð fjárhag foreldra. Þá verði tryggt að húsnæði sé fullnægjandi fyrir faglegt starf og kjör kennara tryggð og eftirlit með skólastarfi gott.
-Kl. 11.20 vék Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir af fundi og Felix Bergsson tók þar sæti.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna stofnun nýs sjálfstæðs rekins grunnskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík fyrir börn á yngsta stigi. Ljóst er að hinn nýi skóli mun auka fjölbreytileika í skólastarfi Reykjavíkurborgar og er það sérstakt fagnaðarefni að grunnskólakennsla fer fram í fyrsta skipti í leikskóla. Leikskólakennarar og grunnskólakennarar munu starfa hlið við hlið og sjá um kennsluna í sameiningu á faglegan hátt. Ánægjulegt er að starfsdagur nemenda Hjallastefnunnar í Reykjavík verður heildstæður þar sem frístund er hluti af skóladeginum.
4. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð samþykkir að úthluta 40 milljónum króna til þeirra skóla sem samkvæmt viðmiðum búa við íþyngjandi félagslegar aðstæður. Úthlutað verði í tvennu lagi, fyrir haustönn 2008 annars vegar og vorönn 2009 hins vegar. Áður en til úthlutunar kemur, skili viðkomandi skólar inn áætlun um úrræði, gerð þeirra, leiðir og markmið fyrir hvora önn fyrir sig. Við lok haustannar skili skólar inn stuttri greinargerð um stöðu verkefnisins og lokaskýrslu í lok vorannar 2009.
Greinargerð fylgir.
5. Lagt fram erindi frá fundi borgarráðs 14. ágúst sl., sem vísað var til umsagnar menntaráðs, þar sem Ásta Kristrún Ragnarsdóttir óskar eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um átak í heimanámi og rekstur heimanámsstofu. Jafnframt lögð fram umsögn fræðslustjóra um verkefnið.
Umsögn fræðslustjóra samþykkt með áorðnum breytingum.
6. Fjármálastjóri Menntasviðs kynnti 6 mánaða fjárhagsuppgjör Menntasviðs.
7. Formaður og fræðslustjóri kynntu vinnu innan borgarinnar við aðgerðaáætlun vegna fjármála.
Fundi slitið kl. 12:07
Kjartan Magnússon
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Oddný Sturludóttir
Felix Bergsson Sigríður Pétursdóttir